14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6413 í B-deild Alþingistíðinda. (4420)

397. mál, gölluð rafskaut hjá Ísal

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 743 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh., um gölluð rafskaut hjá Ísal:

„1. Rýrði afhending á gölluðum rafskautum til Ísals á árinu 1987 afkomu fyrirtækisins?

2. Höfðu þau viðskipti neikvæð áhrif á skatttekjur íslenska ríkisins?

3. Hver seldi Ísal þessi rafskaut?"

Tilefni þessarar fsp. eru upplýsingar sem fram hafa komið opinberlega, m.a. frá framkvæmdastjóra eða forstjóra Ísals, Ragnari Halldórssyni, og leyfi ég mér að vitna til ummæla sem eftir honum eru höfð í Morgunblaðinu 14. janúar 1988 undir fyrirsögninni „Tap vegna gallaðra rafskauta um 200 millj. kr.“

„Hagnaður varð af rekstri álversins í Straumsvík á síðasta ári eftir taprekstur síðustu ár. Hagnaðurinn varð um 10 millj. kr. en talið er að hann hefði getað orðið allt að 200 millj. hefðu ekki komið til rekstrarörðugleikar á síðasta ári vegna galla í rafskautum. Samið hefur verið um bætur fyrir beint tjón að upphæð 12–14 millj. kr. en afleitt tjón er talið hafa verið nálægt 200 millj. kr. og verður ekki bætt. Rafskautin eru keypt frá Hollandi. Þessar upplýsingar komu fram hjá Ragnari Halldórssyni, forstjóra Ísals, á blaðamannafundi í gær.“

Síðan rökstyður forstjórinn nánar þennan kostnað upp á 200 millj. kr. og segir Morgunblaðið eftir honum að notendur slíkrar vöru sem rafskautanna geti ekki tryggt sig gegn afleiddu tapi vegna notkunar þeirra.

Hér er býsna stórt mál á ferðinni að sjálfsögðu fyrir Íslenska álfélagið og annar þáttur þessa máls varðar heilbrigði og innri mengun í álverinu sem ég hef lagt fram sérstaka fsp. um. Hér er um að ræða skattgreiðslur til íslenska ríkisins. Ég spurði hæstv. ráðherra um skattgreiðslur Ísals 1985–1987 og hef fengið í gær svar við þeirri fsp. þar sem fram kemur að skattgreiðslur á árinu 1987 séu áætlaðar 1,7 millj. bandaríkjadala, sem sagt í lágmarki og það þrátt fyrir það að raforkuverðið hefur hækkað svo mjög sem raun ber vitni á þessu síðasta ári, stighækkandi. Ég gæti haldið að sá munur sem þarna er um að ræða upp á 200 millj. kr. varðandi mögulegan hagnað Ísals á síðasta ári hefði getað haft áhrif á skattgreiðslu til ríkisins. En um það fáum við væntanlega að heyra frá hæstv. ráðherra hér á eftir.