04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

1. mál, fjárlög 1988

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Samflokksmenn mínir, hv. 4. þm. Suðurl. og hv. 4. þm. Norðurl. e., hafa þegar talað í þessari umræðu og lýst ýmsum þeim sjónarmiðum sem ég er sammála af eðlilegum ástæðum og er auðvitað sammála flestum þeirra athugasemdum við þessi fjárlög sem hér eru nú til umræðu. Ég hyggst þess vegna koma að þessari umræðu frá svolítið öðru sjónarhorni vegna þess að ég held að það sé kominn tími til að hið háa Alþingi hugsi aðeins um hvernig fjárlög verða til og hvaða tilgangi þau þjóna.

Það er undarlegt þegar menn hafa setið hér árum saman að í hvert skipti sem fjárlög eru lögð fram liggur við að maður undrist hvar samhengið er í stjórnun landsins. Þjóðin kýs sér Alþingi og Alþingi setur henni lög. Og meiri hluti Alþingis setur saman ríkisstjórn, allvenjulegast. Síðan skyldi maður ætla að sú hin sama ríkisstjórn hverju sinni reyndi að fara að vilja Alþingis og fara að þeim lögum sem sett hafa verið. Það er hins vegar stundum afar erfitt að sjá hvernig þetta hangir saman og skal ég á eftir taka nokkur dæmi um það. Síðan heldur málið áfram að þróast á hinn undarlegasta hátt. Fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar er síðan vísað til fjvn. og þá er líka dálítið erfitt að sjá hvernig sú góða nefnd lítur á sitt hlutverk. Þá upphefjast ferðalög hvaðanæva af landinu til nefndarinnar þar sem menn koma, alls kyns þrýstihópar, mjög svo tilviljanakennt að mínu mati og krefjast fjármagns í þetta og hitt. Þá fer það ekki alltaf saman við stefnu stjórnvalda hverju sinni hvernig því fjármagni er varið og e.t.v. er frekar unnið að því að hafa alla góða.

Þetta er ekki að stjórna ríki af nokkru skynsamlegu viti. Síst af öllu ríki sem er eins skrýtið í laginu og Ísland. Það er ekki sama hvort við erum að reka ríki eins og Ísland þar sem byggðir landsins eru dreifðar og fámennar eða ríki eins og t.d. Danmörku þar sem hvergi er hægt að vera á ferli án þess að sjá til næstu mannabyggðar. Þetta tvennt er gjörólíkt. Þess vegna held ég að menn ættu að byrja á því að hugsa upp á nýtt ýmsar þær klifanir sem maður heyrir næstum á degi hverjum. T.d. orð eins og „byggðastefna“. Hér er enginn maður með mönnum á hinu háa Alþingi nema hann segi: Ég er byggðastefnumaður. Og hvað skyldi nú þessi byggðastefna vera? Sú eina byggðastefna sem á nokkurn rétt á sér er að fara að íslenskum lögum og stjórna þessu landi á þann veg að allir þegnar þess búi við sem svipuðust skilyrði. Svo einfalt er það.

Það er ekki nein pólitík til eða frá að jagast hér dag hvern um hvort höfuðborgarsvæðið sé að mismuna svokölluðum „byggðum landsins“. Það vill einfaldlega svo til að hér er þéttbýlla. (Gripið fram í: Svokölluðum?) Ég sagði það. Reykjavík er byggð landsins alveg eins og aðrar byggðir og á því á ekki að vera nokkur munur hvað varðar réttindi til heilsugæslu, réttindi til skólagöngu, til framhaldsmenntunar, til allra þeirra réttinda sem íslenskir borgarar eiga að njóta. Ég held þess vegna að við ættum að reyna að hugsa þessi mál aðeins að nýju, vegna þess að þetta er orðið formfast og kemur á endanum, þegar fjárlög liggja fyrir, hreint ekki neitt við einni eða annarri stefnu. Hvorki ríkisstjórn né Alþingi hafa í raun og veru stjórn á því sem þau eiga þó að hafa stjórn á, sem er rekstur þessa þjóðfélags. Þetta er tilviljanakennt, enda æpa dæmin á okkur í sérhverri byggð landsins.

