14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6434 í B-deild Alþingistíðinda. (4434)

412. mál, könnun á stöðu handmenntakennslu í grunnskólanum

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram till. til þál. sem er að finna á þskj. 759 og er 412. mál þingsins. Till. fjallar um könnun á handmenntakennslu í grunnskólanum eftir gildistöku laga um grunnskóla nr. 63/1974. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að kanna áhrif laga um grunnskóla frá 21. maí 1974 á handmenntakennslu grunnskólabarna.

Nefndinni skal jafnframt falið að gera tillögur um fyrirkomulag handmenntakennslu í framtíðinni með tilliti til breyttra þjóðfélagshátta og reynslu síðustu ára.

Nefndin skili skýrslu fyrir árslok 1988 og skal hún lögð fram í sameinuðu Alþingi. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Flestum skólamönnum ber saman um að grunnskólalögin frá 1974 hafi verið þörf og að mörgu leyti bætt grunnskólakennslu í landinu. Við lestur þessa mikla lagabálks sýnist flest skynsamlegt sem þar má lesa um markmið og meginstefnu í uppeldi ungra Íslendinga jafnt til munns og handa. Væri vel ef framkvæmd þessara laga hefði tekist jafn vel og lagasetningin.

Vafalaust hefur margt tekist vel, en lítill vafi leikur á því að þáttur handavinnu og hagleiks hefur orðið illa úti eftir þessa lagabreytingu og á ég þar þá ekki síst við handavinnu stúlkna. Nú geri ég mér grein fyrir alltyfirskyggjandi jafnréttisstefnu sem ríkja átti í handavinnukennslu pilta og stúlkna, en einmitt þar hygg ég að vandræðin hafi hafist.

Í 42. gr. laganna eru taldir upp þeir kennsluþættir sem nauðsynlegir eru til að nám í öllum bekkjum skólans, eins og þar segir, með leyfi forseta, „tengist sem best raunhæfum athugunum og þroskandi störfum utan skólaveggjanna.“ Menntmrn. setur grunnskólum aðalnámsskrá þar sem kveðið skal nánar á um uppeldishlutverk skólans og meginstefnu varðandi kennslufræði og kennsluskipan, en auk þess skal setja sérstök ákvæði um ákveðnar greinar. Þar á meðal er í lið c í greininni nefnt, með leyfi forseta, „þroskun fagurskyns, listhneigðar og hagleiks með kennslu í tónmennt, myndlist og handíðum“. Í sömu grein laganna eru svo ákvæði um að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms jafnframt því sem skólinn komi til móts við og viðurkenni mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasvið nemenda. Er sú grein ekki hvað síst athyglisverð.

Ég harma, virðulegi forseti, að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur, en við því verður ekki gert þar sem hann mun vera erlendis. En ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á að framkvæmdin hefur víðast hvar orðið á þann veg að orðið hefur að skipta bekkjardeildum í tvennt og kenna sama námsefnið tvisvar á sama kennsluári. Tímafjöldi var ekki aukinn svo að nemandinn fær helmingi minni kennslu í því sem hann átti áður kost á. Piltar fá helmingi minni kennslu í smíðum og stúlkur helmingi minni kennslu í saumum og þeirri handmennt sem stúlkur einar fengu kennslu í áður.

Í grein sem Arndís Jónsdóttir, kennari og varaþingmaður, birti í Morgunblaðinu og fylgir með till. hér sem fskj. með góðfúslegu leyfi höfundar, segir svo, með leyfi forseta, en Arndís hefur kennt handmennt um árabil:

„Það er erfitt að fallast á réttmæti þess að skerða gamalgróna og hagnýta námsgrein eins og handmennt um helming með lagaboði. Þetta hefur nú samt víðast hvar gerst með grunnskólalögunum. Þar er gert ráð fyrir að drengir og stúlkur fái sama námsefni í handmennt. Greinin er þannig að ekki er hægt að kenna stórum bekkjardeildum í einu. Þá er farið að skipta bekkjunum í tvennt eftir stafrófsröð og kennarinn verður að kenna sama námsefnið tvisvar sama veturinn og kemst því helmingi skemur með nemendurna. Það gleymdist að auka tímafjöldann í greininni.

Hvaða afleiðingar hefur svo þessi helmings niðurskurður?", heldur varaþingmaðurinn áfram. „Árangurinn hlýtur að verða að sama skapi minni. Kennarinn situr uppi með særðan metnað og ónotaða þekkingu. Þessi tiltekna námsgrein reynist líka svo viðkvæm í framkvæmd að þegar þrýsta á öllum til að læra það sama verður ástandið þannig að greinin leggst niður. Á hverju ári heyrum við nú auglýst eftir handmenntakennurum víða um land. Víða sér réttindalaust fólk um handmenntakennsluna meðan aðeins brot menntaðra handmenntakennara fæst við kennslu í greininni. Þó að kennarar tali oft um lág laun skipta starfsskilyrði þeirra líka máli. Þeir vilja sjá einhvern raunhæfan árangur af starfi sínu.

