14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6439 í B-deild Alþingistíðinda. (4436)

412. mál, könnun á stöðu handmenntakennslu í grunnskólanum

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér til að taka undir till. sem hv. 13. þm. Reykv. hefur gert grein fyrir og vil taka undir líka það sem hv. 5. þm. Norðurl. e. Valgerður Sverrisdóttir sagði. Það er hætta á að við týnum niður þeirri menningarlegu hefð sem felst í handavinnu þjóðarinnar. Sem betur fer hafa konur æ meira gert sér grein fyrir þessari hættu og hafa í auknum mæli lagt áherslu á að ferja þessa þekkingu til komandi kynslóða. Því miður var það ákveðin stefna á tímabili að konur ættu helst hvorki að prjóna né sauma. Má vel vera að það hafi verið á vissan hátt, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði, ákveðin lítilsvirðing á störfum kvenna. Það var upp úr 1970 og í kringum það að margar konur litu svo á að jafnrétti væri fólgið í því að líkjast körlunum sem mest. Þá var það eitt af því sem þær gerðu mikið að hætta að vilja sauma og taka í prjóna. Ég held að þetta sé að breytast og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við reynum að gera allt til að stuðla að því að þessi fræðsla verði aukin í skólum, ekki bara til fyrra horfs heldur jafnvel enn þá frekar. Ég held að það sé mikilvægt líka að stúlkur og drengir kynnist bæði smíðum og saumum, en þó vil ég leggja áherslu á að auðvitað verður hver að fá að rækta þá hæfileika sem hann hefur. Allir þurfa að fá undirstöðu, en síðan er á vissan hátt hættulegt að pína kannski stráka til að vera of mikið að sauma og stelpur til að vera of mikið að smíða. Það verður að finna áhugasvið hvers og eins. Það eru mjög margir piltar sem gjarnan vilja sauma og prjóna, en þeim finnst það skammarlegt. Við þurfum endilega að gera þetta meira jákvætt því að það er mjög þroskandi og gefandi að prjóna og sauma þó að fáir karlar hafi e.t.v. reynt það. Mér segja gamlir menn sem hafa prjónað, þeir hafa prjónað mikið margir sem ég þekki, að þetta sé þeim mjög mikilvægt, sérstaklega í ellinni. En það er varla hægt að kenna þeim að prjóna þegar þeir eru orðnir gamlir.

Ég vildi að lokum, herra forseti, benda á að níu hv. þm. báðu um skýrslu til menntmrh. fyrr í vetur um stöðu list- og verkmenntagreina, heimilisfræða og íþróttakennslu í skólum landsins og menntun kennara í þessum greinum. Ég og hv. þm. Guðrún Helgadóttir skrifuðum undir þessa beiðni, báðum um þessa skýrslu ásamt öðrum. Við höfum ekki fengið svar við henni enn þá. En þar er tekið bæði á spurningunni um hversu margar kennslustundir í viku eru ætlaðar í þessar greinar og fleiri spurningum um menntun og annað þar sem kemur að hluta til inn á það sem um er beðið í þessari skýrslu.

Ég ítreka að ég tek undir efni þessarar tillögu og vona að hún verði samþykkt.