Menn tala um sjálfstæði sveitarfélaga. Jú, jú, auðvitað á fólk að hafa sitthvað um sín mál að segja í hinum einstöku byggðarlögum, en það segir sig sjálft að það verður að reyna að dreifa þjónustunni í landinu, atvinnutækjunum, á skynsamlegan hátt um byggðir landsins. Það er t.d. varla nokkurt vit í, svo aðeins eitt dæmi sé tekið, að hafa heilsugæslustöð fullbúna öllu því sem þeim tilheyrir bæði á Hellu og Hvolsvelli. Þetta er á engan hátt skynsamlegt. Ég held þess vegna að menn eigi að hætta að tala í þessum vendingum að annaðhvort sé fólk landsbyggðarfólk eða Reykvíkingar eða hér af Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég held við verðum að reyna að hugsa þetta þjóðfélag í einu lagi. Það held ég væri fyrsta skrefið til skynsamlegra fjárlaga.

Ef við lítum á hvers konar stefnu má lesa út úr því fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir hljóta ýmsar spurningar að vakna. Hér segir, herra forseti, á bls. 211, með leyfi:

„Miðað var við“ — og er þar talað um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga — „að tónlistarskólar frá upphafi skólaárs 1988 og 1989, dagvistarheimili, byggðasöfn, málefni fatlaðra, vatnsveitur, landshafnir og heimaþjónusta aldraðra færist að fullu yfir á verksvið sveitarfélaga.“

Það er reyndar rangt, sem hér hefur margverið sagt, að hér sé verið að fremja einhver lögbrot. Auðvitað eru fjárlög lög og gera önnur lög að engu verði þau samþykkt. En skemmtilegri aðferð er að móta stefnu í slíkum málum með sérstökum lögum frá hinu háa Alþingi en að sletta ákvörðunum eins og þessum inn í fjárlagafrv. Hér eru nefnilega engin smámál á ferðinni, enda segir litlu síðar á bls. 223, með leyfi herra forseta:

„Vegna tilflutnings verkefna til sveitarfélaga þarf að endurskoða eftirfarandi lög: Lög nr. 75/1985, um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, lög nr. 112/1976, um dagvistarheimili, lög nr. 107/1970, um Félagsheimilasjóð, lög nr. 49/1956, um Íþróttasjóð, lög nr. 52/1969, um Þjóðminjasafn Íslands (vegna ákvæða þeirra um byggðasöfn) 1ög nr. 93/1947, um aðstoð til vatnsveitna, lög nr. 91/1982, um málefni aldraðra, lög nr. 23/1955, 38/1951 og 61/1966, um landshafnir, og lög nr. 41/1983, um málefni fatlaðra.“

Það er ekki lítið sem á að gera með þessu fjárlagafrv. Ég vil aðeins fara ofan í hvað hér er verið að tala um, herra forseti. Fyrir nokkrum árum gerðu verkalýðssamtökin í landinu samning við ríkisstjórn Íslands um tíu ára áætlun um uppbyggingu dagvistarstofnana sem skyldu á tíu árum fullnægja 3/4 af þörf fyrir slíkar stofnanir. Síðan árið 1982 fengum við nokkrir þm., og þar á meðal var, ef ég man rétt, hæstv. núverandi félmrh. meðflm. minn á því frv., það samþykkt hér á hinu háa Alþingi að gerð skyldi námsáætlun fyrir dagvistarstofnanir. Og þar með var það blað brotið að Alþingi Íslendinga viðurkenndi að dagvistarstofnanir væru uppeldisstofnanir, væru menntastofnanir. Ég hlýt því að spyrja þann eina hæstv. ráðherra sem hér er staddur reyndar, í fyrsta lagi: Hvar er ríkisstjórnin? Og í öðru lagi: Er hann tilbúinn til að svara mér því: Er núverandi ríkisstjórn að snúa þessum skilningi við? Eiga dagvistarstofnanir ekki lengur að vera uppeldisstofnanir, þær fáu dagvistarstofnanir sem við höfum upp á að bjóða? Eiga þær að vera geymslupláss fyrir óþekka krakka á meðan foreldrarnir eru að vinna? Það er gjörsamlega nýtt sjónarmið og eitthvert sorglegasta skref aftur á bak í uppeldismálum sem ég hef orðið vitni að hér í þingsölum. Áður var talað um að fóstrumenntun þyrfti að efla. Það var jafnvel talað um að fóstrumenntun ætti fullt erindi á háskólastig rétt eins og hjúkrunarfræðimenntun og önnur slík menntun þar sem þessi starfsstétt væri að undirbúa 1ítil börn undir skólavist framtíðarinnar, eins og svo fallega segir í þeim lögum sem hæstv. ríkisstjórn ætlar nú greinilega að endurskoða, sjálfsagt með því að taka út að efla eigi þroska sérhvers einstaklings o.s.frv.

