14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6441 í B-deild Alþingistíðinda. (4438)

412. mál, könnun á stöðu handmenntakennslu í grunnskólanum

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og tekið vel í þessa tillögu og tek undir þær óskir að ég vona að hv. þm. sjái sér fært að afgreiða þessa tillögu á þessu þingi. Ég er hjartanlega sammála því sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. og einkum síðasta hv. ræðumanni sem minntist á að hér þyrfti auðvitað að vera um val að ræða, enda eru ákvæði í grunnskólalögunum um að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms jafnframt því sem skólinn komi til móts við og viðurkenni mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasvið nemenda eins og þar segir. Í því tilviki sem hér er til umræðu held ég að nauðsynlegt sé að gefa nemendum kost á að velja. Við getum nú einu sinni ekki horft fram hjá því að konur eru almennt fingraliprari en karlmenn og ég held að því verði ekki breytt með neinum lagaboðum, og ýmsum drengjum er ósýnna um hina fínni handavinnu en stúlkum hvað sem hver segir.

Ég held að það sé líka hárrétt hjá hv. 12. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur að við munum báðar þá tíma þegar mjög þótti ófínt að konur sætu og dútluðu við handavinnu. Þar beið okkar annað úti á hinum andlega vettvangnum og heldur litið niður á að konur væru að fást við hégóma sem þann að sauma í stramma eða prjóna peysur. Sannleikurinn er hins vegar sá að það að geta notað á sér hendurnar og gera það vel er greindarmerki meira en nokkuð annað. Menn nota ekki á sér hendurnar án þess að nota á sér höfuðið líka svo ég held að það sé alveg óþarfi að hafa af þessu minnstu áhyggjur.

Þorsteinn Gylfason, lektor við Háskóla Íslands, hélt merkilegt erindi á áðurnefndri ráðstefnu Alþb. um listir og menningu. Hann reyndi að svara þeirri spurningu, en hann er lektor í heimspeki: Hvað er menning? Og hann svaraði því með sinni venjulegu góðu röksemdafærslu og komst að þeirri niðurstöðu að menning væri það að gera hluti vel. Ég held að því verði varla svarað betur. Það er þess vegna menning að sauma fallegan dúk alveg eins og að halda málverkasýningu. Ég held að í hverri einustu manneskju búi sköpunarkraftur sem á að fá útrás og er nauðsynlegur jafnt þeim einstaklingi sem og okkur öllum hinum. Ég ætla ekki að endurtaka þau rök sem ég hef fyrir þeirri skoðun minni að nauðsynlegt sé að líta á það sem eðlilegan lið í almennri menntun hvers einstaklings að hann kunni að nota á sér þessi dýrindis verkfæri sem hendurnar á okkur eru.

Að lokum, virðulegi forseti. Ég held að það sé enn mikilvægara nú en áður að hv. þm. leiði hugann að því hvers virði menntun og menning er. Við lifum á öld tækni, þekkingar og síaukinnar þekkingarleitar og sérhæfing verður æ meiri. Ýmsar þjóðir eru þegar farnar að gera sér ljóst að í allri þessari sérhæfni, allri þessari tölvutækni, er einmitt meiri þörf fyrir almenna undirstöðumenntun en nokkru sinni fyrr.

Á ráðstefnu um tölvutækni sem Norðurlandaráð gekkst fyrir á sl. sumri sagði einn ræðumanna réttilega: „Í framtíðinni verður ekki hægt að nota tölvufræðing sem veit ekki hver Hóras er.“ Ætli þetta sýni okkur ekki einmitt fram á að öll þekking kemur okkur til góða, hvers eðlis sem hún er? Við eignumst ekki góða fatahönnuði sem kunna ekki að halda á nál, né heldur góða húsgagnahönnuði sem aldrei hafa haldið á hamri. Allt sem við lærum og gerum skilar sér einhvern tíma í einhverjum þeim störfum sem við fáumst við.

Virðulegi forseti. Ég skal því ekki tefja tímann lengur þó í þessi mál mætti vissulega eyða tíma en vil að lokinni þessari umræðu fela málið hv. félmn. Sþ.