04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

1. mál, fjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað grannt eftir málflutningi stjórnarandstæðinga í þessum umræðum. Ég hef ekki síst hlustað grannt eftir því sem þeir hafa látið ósagt.

Ég hef kannski fengið einhverja skýringu á því hvers vegna það er að sumir yfirlýstir stjórnarsinnar hafa komið hér upp í ræðustól og lýst fyrirvörum. Kannski þeir hafi séð ástæðu til að taka að sér að leika einhvers konar stjórnarandstöðu í stað þeirrar sem ella flutti hér sitt mál. Ég minni á að umræða um fjárlagafrv. er ekki bara umræða um frv. sem slíkt. Umræða um fjárlagafrv. er umræða um efnahagsmál í heild sinni þannig að hún gefur væntanlega kjörið tilefni til fyrir stjórnarandstöðuna að lýsa ágreiningi sínum við ríkisstjórn og ríkjandi stjórnarstefnu, koma á framfæri stefnu sinni, lýsa þeim leiðum sem hún hefði kosið að væru farnar í staðinn.

Einhver hv. þm. sagðist ekki sjá stefnu í þessu frv. Hv. þm. Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambandsins, sá stefnuna. (Gripið fram í: Hitt var hæstv. forseti.) Hitt var hæstv. forseti sem sá ekki. Kannski hæstv. forseti geti gengið í skóla til annars forseta, forseta Alþýðusambandsins, og kynnst stefnunni betur þó að ég treysti kannski ekki alveg túlkunum forseta Alþýðusambandsins hafandi heyrt hans mál.

Það kemur fram í máli stjórnarandstæðinga að ná eigi jöfnuði í ríkisfjármálum. Jú, það er gott út af fyrir sig. Það kom fram í máli seinasta hv. ræðumanns að hann sagði alveg eins og við fyrir kosningar: Það er verulegur innbyggður halli í ríkisfjármálum. Það er öllum nauðsynlegt að sá hallarekstur verði stöðvaður og það verður ekki gert nema með tveimur aðferðum, annaðhvort með lækkun útgjalda eða með öflun tekna eða hvoru tveggja sem er sú leið sem við höfum farið.

Menn geta út af fyrir sig sagt: Það er góðra gjalda vert að hafa jöfnuð í ríkisfjármálum og goldið því almennt jáyrði, en bætt svo við: Ja, við erum ekki sammála aðferðunum. Við viljum fara aðrar leiðir. Reyndar kom það fram í máli, held ég, tveggja ræðumanna í þessum umræðum af hálfu stjórnarandstöðunnar að þeir hefðu gjarnan viljað fara aðrar leiðir. Fulltrúi Kvennalistans lýsti því að þær kvennalistakonur hefðu viljað fara aðrar tekjuöflunarleiðir og nefndi til sögunnar stóreignaskatt, frekari skattlagningu á verslun og viðskipti og að uppræta skattsvik. Það hefur enginn flutt tillögur um stóreignaskatt. Það gerðum við alþýðuflokksmenn á tveimur þingum, 1983–1984 og 1984–1985, till. til þál. um stigbreytilegan stóreignaskatt. Við endurnýjuðum ekki þær tillögur vegna þess að okkar hugmyndir beinast nú fremur að því að endurskoða í heild sinni, eins og ég lýsti mjög rækilega í minni ræðu, hugmyndir okkar um breytingar á skattlagningu á eignatekjum. Það kom skýrt fram í mínu máli að þessar tekjur eru að verulegu leyti skattfrjálsar í okkar þjóðfélagi. Það kom fram að það er með öðrum hætti með öðrum þjóðum. Það liggur fyrir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar að þessu viljum við breyta. Ég rökstuddi mjög rækilega hvers vegna það verður ekki gert á stundinni, en lýsti þeim leiðum sem þyrfti að fara. Að þessu er unnið. Að þessu vinnur sérstakur starfshópur í fjmrn., að tæknilegri undirbúningsvinnu. Fleiri verða kvaddir til þegar það mál er komið betur á rekspöl.