Með því að segja „Sveitarfélögin taka nú við þessum stofnunum“ eru afskipti ríkisins, afskipti menntmrn. sjálfsagt að mestu leyti úr sögunni. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að það verði einhver samræming í uppeldisstarfi þessara stofnana? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því? Höfum við tryggingu fyrir því að sárfátæk lítil sveitarfélög geti boðið upp á þá þjónustu sem við getum kannski fengið fyrir börnin okkar hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu? Það held ég sé aldeilis af og frá. Ég geri ráð fyrir að það yrði uppi ramakvein í þjóðfélaginu ef á þennan veg ætti að fara með skólakerfið. En hver er munurinn? Er þetta kerfi ekki eitt af því sem við erum öll sammála um að við viljum reka saman, þjónusta við uppeldi sem við viljum að öll börn landsins eigi rétt á, hvort sem þau búa á Dalatanga eða á Súðavík eða í Reykjavík? Það er aldeilis ómögulegt að skilja annað á þessu frv. en að hér sé verið að breyta þessu gjörsamlega, enda hefur þróunin verið að síga á ógæfuhliðina nú á allra síðustu árum. Það sýnir sig í því að það er minnkandi aðsókn að Fósturskóla Íslands. Þessi stétt var fyrir örfáum árum, þegar tíu ára áætlunin var samþykkt, þegar uppeldisáætlunin kom í kjölfar laganna um námsáætlun, full af bjartsýni um að nú ætti að fara að vinna þessi störf með sómasamlegum hætti, en auðvitað hefur síðan dregið úr áhuga ungs fólks að fara í þetta starf.

Að þessari uppeldisáætlun vann nefnd með færasta uppeldismálafólki landsins með frú Valborgu Sigurðardóttur í broddi fylkingar, sem hingað til hefur þótt vita töluvert um þessi mál, og auðvitað var einn þáttur starfs þessarar nefndar að reyna að tengja saman grunnskólann og forskólann. Ég hlýt að spyrja hæstv, fjmrh. úr því að hæstv. menntmrh. er ekki landfastur, eins og hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan, hvort þetta sé virkilega stefna núverandi ríkisstjórnar.

Það er hægt að ganga í þessa málaflokka einn af öðrum. Telur núverandi ríkisstjórn að það sé til farsældar í þessu landi að skera niður Félagsheimilasjóð og Íþróttasjóð? Sé svo, þá hlýtur þingheimur að eiga rétt á að fá að vita hvort íþróttir séu óhollar ungu fólki. Hefur þessi hreyfing verið til ófagnaðar? Það verður að vera ástæða fyrir svo alvarlegum breytingum.

Þó tekur steininn úr þegar komið er að lögum um málefni aldraðra og fatlaðra. Hér stóðum við eins og eineggja tvíburar, hv. þm. Alþfl. og Alþb. og Kvennalistans eftir að hann kom til — líklega var hann ekki kominn til þegar þessi lög voru sett hvoru tveggja. Með þessum tvennum lögum varð gjörbylting í landinu og þá einkum og sér í lagi með lögum um málefni fatlaðra. Það eru ekki nema u.þ.b. tíu ár síðan fólk utan Reykjavíkur, sem hafði á framfæri sínu fötluð börn, vangefin og börn sem þurftu sérþjónustu, var tilneytt að flytja til Reykjavíkur vegna þess að engin þjónusta var neins staðar í landinu annars staðar. Á tíu árum hefur orðið mikil uppbygging og menn geta lesið í fjárlagafrv. langa lista um þjónustustofnanir út um allt land. Fólk fékk að búa í friði þar sem það átti sér rætur og átti rétt á að fá að búa. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að voga sér að fara að stöðva þessa þróun því þar er mikið verk óunnið? Og ef hún hefur það í huga, en það er ógerningur annað en að líta svo á, krefjumst við skýringa.

