14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6439 í B-deild Alþingistíðinda. (4435)

412. mál, könnun á stöðu handmenntakennslu í grunnskólanum

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. flm. af stöðu handmenntakennslu í grunnskólum eftir gildistöku laga um grunnskóla. Sú breyting sem gerð var var vissulega réttmæt og eðlileg að því leyti að piltar og stúlkur fái kennslu í sama námsefni, en það er spurning hvort hún á að vera jafnmikil. Það að þau fái nú helmingi minni kennslu en áður í saumum og smíðum tel ég mjög vafasamt svo ekki sé meira sagt.

Það hlýtur að vera nauðsynlegt nú á dögum rétt eins og alltaf hefur verið að einstaklingar hafi ákveðna lágmarkskunnáttu í því að gera við og lagfæra. Þetta getur verið, eins og kemur fram í grg. með tillögunni, spurning um nýtni svo að ég tali nú ekki um þá listsköpun sem hér er um að ræða. En það sem ég vil ekki síður leggja áherslu á er að hannyrðir eru skemmtilegar og mörgum konum stórkostleg lífsfylling, en til þess að þær geti verið það verða þær að fá ákveðna undirstöðukennslu í grunnskóla.

Ég veit dæmi þess í dag að 17 ára stúlkur kunni ekki krosssaum og hekl er a.m.k. víða ekki lengur á námsskrá. Ég veit einnig dæmi þess eins og fram kom hjá hv. flm. að hannyrðakennarar hafa hætt störfum þar sem þeim finnst þessi kennsla nú hvorki vera fugl né fiskur.

Umræðan sem fram hefur farið um jafnrétti á sl. árum hefur svo sannarlega verið þörf og áreiðanlega leitt ýmislegt gott af sér, en því miður er ég ekki frá því að hún hafi einnig orðið til þess að lítilsvirða þau störf sem fram til þessa hafa kallast kvennastörf og mættu einnig kallast kvenleg störf.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Grunnskólalögin eru í endurskoðun og því er ástæða til að leggja sérstaka áherslu á að handmenntakennsla verði athuguð mjög náið í sambandi við þá endurskoðun.