14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6412 í B-deild Alþingistíðinda. (4419)

383. mál, greiðsla fæðingarorlofs

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég verð að játa þann vanmátt minn að vera ekki lögfróður maður og get því því miður ekki kveðið upp neinn dóm um það eða úrskurð hvort það sé í mínu valdi að setja reglugerð sem tekur þarna af tvímæli. Hitt er ljóst að hér er verið að tala um staðgreiðslukerfi skatta. Þetta er skattamál en ekki spurning um það hvort og hvernig Tryggingastofnunin greiðir út sínar bætur. Það gerir hún, en síðan kemur skattakerfið og telur, sem sjálfsagt er rétt, að þetta séu skattskyldar tekjur og tekur af þeim skatt. Það mál heyrir því ótvírætt undir hæstv. fjmrh. að mínu áliti.

Ég vil aðeins ítreka það sem hefur þá ekki heldur komið nógu skýrt fram hjá mér áðan að ég hef farið eindregið fram á það við hæstv. fjmrh. að hann breyti þessari reglugerð. Mín skoðun er því alveg ótvíræð í því og ósk. En hans er nú valdið, ég þori ekki að segja það sem á að fylgja, í þessu máli eins og svo mörgum öðrum. Ég ítreka aðeins þessa ósk mína og ég mun að sjálfsögðu reyna að fylgja því fram.