Síðan getum við komið að einstökum verkefnum. Við höfum raunar dæmi um hvernig fór fyrir einum þætti og ekki veigaminnstum í þjóðlífi okkar. Málaflokkur sem einmitt varð fyrir barðinu á því að vera færður algjörlega yfir á sveitarfélögin, en það voru almenningsbókasöfnin í landinu. Líti menn í kringum sig. Auðvitað ráða lítil sveitarfélög ekkert við að reka nútíma almenningsbókasafn og sum þeirra eru satt að segja til háborinnar skammar. Ég hef tölur um að bókakaup eins árs hafa farið niður í tólf bækur. Hvað eftir annað hef ég spurt á hinu háa Alþingi hvort ekki standi til að setja ný lög um almenningsbókasöfn og hef oftlega vitnað í nefnd sem vann að tillögum, og þær liggja fyrir, um kerfi í þeim efnum. Það var að mestu leyti sótt til Noregs og þykir þar mjög til fyrirmyndar. Í öllum Noregi eru sjö stór fylkisbókasöfn sem síðan veita þjónustu hvert í sínu fylki út í hinar dreifðu byggðir. Aðstaða okkar er að sumu leyti ekki ólík og hjá þeim vinum okkar Norðmönnum. En á þetta er auðvitað ekkert hlustað og það hefur ekkert gerst í þessu annað en að almenningsbókasöfn í litlum sveitarfélögum hafa að sjálfsögðu drabbast niður. Síðan tala menn fjálglega um þjóðfélag framtíðarinnar, aukna menntun, þjóðfélag þekkingarinnar, fullorðinsfræðslu og annað slíkt. Og telja menn þá rétt að fyrsta skrefið að því sé að eyðileggja almenningsbókasöfnin í landinu, eyðileggja forskólann í landinu? Það er ekki, herra forseti, vit í þessu. Það er ekkert vit í þessu.

Setningar eins og þessa á bls. 211 má sjá þegar maður er búinn að lesa þessi ósköp, með leyfi herra forseta: „Sveitarfélögum verða tryggðir tekjustofnar til þess að takast á við aukin verkefni.“ — Hvernig það á að gerast og að hve miklu marki er auðvitað látið ósagt, enda segir sig sjálft hvernig það muni fara.

Herra forseti. Mér er ljóst að þm. fara að þreytast og ég skal reyna að stytta mál mitt. En strax á bls. 212 rekur maður sig aftur á þennan rugling á því hver á að gera hvað. Hér stendur um verðlagsforsendur frumvarpsins — með leyfi forseta les ég nokkrar línur: „Í fjárlagafrumvarpi og þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að kjarasamningar annarra launþega [þ.e. annarra en opinberra starfsmanna], sem flestir eru lausir um eða jafnvel fyrir áramótin, verði á svipuðum nótum og samningar við opinbera starfsmenn.“

Hvaða leyfi hefur hæstv. ríkisstjórn til að lýsa þessu yfir? Þetta kemur henni ekkert við. Þessir kjarasamningar fara fram milli frjálsra verkalýðsfélaga. Hvað eru menn að gera? Fyrsta skilyrði til að gera eitthvað skynsamlegt er að vita hver á að gera hvað, enda sjáum við hvers konar stjórnleysi hér hefur verið viðhaft. Það dettur auðvitað aldrei nokkrum manni í hug, þegar við erum að ræða þetta þýðingarmesta frv. hvers þings, að ræða á heilbrigðan og skynsamlegan hátt hvað við getum lært af mistökum fyrri ára því þar er af nógu að taka. Auðvitað viðurkennir ekki nokkur maður að neitt hafi mistekist. Menn þegja þunnu hljóði yfir hneykslum sem kosta okkur milljarða á ári hverju í vexti og afborganir af ónauðsynlegum framkvæmdum sem landið er fullt af og nægir þar að taka stóra póstinn, virkjanaævintýri landsmanna, að ekki sé talað um flugstöð og annað slíkt.

Hér segir, með leyfi forseta, á bls. 215: „Nú er áætlað að vextir og afborganir nemi alls 7 milljörðum og 60 millj. kr. á árinu 1987 eða um 14,8% af heildartekjum ríkissjóðs. Í frumvarpinu er sambærileg fjárhæð 9 milljarðar 435 millj. kr. og hlutfallið 15,8%.“ Sér ekki hver heilvita manneskja hvernig hér hefur verið staðið að verki og er alveg útilokað að reyna að læra af mistökunum?