Auðvitað erum við öll sammála um að gefa skuli drengjum og stúlkum jöfn tækifæri til náms. Gaman væri líka að eiga dætur sem kynnu bæði að smíða borð og sauma og syni sem kynnu bæði að hefla og hekla. Þessu takmarki verður ekki bara náð með því að gera kennsluna í þessu öllu svo litla að ekkert sé hægt að læra að ráði. Í þessari grein er líka erfitt að þvinga fólk og þess vegna hlýtur að þurfa að leysa þetta að einhverju leyti með vali. Eftir 20 ára kennsluferil í grunnskóla, að mestu í handmennt, tel ég að hér hafi orðið stórt slys.“ - Og lýkur þá tilvitnun í grein Arndísar Jónsdóttur.

Þessi þróun er að mínu mati stórhættuleg. Í fyrsta lagi tel ég það mikilvægt menntunaratriði að fólk kunni að nota á sér hendurnar til að skapa verðmæti, efla hugarflug sitt og ekki síst að hafa ofan af fyrir sér. Einhvern tímann verða allir gamlir og eignast allan tíma sinn. Það er engin tilviljun að sá hópur er hvað drýgstur við handíðir og stendur raunar undir stórkostlegum útflutningi á ullarvöru. Þetta fólk nýtur þeirrar kunnáttu í handmennt sem það lærði í æsku og talin var undirstaða almennrar menntunar hvers einstaklings.

Í öðru lagi er með þessari þróun enn örvuð óhófleg neysla og kaup á rándýrri fjöldaframleiðslu sem vitanlega er endingarverri en handunnin vara. Gróðaöflunum og milliliðunum er fátt betra gert en þetta. Þeim þætti skal ekki gleymt sem léleg handmenntakennsla veldur í samfélaginu. Á þeim stutta tíma sem menn hafa til eigin iðju utan langs vinnutíma gefst ekki rúm fyrir tilraunastarfsemi í handverki. Léleg verkkunnátta veldur því að menn hyllast til að kasta því sem viðgerðar þarfnast og kaupa nýtt í þess stað og nýsköpun verðmæta á heimilunum verður æ fátæklegri. Má nærri geta hver áhrif rekja má til þessa þegar litið er til þenslunnar í þjóðfélaginu.

Í þriðja lagi er fátt þýðingarmeira fyrir framtíð hönnunar í landinu en góð undirstaða í meðferð þeirra efna sem við höfum von um að geta unnið söluvöru úr, og næmi fyrir línum og formi. Þessi undirstöðuatriði er of seint að byrja að kenna fólki þegar í iðn- og tækniskóla er komið.

Á ráðstefnu um listir og menningarmál á vegum Alþb. sl. vor vék einn kunnasti iðnhönnuður landsins, Valdimar Harðarson, einmitt að augljósum skorti á þessum þætti grunnskólakennslu og taldi það há mjög allri kennslu í hönnun hér á landi.

Það er alveg ljóst að þessum kennsluþætti hefur hrakað mjög og úr því þarf að bæta. Með þeirri ákvörðun, sem tekin var um að bæði kyn skyldu hljóta sömu kennslu í handíðum, var nauðsynlegt að fjölga kennslustundum að sama skapi. Það var hins vegar ekki gert og því er ástandið eins og það er nú og hygg ég að margt foreldrið í landinu horfi upp á þá raunasögu sem handavinnukennsla er þar sem litlir strákar koma heim með bögglaðar tuskur sem þeir eru að reyna að sauma og stelpur með klaufalega smíðahluti sem aldrei verða til nokkurs gagns og kunnáttan engin. Börnin fá einfaldlega of litla kennslu í handíðum.

Jafnréttisráð, er mér kunnugt um og ég hef fengið upplýsingar um það, hefur lagt á það allt kapp að að þessu sé farið, að kennslunni sé skipt jafnt milli nemenda og krafist skýrslu árlega frá skólum, a.m.k. hér í Reykjavík, um að þetta sé gert. Því hefur hins vegar algerlega láðst að athuga hvort eitthvert gagn sé í þessari kennslu og það hefur gleymt að leggja á það áherslu að auka þurfi kennsluna en ekki minnka hana.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að mínu mati að kannað sé sem fyrst hvernig raunveruleg staða handmenntakennslu sé í grunnskólakerfinu og tillögur til úrbóta gerðar sé þess talin þörf. Íslendingar hafa ekki efni á að dragast frekar aftur úr öðrum þjóðum í verkmennt og sé hætta á því þolir sú könnun enga bið. Grunnskólalögin munu nú vera í endurskoðun og er óvíst hvenær henni lýkur. Full ástæða er því til að rannsaka þann þátt grunnskólakennslunnar er lýtur að handmennt nú þegar og til þess er þessi till. til þál. flutt.