Skattlagning á fyrirtæki. Já. Í máli forseta Alþýðusambandsins kom fram sú tala, sem ég veit nú út af fyrir sig ekki hvort er nákvæmlega rétt en oft hefur maður heyrt hana, að þær breytingar sem gerðar voru í tíð fyrrv. ríkisstjórnar hafi leitt til lækkunar á sköttum fyrirtækja sem svarar kannski til 2 milljörðum. Ég gerði rækilega grein fyrir því í hverju tekjuöflunaráform þessarar ríkisstjórnar eru fólgin. Ég nefndi þar að skattar á atvinnurekstur næmu 600 millj. og var þá bara með í huga það sem áætlað er að fyrirtæki skili ríkissjóði í auknum tekjuskatti, launaskatti og verktakagjaldi. En skattlagning á fyrirtæki er líka fjölbreytilegri en þessi. Það eru skattar á erlendar lántökur, það er hækkun á ríkisábyrgðagjaldi, það er skattlagning á kjarnfóðurgjaldi, það er arðgjöf ríkisfyrirtækja í atvinnurekstri. Allt í allt má segja að af þeim 2 milljörðum kr. sem boðaðir eru með skattlagningu umfram það sem þegar kom fram í fyrstu aðgerðum ríkisstjórnar, þá lætur nærri að 2/3 komi í hlut fyrirtækja. Það fer ekkert milli mála að ríkisstjórnin er að leggja auknar byrðar á fyrirtæki. Svo geta menn deilt um hagfræðina og sagt sem svo: Ja, en fyrirtækin geta velt sköttum yfir á neytendur. Já, þau geta það að lokum í mismunandi miklum mæli, en að sumu leyti geta þau það ekki. Hins vegar er hver sá sem stendur upp og segir: Það er verið að hlífa fyrirtækjum, það er verið að byrja á öfugum enda, það er ekkert hróflað við fyrirtækjum, að fara með rangt mál. Sú fullyrðing stenst ekki.

Og í annan stað: Menn skyldu líka hafa í huga, af því að við erum að tala um stefnu, viðleitni ríkisstjórnarinnar til lækkunar á útgjöldum. Hvar bar hún niður? Var það í brýnustu velferðarmálum fólks? Var það í húsnæðismálum? Var það í málefnum fatlaðra? Var það í heilbrigðiskerfinu? Var það í menntakerfinu? Var það í framlögum til menntamála? Nei. Það var í því sem við kölluðum velferðarkerfi fyrirtækjanna. Það var í millifærslum, styrkjum og framlögum þar sem skattpeningur almennings að mestu leyti er reiddur fram til stuðnings við fyrirtæki og atvinnuvegi til að kosta stofnanir sem þjónustuatvinnuvegi o.s.frv., í millifærslum, styrkjum og framlögum til atvinnuvega. Á báðar hliðar, tekjuöflunarhlið og gjaldahlið, er þessi ríkisstjórn að leggja auknar byrðar á fyrirtæki og atvinnulíf sem kannski svarar nokkurn veginn til þeirra 2 milljarða eða svo sem af þeim var létt á síðasta kjörtímabili.

Ég hef bókað hjá mér mikinn sparðatíning eða öllu heldur, svo að við tölum nú virðulega, langan lista af ábendingum um að það vanti útgjöld í hitt og þetta. Það þurfi að hækka útgjöld í hitt og þetta. Það er gersamlega ólíðanlegt að útgjöld séu ekki hærri í hitt og þetta. Ef það væri allt saman talið saman nemur það nokkrum tugum, þær frómu óskir og tillögur. Ég rifja það upp um lækkun útgjalda frá upphaflegum útgjaldaáformum, t.d. þeim sem bárust frá fagráðuneytum til fjmrn. í lok ágústmánaðar, að ef litið er á þann lista í lækkun útgjalda nemur hann líklega rúmum 6000 millj. kr. Einhvers staðar sér þess stað þegar menn ætla eftir þessum leiðum að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og allir segja: Jú, það er út af fyrir sig gott svo langt sem það nær. Það er ágætt. Við erum bara ósammála um leiðir. En svo þegar kemur að leiðunum kemur það nefnilega á daginn að það benti enginn á aðrar leiðir.

