14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6407 í B-deild Alþingistíðinda. (4409)

Fyrirspurn um viðskiptahalla

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég gekk til forseta fyrir nokkrum augnablikum og spurði hann hvernig á því stæði að þriðja málið, um viðskiptahalla, kæmi ekki á dagskrá. Ég fékk þær upplýsingar að það hefði verið óskað eftir frestun. Öll þessi mál á dagskrá, eins og dagskrármál þingsins yfirleitt, eru stór mál og áríðandi. En ég held að sjaldan hafi komið stærra mál á dagskrá Alþingis en einmitt þetta þriðja mál á dagskránni þar sem óskað er eftir að fá upplýst frá forsrh. hvernig ríkisstjórnin ætlar að glíma við viðskiptahalla sem var talinn nálgast 13–15 milljarða þegar ríkisstjórnin gerði efnahagsráðstafanir sínar nýlega. Við efnahagsráðstafanirnar fór þessi halli niður í 10 milljarða. En skv. upplýsingum ábyrgra dagblaða í dag og undanfarna daga er viðskiptahallinn falinn vera að nálgast 15–16 milljarða og talað um að hann geti orðið með sama áframhaldi um 100 milljarðar eða yfir um aldamótin.

Þegar slík stórmál eru á dagskrá og fsp. kemur frá stjórnarliða, þá skil ég ekki hvers vegna hæstv. forsrh. gerir ekki sitt ýtrasta til að vera reiðubúinn til að svara málinu, sérstaklega eftir að það er komið í prentaða dagskrá Alþingis. Ég harma þessa málsmeðferð.