Þess má geta að könnun Efnahags- og framfarastofnunarinnar á íslensku skólakerfi á árinu 1986 leiddi í ljós að tækniþekkingu kynni að vera ábótavant meðal íslenskra námsmanna. Ég held að mér sé einnig óhætt að fullyrða að annar hver handmenntakennari í landinu hafi haft við mig samband út af þessu máli. Það er hárrétt, sem fram kemur í grein Arndísar Jónsdóttur, að handavinnukennarar hafa óþægilega tilfinningu um að það starf sem þeir eru að inna af hendi sé ekki til nokkurs gagns.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki nákvæmlega fylgst með tíma mínum, en mín er mjög freistað til að vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu 16. febr. sl. og ber nafnið „Skaðsemi velmegunar. Hugleiðing um stöðu mannsins í tæknivæddri veröld.“ og er eftir Magnús Skúlason geðlækni, en þar segir hann m.a.:

„Maðurinn sem vera í heiminum einkennist af miklum andstæðum, og tilvera hans og hlutskipti virðist mörgum fjarstæðukennt fyrirbæri. Maðurinn er örsmár og vanmegnugur andspænis hrikaleik náttúrunnar, hamförum sögunnar og óravídd rúms og tíma. Æviskeið hvers okkar er sem andrá, endalokin eru í örskotsnánd. Allt getur brugðist okkur nema það. Maðurinn býr að öðru leyti við algera spurn og óvissu um eðli sitt og tilgang og um eðli og tilgang allrar tilverunnar. Hann veit ekki af hverju hann er til, né heldur veröldin, hann veit ekki hvaðan hann kemur né hvert ferðinni er heitið. Stöðug undrun er því við hæfi. (Þó að oft sé nú undraverður skortur á henni.) Óttinn er órjúfanlega samofinn mannlegu hlutskipti, en um leið vonir og þrár eftir tilgangi og innri sátt þrátt fyrir allt.“

Síðan segir Magnús Skúlason geðlæknir um félagslegan veruleika:

„Hlutskipti mannsins er þannig í eðli sínu nokkuð þungt á köflum. Með manninum takast á frumstæðar eðlishvatir og andlegar þarfir. Hann er í senn einstaklingur og félagsvera. Hann einkennist af útrásarþörf og sköpunarþörf, þörf á starfi og þörf á kærleika. Í óhæfilegri félagslegri og andlegri einangrun og án fullnægjandi viðfangsefna eða útrásar fyrir orku sína er maðurinn illa staddur. Þó að einstaklingurinn sé e.t.v. með réttu lofsunginn sem einhvers konar tilvistarleg grunnforsenda eða brennidepill vitundar um veruleikann, þá er þessi „lifandi brennidepill“ eða neisti skærastur í snertiflötum mannlegra samskipta, tjáskipta og tengsla í óteljandi tilbrigðum og verðugra viðfangsefna.“

Að lokum segir geðlæknirinn um nauðsyn listarinnar, með leyfi forseta:

„Ekki verður skilið við þessa umræðu um varðveislu menningar og heilbrigðis án þess að drepa rétt aðeins á listir og hlutverk þeirra, og hér er átt við allt í senn, bókmenntir, myndlist, tónlist, leiklist, kvikmyndalist o.s.frv. og enn fremur bæði listsköpun og listnautn eftir atvikum. Listin dýpkar og þroskar mannsandann, skyn mannsins á fegurð og ljótleika, eykur skilning og ábyrgð mannsins á sjálfum sér og veröldinni og virðingu fyrir tilverunni, hæfni til að takast á við hana - og skilja tilganginn í lífinu. Ég leyfi mér að fullyrða að listin sé í senn heilsufarsleg nauðsyn og ein meginforsenda mannlegs samfélags og virðist mér langt frá því að þorri manna, stjórnvöld og fjölmiðlar hafi gert sér viðhlítandi grein fyrir þessu. Ráða þarf bót á því. Meðal annars þarf að skapa öllum tíma frá brauðstriti og búksorgum til að ástunda og rækta lífsnauðsynleg menningarverðmæti, listir og önnur holl hugðarefni“ - og lýkur þar með tilvitnunum mínum í grein Magnúsar Skúlasonar geðlæknis.

En því leyfi ég mér að vitna í þessa merku grein að undirstaða þess að menn hafi hæfni til að njóta listar, til að skapa list er að sá eiginleiki þeirra sé ræktaður frá fyrstu byrjun strax í forskóla, í grunnskólanum og í framhaldsskólanum. Þetta má ekki vanrækja og ég held að hv. þm., eftir heldur lágkúrulega umræðu sem fór hér fram áðan um annað stórmál í lifi þjóðarinnar, sem eru orkumálin, ættu að fá sér Morgunblaðið frá 16. febr. 1988 og lesa þessa grein Magnúsar Skúlasonar því að orkumál snúast heldur ekki aðeins um aukna velmegun eins og menn sögðu hér hvað eftir annað áðan, a.m.k. ekki nema sú velmegun sé skilgreind, hver sú velmegun er. Hærri laun og meiri eyðsla eru nefnilega ekki endilega velmegun. Ýmislegt annað þarf að koma til.

Ég held að það mái sem ég hef hér gert að umræðuefni sé stórmál sem þarf að sinna af fullri alvöru. Það er verið að taka einn merkan þátt út úr menntakerfi þjóðarinnar, sem sagt þann þátt sem er frumhæfni manneskjunnar til að nota hendur sínar til að skapa verðmæti sér til yndis og ánægju og gagns við hvert það starf sem maðurinn kann síðar að inna af höndum.