Hér er eitt mál ekki ýkjastórt og ekki stór póstur í þjóðarbúskapnum, en það stendur á bls. 222: „Kvikmyndasjóður. Þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 5. gr. laga nr. 94/1984, um kvikmyndamál, skal framlag ríkissjóðs til Kvikmyndasjóðs eigi nema hærri fjárhæð en 40 millj. kr. á árinu 1988.“ — Hvað segir þetta okkur í raun og veru? Það segir okkur að hæstv. ríkisstjórn vill leggja íslenska kvikmyndagerð niður. Um það verður ekki villst. Það þarf meira fé, ekki lækkun heldur hækkun á framlögum í hana. Nú vill svo til að kvikmyndagerð getur vel verið arðvænlegur atvinnuvegur ef honum er komið af stað, en það er með hann eins og með önnur stórfyrirtæki að það þarf að setja peninga í þau í byrjun. Menn hafa verið ófeimnir við það hér að samþykkja myndarleg fjárframlög til alls kyns atvinnustarfsemi, en þegar um er að ræða listræna iðju manna er eins og buddan lokist sjálfkrafa. En þá eiga menn líka að segja heiðarlega og upphátt: Við teljum ekki ástæðu til að íslenskir kvikmyndagerðarmenn búi til kvikmyndir. Þá höfum við það alveg dagljóst. Því þetta þýðir það ef hv. þm. ekki vita það.

Hér kemur enn eitt mál á bls. 223, þetta verður auðvitað að vera í símskeytastíl: „Heilsugæslustöðvar. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að lög nr. 591 1983 komi ekki að fullu til framkvæmda á árinu 1988 í Reykjavíkurlæknishéraði.“ — Af hverju skyldi það nú vera? Það er af því að borgarstjórinn í Reykjavík vill ekki heilsugæslukerfi. Hvaða ástæður sjá a.m.k. tveir af ríkisstjórnarflokkunum til að láta þessa dynti eftir borgarstjóranum? Reykvíkingar eiga rétt á heilsugæslu alveg eins og annað fólk vegna þess að Reykjavík er líka byggð og hefur sömu þarfir og önnur byggðarlög. En það er alveg greinilegt að það hafa komið skilaboð frá hv. borgarstjóra. Og trúið mér til. Hér kemur enn eitt frv. innan tíðar um að á þessu ári skuli ekki unnið að því að byggja upp heilsugæslukerfi í Reykjavík, enda er svo komið að Seltirningar verða að sjá Reykvíkingum fyrir heilsugæsluþjónustu á stóru svæði hér vestur á Melum og Högum.

Ég hlýt enn og aftur, eins og fleiri hafa gert hér, að taka undir orð hv. 4. þm. Austurl. um þjóðarbókhlöðu. Eru menn búnir að gleyma því að þjóðin gaf sér þjóðarbókhlöðu á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar? Þvílík reisn! Síðan er byggingarsaga þessa húss búin að vera slík hörmung sem allir þekkja.

Fyrrv. hæstv. menntmrh. gerði tilraun til að bjarga þessu máli, bjarga okkur frá því að verða okkur algerlega til skammar og lamdi okkur til hlýðni með því að leggja nýjan skatt á mannfólkið í landinu sem sérstaklega skyldi eyrnamerktur þjóðarbókhlöðu því hann sagði margsinnis réttilega og þar er ég hjartanlega sammála: Þessu húsi verður að ljúka. Það verður að ljúka við það og taka það í notkun, bæði til að rýma annað húsnæði, eins og t.d. háskólabókasafnið sem er til annarrar eins skammar, og koma einhverjum skikk á Þjóðskjalasafn og þessar stofnanir sem við öll þykjumst vilja reka. Og hvað er svo gert? Hér innheimtust á þessu ári 115 millj. Og hvað á að taka af því í þjóðarbókhlöðu? 50 millj. Hvað á að gera við hitt? Og ég endurtek það sem hv. 4. þm. Austurl. sagði: Hver hefur leyfi til að gera nokkurn skapaðan hlut annað við þetta fé? Við samþykktum þetta hér, tilneydd að sjálfsögðu, en vegna þess að við vildum, flest okkar á hinu háa Alþingi, koma þessu húsi í notkun vegna þess að ekkert er eins óarðbært og hálfbyggt hús sem kemur engum að notum. Það mætti nú kannski finna margan grunninn hér og þar sem stendur árum saman, tómar sundlaugar sem voru byggðar til þess að hafa einhverja þrýstihópa góða og hafa svo ekki nýst nokkrum lifandi manni, og hefði verið nær að byggja eina byggingu og ljúka henni og byrja svo á þeirri næstu.

