14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6411 í B-deild Alþingistíðinda. (4416)

383. mál, greiðsla fæðingarorlofs

Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Hann vekur athygli á því að tiltekin reglugerð hafi ekki gilt nema frá setningardegi. Ég leyfi mér að fara fram á það við ráðherra og raunar tel ég það vera sanngjarna kröfu að hann setji reglugerð þar sem tekið er fram að gildistími þessarar reglugerðar skuli vera frá 1. jan. því að þetta er ekki í samræmi við lögin um greiðslur í fæðingarorlofi að allt í einu sé tekinn réttur af þeim mæðrum sem þarna er um að ræða og það liggur auðvitað í augum uppi að greiðslur í fæðingarorlofi miðast við að standa á móti gjöldum sem falla til á tilteknum tíma en ekki eftir 11/2 ár. Þess vegna er það algjörlega fráleitt og óframbærileg rök gagnvart þeim konum að um sé að kenna e.t.v. tölvukerfi í Tryggingastofnun eða því að reglugerð ráðuneytis sé ekki afturvirk að þessu leyti. Það er ekkert sem mælir því gegn að slík reglugerð megi vera afturvirk og ég mælist eindregið til þess að hæstv. ráðherra setji reglugerð sem breyti þessari að þessu leyti til.

Ef svo stendur á, sem hæstv. ráðherra gat um, að sótt sé um á réttum tíma, fáeinum dögum fyrir fæðingu barns, eða barn fæðist á réttum tíma í mánuði þannig að þetta falli nú saman við verklagsreglur Tryggingastofnunar er það auðvitað, þegar svo stendur á, að þá kemur ekkert vandamál upp, en hvað ef barninu þóknast nú að fæðast mánuði fyrir tímann og ekki er búið að ganga frá neinum skjölum og kortum til Tryggingastofnunar? Á þá konan allt í einu að verða af 1/3 af greiðslunum í 11/2 ár? Þetta kemur auðvitað alls ekki til greina og er mjög brýnt að breyta þessari reglugerð strax, svo og að endurgreiða því fólki sem oftekið var af. Það stendur sérstaklega á um þessar greiðslur. Þetta er rangt gagnvart þeim mæðrum sem þarna áttu í hlut og þá þess heldur að í opinberum bæklingum, sem Tryggingastofnun gefur út og lætur liggja frammi á öllum heilsugæslustöðvum og víðar þar sem upplýsingar þarf að gefa um rétt manna samkvæmt almannatryggingum, er ekki vikið að því einu einasta orði að svona standi á um greiðslurnar, að það sé nauðsynlegt til þess að verða ekki af þessum rétti að sækja um á þeim tíma sem raun ber vitni.