14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6408 í B-deild Alþingistíðinda. (4411)

Fyrirspurn um viðskiptahalla

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég harma það ef forseti hefur misskilið orð mín á þann hátt að þau setji á einhvern hátt blett á hans stjórn á fundinum eða á Alþingi yfirleitt. Mín orð voru alls ekki til hans töluð, heldur til þeirra aðila, fyrirspyrjanda og svaranda, þ.e. hv. 10. þm. Reykv. og hæstv. forsrh. Ég tel að hv. 10. þm. Reykv. sé með góða og tímabæra fsp. og að hún kalli á svar sem megi ekki undir neinum kringumstæðum dragast nema ástæðan fyrir drættinum sé sú að ríkisstjórnin sé að springa á efnahagsstefnu sinni. En það er staðreynd — það kom fram hér við síðustu ráðstafanir í efnahagsmálum - að viðskiptahallinn væri að nálgast 13–15 milljarða. Ráðstafanirnar minnkuðu hann niður í 10 milljarða skv. ummælum forsrh. Og nú, eftir þetta skamma stund frá því að efnahagsráðstafanirnar voru gerðar, er talað um að hann sé að nálgast 15–16 milljarða. Því er þetta tímabær spurning frá stjórnarliða, hv. 10. þm. Reykv., - frá stjórnarliða, ég endurtek það - um hvernig samstarfsmaður hans, hæstv. forsrh., ætlar að bregðast við þessum vanda.