Eru menn ósammála þeirri leið sem ríkisstjórnin valdi í lækkun útgjalda? Vildu menn kannski fremur en beina því átaki fyrst og fremst að styrkjum og framlögum til fyrirtækja beina því að einhverjum öðrum þáttum? Hefur einhver lýst því? Hefur einhver af hv. þm. stjórnarandstöðunnar lýst því hvar hann vildi láta lækka útgjöld? Og hefur yfirleitt nokkur lýst því í raun og veru heldur hvernig viðkomandi vilji ná hinu eftirsóknarverða markmiði um jöfnuð í ríkisfjármálum eftir öðrum leiðum tekjumegin?

Það fór fram í hv. Ed. um daginn ágæt umræða um till. sem Alþb. flytur um skattamál. Till. var í nokkrum liðum og henni fylgdi samantekt frá miðstjórn fremur en landsfundi Alþb. í tíu liðum. Ég las þessa till. upp í svarræðu þegar ég átti orðastað við formann Alþb., Svavar Gestsson, og af þeirri upptalningu var alveg ljóst að um öll atriði nema eitt var ekki minnsti ágreiningur okkar í milli, ekki nokkur. Ég fæ því út af fyrir sig ekki séð að það sé neinn ágreiningur um það. Hafi forseti Alþýðusambandsins farið í sinni kosningabaráttu og vakið athygli manna á því að viðvarandi hallarekstur á ríkissjóði mætti ekki standa til frambúðar og það kallaði á einhverja skattlagningu höfum við vafalaust verið að fara með svipað mál á svipuðum slóðum á svipuðum tíma.

Það kann vel að vera að okkur greini á að einhverju leyti um þann þátt í einföldun skattakerfisins sem lýtur að matvælum. Og þá vísa ég til þess að ég vildi mega vænta þess að forseti Alþýðusambandsins skoðaði sinn hug betur. Mín sannfæring fyrir þessu er djúp og sterk. Ég hef kynnt mér þetta mál eins rækilega og ég hef getað, ekki bara af málflutningi skattsvikaskýrslu, ekki bara af viðræðum við fjölda aðila sem eiga að framkvæma þetta skattakerfi, heldur líka af umsögnum og greinargerðum um framkvæmd skattakerfis í grannlöndum okkar, og ég er orðinn alveg gjörsamlega sannfærður um að það er engum manni ætlandi að framkvæma þetta kerfi eins og það er. Og lykilatriði í því er: Ein og sama álagningin án undanþágu einmitt og ekki hvað síst í almennum matvöruverslunum sem eru u.þ.b. fjórðungur af söluskattsstofninum.

Fyrir utan það sem vantaði, það sem ekki var rætt um, hvaða leiðir stjórnarandstaðan vildi fara til að ná hinum æskilegu markmiðum, þetta að ná niður hallarekstri á ríkissjóði sem stefndi í 4000 milljónir í byrjun september, þetta að draga verulega úr erlendum lántökum, að stöðva erlendar lántökur ríkisins, að draga úr lánaumsvifum ríkisins, öll sú aðhaldssemi sem birtist í lánsfjárlögum. Jú, jú, menn segja: Þetta er gott, þetta er gott, svona á þetta að vera. En þegar kemur að leiðunum þá vandast málið. Það var kannski kjarni ræðu minnar hér í dag, sem var býsna löng, að gera í smáatriðum grein fyrir því hvaða leiðir við vildum fara, því að ágreiningur í pólitík er ekki venjulega um einhver góð og göfug markmið, hann er venjulega þegar kemur að leiðunum. Ég held að við verðum ekki sakaðir um að það sé ekki nokkurn veginn skýrt og skilmerkilegt hvaða leiðir við höfum farið. Eins og ég var að lýsa völdum við þann kost að því er varðar lækkun útgjalda að það eru fyrst og fremst fyrirtækin sem bera byrðarnar og atvinnuvegirnir. Sumir segja langt um of. Þeir sem hafa sig mest í frammi í mótmælum eru a.m.k. forsvarsmenn fyrirtækja og atvinnuvegasamtaka. Það eru nánast líka að hluta til hinir sömu og komu og voru hvað háværastir og pöntuðu sína gengislækkun, sérstaklega í septembermánuði og byrjun ágústmánaðar, en fengu ekki.

