14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6419 í B-deild Alþingistíðinda. (4425)

392. mál, úttekt vegna nýrrar álbræðslu

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hv. þm. Alþb. skuli sýna nýrri álbræðslu þann áhuga sem kemur fram í þessari till. til þál. Ég ætla að ræða örlítið um till. og þó einkum og sér í lagi ýmis þau efni sem koma fram í grg. sem henni fylgir.

Í fyrsta lagi vil ég segja að eignaraðildin, sem um er talað í grg., er í anda stjórnarstefnunnar og kemur greinilega fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það sem auðvitað hlýtur að skipta mestu máli er að svara þeirri spurningu hvort við ætlum okkur í framtíðinni að nýta vatnsaflið nýta þessa auðlind til að bæta lífskjörin í landinu. Ég fagna því vissulega að Alþb., sem hefur verið afturhaldssamasti flokkur í þeim efnum, skuli vera farið að átta sig á því að þarna er auðlind sem má nýta til að bæta lífskjörin í landinu. Þetta kemur m.a. fram í því að Ólafur Ragnar Grímsson, nýkjörinn formaður Alþb. og leiðtogi flokksins, hefur lýst yfir áhuga sínum á því að selja orku með beinum hætti til útlanda sem kostaði þó miklu stærri virkjanir en er verið að tala um í því verkefni sem hér er til umræðu.

Það er ljóst að ef ekki kemur til nýr stórnotandi þurfum við að bíða í a.m.k. 10–12 ár eftir því að taka ákvörðun um næstu virkjun á eftir Blöndu. Ég vil enn fremur benda á að það er minna átak nú að takast á við þetta verkefni en það var á sínum tíma þegar ákvörðun var tekin um að virkja Þjórsá við Búrfell og að taka upp samninga við Ísal og byggja álverið við Straumsvík, jafnvel þótt það sé tvisvar sinnum afkastameira álver sem hér er verið að ræða um. Stór hluti kostnaðarins sem kemur fram er erlendur kostnaður. Við verðum að huga að því þegar þetta mál er rætt.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm., 1. flm. þessarar tillögu, að það er verið að vinna að þessu máli og það hefur ekki hvílt nein leynd yfir þeirri vinnu. Það er ætlun ráðuneytisins fyrst að ná samningum við nokkur álfyrirtæki í Evrópu til að kanna hvort hagkvæmt sé að byggja álver við Straumsvík. Þetta er undirbúningur að svokölluðu undirbúningsfélagi eða „study company“ eins og það heitir á enskri tungu og ástæðan fyrir þessum vinnubrögðum er sú að við teljum okkur ekki geta varið kannski 100 millj. kr. til að gera þær hagkvæmnisathuganir sem nauðsynlegt er að gera áður — og ég endurtek: áður en ákvörðun er tekin um hvort af þessu verkefni verður. Það mun taka a.m.k. 1–11/2 ár að fá úr því skorið hvort hugsanlegt sé að eiga samkomulag við aðra aðila um uppbyggingu á því iðjuveri sem hér er til umfjöllunar.

Ég vil geta þess að það er gert ráð fyrir því að um 400 starfsmenn vinni við álver á borð við þetta. Hér er beitt nýrri tækni frá franska fyrirtækinu Pechiney. Til samanburðar má benda á að 600 manns vinna hjá íslenska álverinu sem þó framleiðir helmingi minna en þetta fyrirhugaða álver.

Það eru uppi hugmyndir hjá Landsvirkjun, enda er það hlutverk Landsvirkjunar, um hvernig standa eigi að virkjunum til að geta útvegað orku til þessa fyrirhugaða álvers. Þær áætlanir geta að sjálfsögðu breyst og munu breytast frá einum tíma til annars.

Þetta mál er sífellt til athugunar, en það er þó ljóst að hagstæðasta útfærslan er sú að bæta við Þjórsárvirkjanir og jafnframt að setja niður túrbínu í Kröflu og virkja hugsanlega í Skagafirði. En auðvitað getur það breyst. Undir það vil ég strika að það mál þarf auðvitað ítarlegrar skoðunar við og koma þar til greina allir þeir kostir sem nefndir hafa verið og rannsakaðir hafa verið á undanförnum árum, sumir með afar miklum tilkostnaði eins og hv. þm. ugglaust man eftir ef hann rifjar það upp.

Raforkuverðið er samningsatriði, einkum og sér í lagi vegna þess að það koma mjög margar leiðir til greina varðandi raforkuverð. Það er af okkar hálfu ástæðulaust að gefa upp eitthvert endanlegt verð og gefa þannig hugsanlegum viðsemjendum okkar til kynna hvað við höfum í huga því að það koma ýmsar leiðir til greina eins og hv. þm. veit frá því að hann var iðnrh. Alþingi hefur að sjálfsögðu lokaorðið. Málið kemur hingað til þingsins þegar það er komið á það stig að Alþingi þarf að taka afstöðu til málsins og þá gefst tími til að fara ofan í alla þætti þess. Það sem skiptir öllu máli er að við verðum ekki að vingsast með þetta mál fram og til baka. Það er komið nóg af því að hika í þessum efnum. Það veit hv. þm. Hann hikaði og tapaði og við sitjum uppi með það.

Það kemur líka úr hörðustu átt að segja frá því að þingið eigi nú allt í einu að fara að fylgjast miklu meira með þessu máli en áður. Ég man þá tíð þegar hv. þm. sat í þessu ráðuneyti og boðaði til blaðamannafundar, sagði frá leyniferðum til útlanda og kom síðan inn á þingið til að ræða við þingið um það sem hann var búinn að gera til að skemma fyrir Íslendingum í þessu máli eða máli svipuðu og þessu. Þetta hlýtur hv. þm. að muna og þetta veit ég að þjóðin man og man jafnframt afstöðu hans í þessum málum.

Það var á sínum tíma gerð skýrsla fyrir ráðuneytið þar sem var tekið á nokkrum atriðum þessa máls og er enginn vafi á því að það er hagkvæmt fyrir þjóðarbúið að hafa sett upp álver við Straumsvík. Við munum, ég ætla að gera það að mínum lokaorðum, að sjálfsögðu fylgja fram þeirri stefnu sem skiptir öllu máli, en það er að eiga einungis samstarf við erlenda aðila í þessu máli og að virkja fallvötnin eingöngu í því skyni að bæta lífskjörin í þessu landi. Það er meginmarkmiðið og ég fagna því vissulega að fulltrúar Alþb. á þingi hafi skynjað að þarna er auðlind sem hægt er að nýta. Ég vonast til þess að þeir muni í framtíðinni styðja þessa stefnu eindregnar en þeir hafa gert hingað til.

Það er sjálfsagt þegar sá tími kemur að gefa upplýsingar um þessi mál. Sá tími er ekki kominn. Það geta liðið ár þangað til ástæða er til þess að menn fylgist með málum ofan í kjölinn. Auðvitað verður að gefa þeim aðilum frið til að fara með þetta mál sem nú gera það á ábyrgð iðnrn.