14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6404 í B-deild Alþingistíðinda. (4404)

312. mál, flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin sem hann gaf hér og þeim aðilum sem hafa komið hér í ræðustól á eftir honum og tekið undir meginefni þessarar fsp. sem ég hef lagt hér fram. Í mínum huga er mikil nauðsyn á því að hér verði góður varavöllur. Í þessari fsp. er ekki beint tekin afstaða til þess hvar sá völlur á að vera. En ég tel mjög eðlilegt þegar byggður er völlur eins og á Egilsstöðum að gætt verði að því hvort ekki mætti í framtíðinni nýta hann sem einhvers konar varavöll. Það byggist aðallega á því að Austfirðir eru sá landshluti sem er lengst frá höfuðborgarsvæðinu og mjög nauðsynlegt að samgöngur þar séu góðar. Eftir því sem mér er tjáð eru Egilsstaðir einn hentugasti staðurinn fyrir varaflugvöll þó svo að talað hafi verið um að völlur á Sauðárkróki yrði mjög hagkvæmur. Í svona tilfellum skiptir töluverðu máli hvernig samgöngur eru að öðru leyti við viðkomandi staði eins og Sauðárkrók. Það yrði miklu meiri lyftistöng fyrir Austfirðinga að fá varaflugvöllinn heldur en Sauðkræklinga.

Ég vil þakka enn og aftur fyrir þessi svör og þær umræður sem orðið hafa í tilefni þessarar fsp.