04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

1. mál, fjárlög 1988

Jón Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, en eigi að síður vildi ég láta koma fram við 1. umr. fjárlaga örfá atriði um afstöðu mína til frv.

Ég styð meginforsendur þessa frv., en þær meginforsendur eru að afgreiða hallalaus fjárlög. Það hefur verið rakið hvers vegna slíkt er nauðsynlegt nú. Það er vegna þeirrar þenslu sem verið hefur í landinu á síðustu mánuðum og eftirspurnar og vaxandi viðskiptahalla. Fái slík þróun að halda áfram án þess að tekið sé í taumana leiðir hún til aukinnar verðbólgu sem er það versta sem fyrir getur komið í efnahagslífinu.

Það hefur verið ákveðið að sýna aðhald í ríkisfjármálum, afgreiða hallalaus fjárlög, en ég undirstrika að það er ekki nóg að hið opinbera sýni aðhald með þessum hætti. Einkaaðilar verða einnig að gæta hófs hver á sínum vettvangi og gæta þess að fjárfestingar og lántökur fari ekki úr böndunum í þeirra rekstri. Sú var nefnilega raunin á liðnu ári. Lántökur einkaaðila fóru langt fram úr því sem upphaflega var áætlað og það er ein höfuðorsök þenslunnar í landinu. Þessar lántökur fóru að drjúgum hluta í byggingu verslunar- og skrifstofuhúsnæðis og gegndarlausan innflutning.

Ég er fyrir mína parta orðinn dálítið þreyttur á því þegar talsmenn einkaframtaksins kenna ríkisfjármálunum um allan ófarnað í efnahagsmálum. Þegar hagspekingar tala enda þeir gjarnan og byrja ræður sínar á því að fjárfestingar þurfi að skila arði. Einkum er þetta þegar þarf að gefa föðurlegar áminningar til þeirra sem starfa í undirstöðuatvinnuvegum landsmanna. Sjálfsagt munu ýmsir halda því fram að stórbyggingar í verslunar- og skrifstofuhúsnæði skili miklum arði, en í því sambandi verður að vera ljóst hvað er verið að tala um. Verslunin í landinu býr við mikið olnbogarými í álagningu um þessar mundir meðan aðrar atvinnugreinar búa við strangar takmarkanir. Það er mikið vafamál hvort samkeppni er virk hér á landi og í raun hefur þessi atvinnugrein möguleika fram yfir allar aðrar í landinu til að velta kostnaðarhækkunum yfir í verðlagið. Það þarf ekki annað en að ganga hér út í bæ og sjá hinn óútskýranlega verðmun sem er í verslunum til að sannfærast um þetta. Sama er í raun að segja um þjónustustarfsemina. Útflutningsatvinnuvegirnir hafa ekki þessa stöðu. Þeir verða að búa við hinn kalda raunveruleika verðlags á erlendum mörkuðum og fast gengi. Það er því afstætt þegar menn tala um hvað er hagkvæmt og hvað er ekki hagkvæmt í þessum efnum.

Ég geri þetta að umræðuefni við 1. umr. fjárlaga af því það verður að gera kröfu til þess, ef það opinbera, ríkisvaldið, gengur á undan með aðhald, að einkaaðilar gæti hófs í lántökum og fjárfestingum sem leiða til hækkandi verðlags og þar með aukinnar þenslu. Sú skylda hvílir á stjórnvöldum að nota öll meðul sem tiltæk eru til að hamla gegn þessari þróun.

Ég get þess og styð það eindregið að leggja ber sérstaka áherslu á skattaeftirlitið í landinu svo allir greiði það sem þeim ber í hinn sameiginlega sjóð landsmanna. Ég tek undir það að einfaldara skattkerfi, einkum hvað söluskattinn varðar, er forsenda fyrir auknu eftirliti. Á þeim forsendum byggist stuðningur minn við að fækka undanþágum frá söluskatti þó ég leggi áherslu á það eins og fleiri að hækkanir á brýnustu lífsnauðsynjum af þessu tilefni verður að bæta. Það er mín skoðun að auknar niðurgreiðslur séu einfaldasta leiðin til að ná þessu marki.

Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að stigið verði fyrsta skrefið til að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaganna. Í þessu sambandi vil ég minna á að það verður að hafa í huga að höfuðmarkmið þessa tilflutnings á að vera að bæta þjónustuna við fólkið og gera hana hagkvæma. Takmarkið á að vera að sveitarfélögin geti veitt jafngóða þjónustu og áður eftir breytinguna og helst betri en áður var. Hitt ber svo að undirstrika sérstaklega og það vil ég láta koma fram við þessa umræðu að sérstaklega verður að huga að aðstöðu minni sveitarfélaganna í þessu efni og búa svo um hnútana að þessar breytingar verði ekki til að auka enn mismuninn milli þéttbýlis og strjálbýlis, milli stærri og minni sveitarfélaga.

Hitt er eigi að síður staðreynd að eigi að verða af þessum tilflutningi, sem samstaða virðist vera um í þjóðfélaginu að þurfi að eiga sér stað, verður einhvers staðar að byrja. Það er búið að tala um þessi mál í áratugi, en ekki hefur orðið af framkvæmdum. Þetta breytir því þó ekki að þessi tilflutningur má ekki verða til að auka ójöfnuð í þjóðfélaginu.

