14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6448 í B-deild Alþingistíðinda. (4443)

453. mál, ráðstafanir gegn atvinnuleysi á Suðurlandi

Guðni Ágústsson:

Virðulegi forseti. Hv. 6. þm. Suðurl. flutti hér mikið mál og lýsti því ástandi sem við er að glíma á Suðurlandi og víðar. Ég ætla ekki að draga úr því að vandinn á Suðurlandi er mikill eins og hann sagði. Ég held að vandi landsbyggðarinnar í heild sé stór og vandi íslenska þjóðfélagsins í framhaldi af því enn þá stærri. Ég tek undir það að hér þarf snörp viðbrögð, hér þarf skjót úrræði. Ég geri kröfur um það í mínum flokki að hart verði brugðist við, að ríkisstjórnin láti ekki talið eitt gilda, að Alþingi sjálft láti sér ekki nægja í sýndarmennskuleik stundarinnar að ræða um málin.

Ég sé enga lausn í því að skipa á nýjan leik níu manna þingmannanefnd til að fjalla sérstaklega um málefni Suðurlands. Það liggur fyrir hvað er að. Það þarf aðeins að herða á því að aðgerðir verði hafnar. Ég vil minna á að Alþingi er ekki í fyrsta sinn nú að tala um vanda byggðanna. Sem betur fer hefur Alþingi áður kafað ofan í vanda byggðanna. Ég er hér með í höndunum mikla skýrslu sem unnin var af svokallaðri byggðanefnd þingflokkanna. Hún hefur kannski að mestu hér á Alþingi og í flokkunum legið og safnað ryki, en hér er ein merkilegasta tilraun sem hefur verið gerð af löggjafarsamkomunni til að brjóta til mergjar vanda landsbyggðarinnar. Hér liggur í þessari bók í rauninni vandinn opinn og krufinn. Hér er sá leiðarvísir sem hæstv. ríkisstjórn getur m.a. notað í málefnum Suðurlands.

Þessi byggðanefnd þingflokkanna var skipuð í kjölfar afgreiðslu Alþingis á frv. til breytinga á stjórnarskrá lýðveldisins á 105. löggjafarþinginu vorið 1984. Markmið nefndarstarfsins var að gera tillögur í samræmi við samkomulag þeirra stjórnnálaflokka sem þá áttu fulltrúa á Alþingi. Tilgangurinn var að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. Þar var m.a. gert ráð fyrir að sveitarfélög fengju meira sjálfsforræði og þannig yrðu völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismunar vegna búsetu gætir helst.

Það er athyglisvert að sjá að svo margir stjórnmálaflokkar lögðu vinnu í að gera þessa skýrslu og að þeir komust að sameiginlegri niðurstöðu og undirrita hana menn úr sex stjórnmálaflokkum. Þrír þessara manna eru enn á Alþingi.

Ég vil taka undir margt sem kemur fram í þessari skýrslu og hvetja þingmenn til að kynna sér efni hennar.

Ég tel að það sem við þurfum að átta okkur á sé það í fyrsta lagi, sem kom fram í máli flm., að atvinnuvegirnir eiga nú við talsverða erfiðleika að etja. Fjármagn þeirra hefur brunnið upp á skömmum tíma. Ég hygg að það sé rétt að lánskjaravísitalan, sem menn hafa hrist hér höfuðið yfir og neitað að ræða að væri ranglát, sé það svo sannarlega. Ég þekki það úr þeirri nefnd sem ég starfa í hér í þinginu að menn vilja vart senda slík mál til umsagnar hvað þá að Alþingi fari að skipta sér af slíku. Þó fagna ég því að hæstv. viðskrh. hefur nú, þegar mánuðir hafa liðið af þessu þingi, heldur áttað sig á málinu og mun nú hafa skipað eða vera að skipa nefnd til að kanna grundvöll lánskjaravísitölunnar.

Við höfum heyrt hér mikið rætt um orkuverð. Það er enginn vafi að vandi landsbyggðarinnar er að hluta fólginn í því að það er hærra orkuverð og þar af leiðandi dýrara að lifa úti á landi. Að einhverju leyti eru launin þar lægri og vöruverðið hærra. Þessa verðum við varir á Suðurlandi og líðum fyrir ekki síst að það er stutt hér yfir heiðina og jafnvel er það svo að verslanir á þessu svæði kaupa fólkið yfir þessa heiði. Ofan á lágt vöruverð bjóða þær hópferðum afslætti. Þetta er alvarlegt mál sem setur þegar svip sinn á þessa nálægu byggð Reykjavíkursvæðisins.

En við megum ekki bara horfa til stjórnvalda. Við verðum líka að vera menn heima fyrir, eiga skap og eiga trú á okkar svæði. Við verðum virkilega að þora að vera menn og bera virðingu fyrir okkar heimasvæði og á það reynir. Það reynir á það að verslanir á okkar svæði nái niður vöruverði og geti sannfært fólkið um að svo sé því að ég hygg að í mörgum tilfellum sé það umræðan sem flytur stóran hluta fólksins í burtu. Ég hef tekið eftir því í þessum sal að hvenær sem menn halla á Skagafjörð eða Sauðárkrók reiðist hv. þm. Stefán Guðmundsson. Þar er allt bjart og þar er allt gott. Þar er uppbygging og þar er ágætt líf. Við verðum nefnilega að átta okkur á því að þó að við eigum við vanda að etja sem stjórnvöld verða að leysa er það svo að umræðan flytur fólkið frá svæðunum.

Á Suðurlandi sérstaklega er það samkeppnisiðnaður sem þar hefur farið halloka í þeim geigvænlega innflutningi sem hér viðgengst og í ofanálag hafa kartöflubændur, ekki síst í Rangárþingi, átt í miklum erfiðleikum, erfiðleikum sem því miður þeir að mörgu leyti skópu sér sjálfir, en mér sýnist nú að þeir séu að vakna til vitundar um að það er samstaðan sem gildir og muni taka á sínum málum alveg á næstunni.

Ég vil að lokum segja að ég sé enga ástæðu til þess að ein þingnefndin enn kafi ofan í þann vanda sem fyrir liggur. Í mínum huga er hann augljós og ég vænti þess að ríkisstjórnin hafi á næstu vikum burði til að taka á þeim vanda sem landsbyggðin á við að etja og þeim vanda sem nú er að sliga þetta þjóðfélag, viðskiptahallanum og hinum gegndarlausa innflutningi. Og í framhaldi af umræðum hér um stóriðju í morgun skal á það minnt að mesta stóriðja sem við Íslendingar eigum er fólkið sjálft. Við eigum að vernda iðnað og hin ýmsu smáu verkefni sem hér eru unnin í litlum fyrirtækjum og ekki síst hafa þrifist úti á landinu en eru nú því miður deyjandi vegna hins geigvænlega innflutnings sem hér hefur átt sér stað.

Þess vegna tel ég að fyrst og fremst sé þetta mál ríkisstjórnarinnar á þessari stundu og hún verður væntanlega knúin til þess að hefja þær aðgerðir sem snúa við þeirri þróun sem átt hefur sér stað ekki bara á þessu ári heldur um áratuga skeið í þessu landi með tilflutningi fólksins. Hann var hafinn áður en hv. þm. Stefán Valgeirsson, sem hér er með þeim elstu, settist á þing. En þróunin er ískyggileg.