Um tekjuöflunina segja þeir hinir sömu menn, og ágætt dæmi er hv. þm. Ingi Björn Albertsson, sem las hér upp úr bréfunum sem hann fær, það auðveldar heimastílagerðina við ræðuflutninginn. Hann hefur nokkrum sínum í ræðum sínum talað um skattpíningarstefnuna án þess að sjálfsögðu að hafa nokkurn tímann gert sér grein fyrir einni eða neinni stefnu um það mál af hálfu þess flokks. Það gerði þó hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson í einu atriði, ég kem að því á eftir. Skattpíningarstefnan annars vegar, það er gagnrýnt, of mikil tekjuöflun. En síðan koma langir listar um meiri útgjöld, meiri útgjöld, meiri útgjöld. Ég sá enga stefnu í þessum málflutningi, ekki nokkra. Síðan dekrið við sérhagsmunahópana, kröfugerðarhópana, það að taka ævinlega undir, slá sig svolítið til riddara með því að taka undir kröfur sem auðvelt er með einföldum málflutningi að leggja út á þann veg að þær séu sjálfsagðar, svona með því að gleyma staðreyndum, eða rangtúlka þær. (Gripið fram í.) Þetta er ósköp auðveldur málflutningur en um leið alveg skelfilega billegur og mundi auðvitað engum duga til nokkurra verka í pólitík ef á reyndi.

Lítum ögn á örfá mál. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Ég verð að segja eins og er að ég kunni vel að meta ræðu hv. þm. Alexanders Stefánssonar í því máli. Þar talaði sveitarstjórnarmaður með 20 ára reynslu og það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir ekki mörgum árum sat ég í sveitarstjórn í sjávarútvegsplássi úti á landi í ein átta eða níu ár, á uppgangstímum í sjávarútvegi. Það er góður skóli í pólitík. Sveitarstjórnarmenn eru að fást við mál sem spanna nærri því allt þjóðlífið. Það er alveg sama hvaða verkefni það er, hvort það er vatnsöflun, sorpbrennsla, dagvistarheimili, það að reisa stálþil eða viðlegukant í höfninni, smábátabryggja, gatnagerð, skipulagsmál, lóðaúthlutun, skólahald, skólabyggingar, framhaldsskólar, dvalarheimili fyrir aldraða, öll þessi verkefni sem sveitarstjórnir eru að fást við. Ég fékk alveg nægilega reynslu af því að það samskiptakerfi ríkis og sveitarfélaga sem við búum við er af hinu vonda. Um það hef ég alveg grunnmúraða sannfæringu.

Sveitarstjórnarmaður er sá lýðræðislega kjörinn fulltrúi sem stendur sínu fólki næst. Hann á að fást við verkefni þar sem hann er í það mikilli nálægð við sína umbjóðendur og hann þarf að hafa valdsvið á sínum verkum. Í nánast öllum málum sem máli skipta, stórum sem smáum, var það okkar reynsla í bæjarstjórn Ísafjarðar á þessum áratug, og er enn, að það þurfti að gera menn út suður til Reykjavíkur. Það þurfti að leggja málin fyrir í fjvn., það þurfti að fara í öll ráðuneytin, það þurfti að fara í stofnanirnar varðandi húsnæðismál, hafnarmál, vitamál, vegamál og það þurfti að fara í allt báknið. Það þurfti að knékrjúpa, það þurfti að biðja, það þurfti að fara með bænarskjöl, það þurfti að óska eftir leyfum og það þurfti að nudda í mótframlög. Sveitarfélagið var niðursetningur í þessu stjórnkerfi. Tölum ekki um sólundina og vitleysuna í þessu stjórnkerfi. Þegar bæjarstjórinn okkar, ráðinn embættismaður, var eitt árið búinn að eyða 155 flugdögum í Reykjavík, fyrir utan það að hafa verið þar veðurtepptur í eitthvað um 70 daga, þá sögðum við honum upp og komumst reyndar að þeirri niðurstöðu að nær hefði verið fyrir okkur að fá okkur sendiherra í Reykjavík, með fastan samastað. Þetta hefur ekkert breyst. Þetta er það sem ég kallaði betlistafsbyggðastefnu. Ég er andstæðingur þessarar byggðastefnu. Og svo er guði fyrir að þakka að sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið eru það líka þrátt fyrir það að ungir menn séu að reyna að slá sig ögn til riddara með því að finna þessu af reynsluleysi sínu allt til foráttu.

