14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6407 í B-deild Alþingistíðinda. (4408)

366. mál, vegamál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að flytja þessa fsp. hér. Það hefur vakið athygli á máli sem ég hef oft leitt hugann að í sambandi við bæði merkingar með stikum á vegi, svo og þá stefnu að leggja einbreitt slitlag sem svo er kallað. Ég tel að það geti verið verulegur slysavaldur og ástæða sé til að endurskoða þessi mál. Auðvitað á að gera það með því að auka fjárframlag til vegamála sem hefur verið skert svo stórlega sem raun ber vitni á undanförnum árum.

Stundum er sagt að staðið sé við vegáætlun varðandi bundið slitlag, en það eru nokkuð langsótt rök þegar farið er að mjókka akreinarnar með þeim hætti sem gert hefur verið og allt stefnir f það að menn endi með því kannski að leggja bundið slitlag í hjólförin og láti þar við sitja.