14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6432 í B-deild Alþingistíðinda. (4431)

392. mál, úttekt vegna nýrrar álbræðslu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Við lok þessarar umræðu vek ég athygli á því að frá hæstv. iðnrh. hefur ekki komið orð um það raforkuverð sem stjórnvöld hefðu í huga, ef einhver stefna liggur fyrir, varðandi raforkusölu til þessarar risaálbræðslu.

Vegna orða sem komu fram í seinni ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar vil ég enn og aftur vísa hv. þm. á að taka niður úr hillum, ef hann á, grg. sem iðnrn. sendi Alþingi reglubundið varðandi athugun á nýtingu innlendrar orku, þar á meðal um áhrif af fjárfestingum, því það var sannarlega á því tekið og það bar nokkuð á því að stjórnarandstaðan kveinkaði sér undan því efni sem barst hér inn í þingsali vegna þess að menn höfðu ekki áhuga á að kynna sér það og það passaði ekki í áróðurskvörnina á þeim tíma.

Og hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson kemur hér með gamla lummu um einhverja till. varðandi líftæknimál sem hafi týnst. Það var fyrrv. hæstv. iðnrh. Sverrir Hermannsson sem kom með rangar upplýsingar inn í þingsali um það mál og hafði ekki fyrir því að leiðrétta það þegar annað var leitt í ljós af starfsmönnum iðnrn. Viðkomandi till., sem samþykkt var hér um líftækni, var ekki stungið undir stól. Henni var komið til Iðntæknistofnunar skömmu eftir að hún var samþykkt í þinginu og það voru rangar upplýsingar sem þáverandi hæstv. iðnrh. bar hér fram og tíundaðar voru um þetta efni. Þetta var ekki stórt mál, en þetta er kannski svolítið dæmigert um hvernig menn reyna að lifa á rangfærslum úr fortíðinni í stað þess að taka á þeim stóru málum sem hér eru til umræðu varðandi nútíð og framtíð.