Það var haldinn samráðsfundur sveitarfélaga og ríkisvalds núna þann 10. okt. Og hvað gerðist þar? Hann var haldinn á grundvelli samstarfssáttmála sem sveitarfélög og ríkisvald hafa gert með sér, þriggja ára gamall eins og kom fram í máli Alexanders. Þar kom fram að þetta mál er fjarri því að vera illa kynnt. Það er alveg laukrétt sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði og vísaði til reynslu sinnar sem félmrh. að þetta mál á sér langa forsögu, reyndar áratuga gamla, en það byggir á skýrslunni frá því í apríl, þar sem lögð var mikil vinna í þessa verkaskiptingu eftir 25 ára umræður og kynningu þar sem það eru sveitarstjórnarmennirnir sem fyrst og fremst sækja á um breytinguna. Eftir 25 ára umræður koma loksins niðurstöður. Þetta er ein besta vinna sem unnin hefur verið í stjórnkerfinu. Tillögurnar voru þess eðlis að um þær var fullkomin sátt og samstaða. Þessar tillögur eru bæði að því er varðar verkaskiptinguna sjálfa og hinar fjárhagslegu breytingar samstöðumál, byggðastefnumál, réttlætismál, krafa um breytingu af hálfu þeirra aðila sem í sveitarstjórnum sitja og næst standa sínu fólki. Það er reginmisskilningur að þurft hafi að eyða mörgum árum í frekari kynningu. Hver einasti sveitarstjórnarmaður á landinu með einhverja reynslu þekkir þetta mál í þaula. Þess vegna eru það látalæti þegar jafnágætur og reyndur sveitarstjórnarmaður og hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson lætur sem svo að það sé eitthvert írafár á ferðinni eða að menn séu með flas við það að koma þessu máli fram. Það var vissulega kominn tími til að breyta orðum í athöfn. Og ég rifja upp að á þessum fundi, samráðsfundi sveitarfélaga og ríkisvalds, var niðurstaðan sú að t.d. formaður Sambands ísl. sveitarfélaga lýsti því yfir að hann hefði ekki í annan tíma haft ánægjulegri samráðsfund en eftir viðræður um þetta mál. (Gripið fram í: Hver er það?) Hann er bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Menn lýstu því yfir að þeir óskuðu eftir því að nefndarstarfi sem lýtur að framkvæmdaatriðum málsins, um Jöfnunarsjóð og sérdeildina, verði hraðað en lýstu yfir ótvíræðum vilja sínum til að standa að framkvæmd þessa.

Þeir menn, sem eru að gera þetta mál tortryggilegt, eru þess vegna ekki að vinna í þágu sveitarstjórnarmanna og ekki í þágu byggðastefnu, þeir eru bara að slá pólitískar keilur. En það er slæmt því að málið er of gott til þess að gjalda þess konar málflutnings.