Ég skal reyna sem allra mest að stytta mál mitt, herra forseti. Fiskvinnsluskólinn, óskabarn íslensku þjóðarinnar, fiskvinnsluþjóðarinnar. Ekki er nú rausnin mikil þar. Rekstrarframlag til skólans hækkar um 39% sem er mun minna en til flestra annarra liða. Að mínu mati krefst þetta skýringa. Telja menn ekki að Fiskvinnsluskólann þurfi að efla í staðinn fyrir að draga úr starfsemi hans? Hefur það ekki verið stefna að bæta meðferð á íslenskum sjávarafurðum, kenna fólki að vinna fisk? Hvers vegna er þá ekki unnið að því að byggja þennan skóla upp sem margsinnis hefur látið vita af sér fyrir skort á fjármagni?

Og tónlistarfræðsla. Á síðustu árum hefur orðið bylting í tónlistarmenntun íslenskra barna sem ætti auðvitað löngu að vera komin inn í grunnskólakerfið. En sem betur fer hafa þó börn getað gengið í tónlistarskóla, þ.e. hafi þau átt sæmilega efnaða foreldra. Þeim sem ekki vita skal sagt það hér að vetrardvöl í reykvískum tónlistarskóla kostar fyrir eina unga stúlku vestur á Túngötu 40 þús. kr. Mér er stórlega til efs að allar mæður í bænum ráði við það, svo að ég hefði haldið að frekar þyrfti að ganga fram í því að jafna þann rétt en gera hann enn ójafnari.

Hér segir enn um héraðsskóla að skólarnir á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og að Laugarvatni muni hætta starfsemi haustið 1988. Gaman væri að vita um hugmyndir stjórnvalda um hvað eigi að gera við þann húsakost sem þarna er. Ég vænti þess að hann verði nýttur á einhvern skynsamlegan hátt og íbúum þessara héraða til góða.

Herra forseti. Það er af mörgu að taka í þessu merkilega frv. til fjárlaga. Hér er talað um Þjóðminjasafn Íslands. Það er stofnun sem ekki hefur verið dekrað við í þessu þjóðfélagi, enda ber hún þess að sjálfsögðu merki. Nú eru miklir atburðir að gerast í sögu þeirrar stofnunar vegna þess að Listasafn Íslands er að flytja úr húsi Þjóðminjasafnsins. Þá skyldi maður nú ætla að þar með fengi Þjóðminjasafnið aukið húsnæði, aukna aðstöðu og bætta til að vera sú upplýsingastofnun og menntastofnun sem Þjóðminjasafnið á að vera. En þrátt fyrir þessa miklu breytingu á högum safnsins sjá yfirvöld ekki ástæðu til að hækka neitt sérstaklega framlög til þessarar stofnunar.

Norræn samvinna hefur verið hornreka á hinu háa Alþingi og við sem höfum tekið það hlutverk að okkur fyrir hönd hins háa Alþingis að sinna Norðurlandaráði höfum lítinn hljómgrunn fengið til að ræða þau mál. En ég vek athygli hv. þm. á því að á bls. 254 í frv. er talað um norræna samvinnu og er það ekki nema sex línur, en þar kemur fram að niður fellur viðfangsefnið Norræni sumarháskólinn. Hver hefur tekið þá ákvörðun? Hvar var sú ákvörðun tekin? Ekki á vettvangi Norðurlandaráðs. Þennan sumarskóla hafa rekið fimm Norðurlandaþjóðir — eða raunar átta ef við teljum þá Grænlendinga, Færeyinga og Álandseyinga með. Getur íslenska ríkisstjórnin, án þess að tala við kóng eða prest, lagt Norræna sumarháskólann niður? Ég vænti þess að það sé hægt að fá svar við því hvernig sú ákvarðanataka fór fram. Ég geri ráð fyrir að þetta beri að skilja svo að Íslendingar ætli að draga sig út úr þessu samstarfi. Ég ætla ekkert að fara að tala um hversu ágæt þessi starfsemi hefur verið og til gagns fyrir marga, bæði Íslendinga og norræna samborgara, en ákvarðanataka eins og þessi hlýtur satt að segja að vekja furðu.