Ég hef sömu fyrirvara um landbúnaðarþátt frv. og landbrh. hefur þegar haft og ég mun ekki lengja þessa umræðu með því að fjalla nánar um þann málaflokk. Hins vegar er annað sem ég vildi koma að við þessa umræðu og það eru fjárframlög til íþróttahreyfingarinnar í landinu. Ég var einn af þeim sem unnu að setningu löggjafar um lottóið á sínum tíma og ég stóð í þeirri meiningu þá að samþykkt þeirrar löggjafar væri til að stórefla íþróttahreyfinguna í landinu. Vissulega hefur íþróttahreyfingin af lottóinu miklar tekjur og er það vel. Hins vegar er stórlega dregið úr þeim ávinningi með lækkun framlaga nú, einkum fyrir ungmennafélögin, í hinum dreifðu byggðum landsins, ef frv. fer í gegn eins og það lítur út núna. Þess vegna vil ég leggja á það áherslu að þetta mál verði leyst með viðunandi hætti áður en frv. verður að lögum.

Það kunna einhverjir að spyrja sem svo: Hvers vegna allt þetta upphlaup út af íþróttahreyfingunni? Hefur ekki verið skorið niður til ýmissa annarra mála sem eru þó þörf? Það er vissulega svo. Hins vegar veit ég ekki hvort hv. þm. er kunnugt um það mikla starf sem íþróttahreyfingin vinnur fyrir æsku þessa lands. Þó hygg ég að flestir hljóti að vita það ef grannt er skoðað. Margir hafa reynt það, annaðhvort persónulega eða fylgst með þátttöku fjölskyldu og vina í íþróttastarfseminni. Ég hygg að engin starfsemi komi við eins marga þjóðfélagsþegna, bæði æskuna og fullorðna. Þjóðfélagið er orðið þannig að víða eru tómstundir unglinga miklar og þeir búa yfir orku sem þarf að fá útrás. Ekkert er eins vel til þess fallið og íþróttir og þeir sem þær stunda eru einnig betur undir það búnir að takast á við lífið eftir að hafa fengið þá þjálfun og þá einbeitni sem fylgir íþróttaiðkunum. Ekkert er eins vel til þess fallið að halda unglingunum frá fíkniefnavoðanum og íþróttirnar og er tóbak og áfengi þar ekki undan skilið. Það er fullvíst að fjárframlög til íþróttastarfsemi eru beinn hagnaður fyrir ríkissjóð ef þessu fjármagni er skynsamlega varið þó auðvitað sé ekki nein könnun eða „statistík“ bak við þessa fullyrðingu. Venjuleg skynsemi segir manni þetta.

Þetta starf kostar mikið fjármagn vegna þess að kröfurnar eru allt aðrar á þessum sviðum nú en áður var, bæði til íþróttamannvirkja og til skipulagningar íþróttastarfs. Starfið vekur ekki áhuga nema það sé öflugt og lifandi, það sé ætíð verið að keppa og reyna með sér með tilheyrandi ferðalögum og skipulagningu. Það verður aldrei nógsamlega undirstrikað að nauðsynlegt er að fá sem flesta unglinga til að taka þátt og fá almennari þátttöku í hvers konar líkamsrækt, fullorðinna einnig. Þetta er besta forvarnarstarf í heilsugæslunni sem hugsast getur og á þeim vettvangi eru svo sannarlega tækifæri til sparnaðar. Það er langt frá því að það sé verið að slá sig til riddara með þessum orðum. Mér finnast rökin í þessu máli augljós og ég trúi því að hér verði gerð einhver bragarbót á.

Að lokum vil ég segja þetta: Við fjárlagagerð hefjast ætíð umræður í þjóðfélaginu um að skammarlega illa sé staðið að fjárframlögum til ýmissar opinberrar starfsemi. Heldur þá hver og einn fram einhverjum áhugamálum sínum sem snerta viðkomandi eða nánasta umhverfi hans. Á þetta við jafnt um félagasamtök sem einstaklinga. Flest af þessu er réttmætt, en sú skylda hvílir þó á okkur stjórnmálamönnum að hafa einhverja heildarsýn yfir þessi mál. Nú er nauðsynlegt að draga saman og menn verða að ganga í það verk þrátt fyrir allt. Mótsögnin við þessa umræðu alla er svo skattaumræðan í þjóðfélaginu þar sem þykir ganga guðlasti næst að borga sinn skerf til samfélagsins.

Ég er einn af þeim sem styðja að það sé gætt hófs í ríkisútgjöldum og ég styð nauðsynlega tekjuöflun til að standa undir bráðnauðsynlegri opinberri þjónustu og framkvæmdum sem eru í þágu fólksins í landinu. Ég er reiðubúinn til þess sem fyrr að leggja á mig óþægindi til að verja þau meginmarkmið sem þetta frv. byggist á, hallalaus fjárlög, því það er alveg rétt, sem hefur fram komið við þessa umræðu, að framkvæmd þess er ekki líkleg til vinsælda í bili þó að það verði e.t.v. síðar.

Aðalástæðan til að ég stóð upp er sú að mér finnst ekki við hæfi sá áróður sem dynur yfir frá einkaaðilum í þjóðfélaginu þess efnis að opinber útgjöld og opinber skattheimta séu ein aðalorsök efnahagsvandans í þjóðfélaginu og jafnvel sú eina. Einstaklingar og fyrirtæki hafa líka skyldur við þjóðfélagið og gangi ríkið á undan með aðhaldi er þeim skylt að fylgja í kjölfarið.