Það er búið að fara rækilega í efnisatriði þessa máls. Og rétt er það að öllum spurningum hefur ekki verið svarað. Hvers vegna ekki? Það er vegna þess að það á ekki að svara þeim fyrir fram fyrr en að loknu samráði við sveitarfélögin. Hins vegar er alveg ljóst að þetta byggist á þessu: Kostnaðarauki sveitarfélaganna er um 200 millj. kr. Sveitarfélögin fá í þessum fyrsta áfanga afnumda skerðingu á framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem samsvarar um 250 millj. kr. og 100 millj. kr. þar að auki. Því næst stendur opið og er í umræðu og könnun hvort sérdeild sem stofnuð verði við Jöfnunarsjóðinn þurfi á að halda meira fjármagni, en hún á að taka við því hlutverki sem nú hefur verið á vettvangi Alþingis og fjvn., og reyndar einstakra sjóða, að greiða eftirstöðvar, uppgjör á sameiginlegum framkvæmdum. Það er alrangt að láta sér detta í hug að það uppgjör verði greitt á einu ári. Það hefur aldrei gerst. Sveitarstjórnarmenn vita nákvæmlega að krafan um mótframlag vegna einhverra framkvæmda, sem sveitarfélagið er orðið á undan í, verður ekki greitt upp á einu ári. Menn voru prýðilega ásáttir við það ef við gætum mótað reglur um það að þessi endurgreiðsla gerðist á tveimur til þremur árum, jafnvel tveimur til fjórum, prýðilega ásáttir við það. En málið er svolítið flóknara. Næsti áfangi varðar nefnilega miklu stærri og þýðingarmeiri mál, sérstaklega t.d. heilbrigðismálin og skólamálin. Þar verður eignatilfærslan flóknari. Og það er ekki hægt að ljúka þessu uppgjöri í heild sinni fyrr en niðurstöður liggja fyrir. Þess var óskað að sú nefnd, sem fjallar um áfanga tvö, hraðaði störfum. Auðvitað væri mjög æskilegt ef niðurstöður gætu legið fyrir fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga, þó er það ekki endilega nauðsynlegt. Það sem þarf að liggja fyrir er skýrar reglur um sérdeildina að því er varðar fyrri áfanga, fyrra árið. Það þarf að liggja fyrir fyrir lok fjárlagaafgreiðslu. Og það þarf að liggja fyrir í stórum dráttum nýtt frv. um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Því er einnig þannig farið að þegar fyrir liggur að breyta bæði söluskattslögum og tolltaxtalögum og stefnt er að upptöku virðisaukaskatts árið 19881989, þá geta ný lög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga ekki staðið nema eitt ár. Þegar liggur fyrir að það á að afnema skerðinguna að helmingi þegar á næsta ári, 250 millj. kr., þannig að löggjöf um framtíð Jöfnunarsjóðsins verður að koma aftur til endurskoðunar að loknu þessu ári.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar. Þessi mál eru rædd í þaula við sveitarstjórnarmenn. Þau hafa sennilega verið kynnt betur en nokkurt sambærilegt mál. Aftur með vísan til þess sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði: Skýrslan, greinargerðin, var send hverjum einasta sveitarstjórnarmanni. Það er ekkert um þetta mál að segja annað en það að auðvitað er hægt að spilla góðu máli með því að ala á tortryggni, með því að gera það tortryggilegt, með því að ala á hræðslu, með því að ala á óvild og illvilja, gera þetta að pólitísku keiluspili. En um leið er það ákaflega illt verk því að fyrir því liggur djúpstæð sannfæring hjá flestöllum sveitarstjórnarmönnum og landsbyggðarmönnum eftir 20 eða 30 ára baráttu að þetta er hið þarfasta mál.

Það er að æra óstöðugan að svara spurningum eins og þessari: „Eru þær tölur sem við blasa í fjárlagafrv. einhver sérstök árás á íþróttahreyfinguna á Íslandi?" Staðreyndir málsins eru þessar: Fyrir atbeina Alþingis — og það er enginn að þakka sér það sérstaklega — fékk íþróttahreyfingin tekjuöflunartæki í hendurnar sem mun skila því margfaldlega þeirri upphæð sem íþróttahreyfingin gat átt von á að fá á fjárlögum. Ég nefndi tölurnar 220 eða 250 millj. kr., hvað sem það var, áætlað á árinu 1988, og í hlut íþróttahreyfingarinnar kemur upphæð sem trúlega er einhvers staðar á bilinu 100-120 millj. M.ö.o.: Peningarnir sem hún hefur til ráðstöfunar eru mun meiri en þeir voru í fyrra og meiri en þeir voru nokkurn tímann. Mun meiri. Þá geta menn sagt: „Já, en útgjöld íþróttahreyfingarinnar eru mikil, þau voru 500 millj. kr. í hittiðfyrra, 700 millj. kr. í ár, og verða kannski 900 millj. kr. næsta ár.“ Já, útgjöld hennar eru mikil. 10 millj. í þessu efni skipta engu til eða frá. Engu. (Gripið fram í.) Það er ekki kjarni málsins. Alls ekki. Það breytir engu. Því að staðreyndin er sú að það er verið að gera betur við íþróttahreyfinguna í fjárhagslegu tilliti en áður var gert. Það er ekki umkvörtunarefnið. Menn geta hins vegar sagt: Íþróttahreyfingin, sem vinnur mikið og fórnfúst starf þar sem eru margar sjálfboðahendur á lofti við að vinna þarft starf, hún á skilið miklu meiri stuðning. Hver getur ekki út af fyrir sig tekið undir þau orð? En það sem við erum að ræða hér um í fjárlögum réttlætir ekki þetta upphlaup og þessi látalæti. Hvernig mundu þessir hv. menn standa ef þeir lentu einhvern tímann í öðrum stórræðum sem reyndu meira á en þetta?