Svo koma ljósir punktar eins og á bls. 258. Varnarmálaskrifstofa hækkar um 62% í rekstrarkostnaði. Og til hvers? „Mikil hækkun“, með leyfi hæstv. forseta, „er hins vegar á útgjöldum vegna yfirvinnu og áætlunar um nefndalaun.“ Það eru líklega byggingarnefndir flugstöðvar eða einhverjar álíka. Þar vantar ekki féð. Vegna yfirvinnu og áætlunar um nefndarlaun. Maður biður guð að hjálpa sér.

Félagi minn, hv. 4. þm. Norðurl. e:, hefur rætt þróunarmál og ég ætla að hlaupa yfir það og skal nær ljúka máli mínu, enda held ég að ég sé að mestu leyti komin í gegnum það sem ég ekki hnaut um heldur beinlínis datt um, en ég held að hæstv. ríkisstjórn, sem nú sýnist vera með öllu horfin, (Gripið fram í: Hann er hérna einn.) Tveir þó. — verði að setjast aðeins niður og huga að því hvaða stefnu hún er að reka í þessu þjóðfélagi því að samkvæmt því sem hér hefur verið reynt að segja sýnist mér hún gersamlega í lausu lofti og óskiljanleg öllu venjulegu fólki.

Hér hefur einn ráðherra, hæstv. félmrh., reynt að gera smálagfæringu á óréttlátu húsnæðiskerfi. Hvað hefur hún fengið fyrir? Hún er æst og ör og sjálfsagt bara frek kona. En rök? Nei. Hún hefur ekki fengið nein rök. Af hverju vill hún breyta því sem hún vill breyta? Það vill nefnilega svo til í þetta skiptið að aldrei þessu vant skil ég hvað einn hæstv. ráðherra er að reyna að gera. Það getur vel verið að finna megi einhverjar aðrar aðferðir, en það er þó a.m.k. skiljanleg stefna. Það er það sem vantar í þetta frv. til fjárlaga. (Fjmrh.: Vantar þig stefnu?) Hæstv. fjmrh. spyr hvort mig vanti stefnu. Hann hefur greinilega ekki hlýtt á ræðu mína. — Jú, um það hefur löng ræða mín fjallað að ég finn enga stefnu út úr þessu frv. til fjárlaga.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að eyða tíma í vaxtamál og lánskjaravísitölu því að öll höfum við ótal sinnum talað um þá reginskyssu sem gerð var í ágústmánuði 1984 þegar svokallað vaxtafrelsi var leitt yfir þjóðina. Ég ætla heldur ekki að staglast á því einu sinni enn að lánskjaravísitala hafi farið fram úr öllu öðru í þessu þjóðfélagi og sé þess vegna ekki í neinu samræmi við það og skal svo sem láta máli mínu lokið.

Og nú á að eyða halla ríkissjóðs. Margra ára vanræksla í efnahagsmálum þjóðarinnar skal nú læknuð á einu ári. Og hverjir eiga svo sem að borga brúsann? Auðvitað þeir sem alltaf borga. Launafólkið í landinu sem ríkisstjórnin þykist geta sagt fyrir fram hvaða launahækkanir fái á árinu. Ég ætla að vona að íslenskir launamenn láti hæstv. ríkisstjórn ekki segja sér það. Til þess eru frjálsir samningar verkalýðsfélaga að ákveða það.

Herra forseti. Þetta frv. til fjárlaga er hin mesta ómynd og erfitt að vera sammála einu einasta atriði í því, en ég ítreka spurningar mínar til þessara tveggja hæstv. ráðherra sem hér eru og væri gaman að fá að vita hvar hinir eru. Ég spyr þá í fyrsta lagi hvort þær stefnubreytingar sem mér finnst mega lesa út úr þessu frv. séu virkilega staðreynd, enda sýnist mér á þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að það þurfi ekki að undrast þó að við stjórnarandstæðingar skiljum ekki alveg stefnu hæstv. ríkisstjórnar, því að hér hefur komið einn stjórnarþm. eftir annan til að lýsa alls kyns fyrirvörum og spyrja alls kyns spurninga um hvað þetta frv. eigi raunverulega að þýða.