14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6403 í B-deild Alþingistíðinda. (4400)

312. mál, flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Öll umræða um flugmálin er af hinu góða fyrir þá sem eru mjög háðir fluginu og það eru allir Íslendingar.

Ég vil aðeins gera athugasemd við það að öll umræða um varavöll hafi verið í formi ágreinings. Frá hendi okkar Austfirðinga hefur sá ágreiningur ekki verið fyrir hendi. Við höfum lagt á það áherslu að fá góðan innanlandsflugvöll á Egilsstöðum sem getur þjónað minni gerðum af þotum. Það getur sá völlur sem er verið að byggja nú og er það vel. Hann getur þjónað öllum þeim þotum sem eru notaðar í Evrópufluginu sem varavöllur þegar hann kemur upp. Hitt verður síðan metið og ég sé ekki ástæðu til að blanda mér á þessu stigi í þau mál frekar, enda er ég búinn með minn ræðutíma, en ég vil þakka þessa umræðu.