Auðvitað er ekkert verið að hætta byggingu og rekstri félagsheimila, auðvitað er ekkert verið að hætta stuðningi við íþróttamannvirki á vegum félaga. Auðvitað er ekkert verið að leggja niður tónlistarskóla. Hvað er verið að segja? Það er verið að segja að sérdeild við Jöfnunarsjóðinn muni gegna því hlutverki sem þessir sérstöku sjóðir gegndu áður í uppgjörinu, samkvæmt reglum sem verða settar í samráði við sveitarfélagamenn, samkvæmt samstarfssáttmála við þá.

Tónlistarskóli? Það vill nú svo til að í byggðarlaginu sem ég minntist á áðan er kannski ja, ekkert kannski með það, alveg tvímælalaust frægasti tónlistarskóli í nokkru byggðarlagi á Íslandi af því að hann hefur vakið alþjóðarathygli vegna starfs þess fólks sem þar hefur unnið. Úr þeim skóla hefur útskrifast fjöldinn allur af ágætu tónlistarfólki og skólinn hefur skilið eftir sig djúp spor í þessum fæðingarbæ mínum. Það gerði hann fyrir frumkvæði þessara einstaklinga og þessa ágæta fólks áður en nokkur lög voru til um tónlistarskóla og áður en ríkið kom þar til aðstoðar. Það mun hann að sjálfsögðu gera enn.

Ég vara við því að segja sem svo: Ef verkefni eru flutt frá ríkinu heim í hérað, stutt þeim rökum að sum verkefni eru bara ósköp einfaldlega þess eðlis að það fer að öllu leyti betur á því að þau séu á vettvangi sveitarstjórna, þá er — eins og ég þóttist heyra á mæli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, umræða hennar um byggðastefnu og byggðir landsins, jú, gott og blessað, við erum ein þjóð vonandi í einu landi. En það var eins og um leið og nefnd eru minni sveitarfélög úti á landi að þar geti bara ekkert gott þrifist. Þar geti ekkert gott dafnað. Það geti bara gerst hér. (GHelg: Ekki sagði ég nú það.) Það er nefnilega sá undirtónn að það að færa verkefni yfir til sveitarfélaga sé sama sem að leggja þau af. Það sé enginn skilningur hjá fólki í hinum dreifðu byggðum á gildi tónlistarmenntunar. Hann er svo mikill hérna. Hann er svo ofsalega mikill hérna. Sagan afsannar þetta. Það vill svo til að í mörgum litlum byggðarlögum úti á landi hafa risið á legg ágætir skólar. Sumir með þeim bestu og fremstu í sinni röð. Ekkert síður en hér. Hvernig verður tónlistarskóli í litlu byggðarlagi til? Hann verður til fyrir það að það eru einhverjir í þessu byggðarlagi sem hafa einhvern skilning og einhverja hugsjón og einhvern vilja til þess að byggja upp slíkan skóla — og gera það. (Gripið fram í: Ókeypis?) Nei, þeir gera það ekkert ókeypis. (Gripið fram í.) En um leið og ríkið sem slíkt breytir þessum reglum, og verður reyndar við óskum um að færa þessi verkefni, þá er það ekki það sama og að öll tónlistarfræðsla sé lögð af fyrir vikið.

Það var vikið hér nokkrum orðum að þjóðarbókhlöðu og var svolítið þungt í sveitunga mínum, hv. 4. þm. Austurl., Sverri Hermannssyni, sem nú er horfinn á braut. Það vill svo til að ég er hér með í höndunum bréf frá 20. nóv. 1986 sem gekk milli þeirra ráðherranna og fóstbræðranna, þáverandi menntmrh. og fjmrh. Bréfið er stílað á menntmrn. og það er frá fjmrh., undirritað af ráðherra.

„Það staðfestist hér með að ráðuneytið samþykkir að byggingarsjóður þjóðarbókhlöðu hafi ávísanareikning í Seðlabanka Íslands.“ — Já, já. Hann má hafa það. — „Jafnframt samþykkir ráðuneytið að næstu 12 mánuði frá dagsetningu bréfs þessa er sjóðnum heimilt að skulda allt að 11,5 millj. kr. á ávísanareikningi þessum.“ — Já, já. — „Ráðuneytið mun sjá til þess að innborganir á ávísanareikninginn verði í samræmi við framkvæmdarhraða við bygginguna. Þó verða heildargreiðslur aldrei hærri en markaður tekjustofn sjóðsins gefur tilefni til.“

Þetta var samkomulag á milli tveggja ráðherra í einni og sömu ríkisstjórn.

Í grg. með fjárlagafrv. 1987 stendur svo, með leyfi forseta, um þjóðarbókhlöðu:

„Samkvæmt lögum nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, skal á árunum 1987–89 lagður á sérstakur eignarskattur [eignarskattsauki er þetta nú] er renni óskiptur til byggingar þjóðarbókhlöðu. Áætlað er að innheimta af álagningu ársins 1987 nemi 95 millj. kr.“ — Síðan segir: „Þrátt fyrir áætlaðar tekjur þá er áformað að verja eigi hærri fjárhæð en 45 millj. kr. til framkvæmda á árinu 1987 og eru framlög úr ríkissjóði miðuð við það.“

Þetta stendur í grg. með fjárlagafrv. ríkisstjórnar Sverris Hermannssonar og Þorsteins Pálssonar hæstv. ráðherra, núverandi og fyrrverandi. Þetta stóð í fjárlagafrv. í fyrra. Af hverju reiddust ekki goðin þá? (GHelg: Goðin reiddust.) Goðin reiddust ekki ýkja mikið. Þá var nefnilega gert samkomulag. Samkomulagið var gert við hæstv. fyrrv. menntmrh. um að þrátt fyrir tekjurnar af eignarskattsaukanum skyldi þeim ekki öllum varið á því ári til byggingarframkvæmda, hv. þm. rifjaði m.a.s. upp rökin, þensla í byggingarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Kannski var fjárveitingunum ekki einu sinni komið í lóg, byggingarhraðinn var ekki meiri. Það eina sem ég hef um þetta að segja er þetta: Það er nákvæmlega sami háttur hafður á og samkomulag var um í fyrra við hæstv. fyrrv. ráðherra, Sverri Hermannsson. Nákvæmlega sá sami. Mikið meira er ekki um það að segja.

Að því er varðar núverandi ríkisstjórn þá er þetta ákvörðun sem var tekin, og fyrir liggur í fjárlagafrv., af ríkisstjórninni. Fjárlagafrv. er nefnilega stjórnarfrv. og að þessu stjórnarfrv. stendur m.a. hæstv. núverandi menntmrh. Og rökin fyrir þessu voru m.a. þessi: Það er gífurlega mikil þensla og spenna í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu. Mjög mikil. Þess vegna var tekin um það ákvörðun að hafa sama hátt á. Þjóðarbókhlaðan mun vissulega rísa. Til hennar er varið 50 millj. Ég skal ekkert fullyrða um það hér og nú hvort hún hefur þörf fyrir meira fé í sínum byggingaráformum nú. Sitt sýnist hverjum um forgangsröð þeirra verkefna. Þágufallssíkið er nú ekki allra augnayndi. Látum vera. Þetta er markaður tekjustofn. Það er enginn að vefengja að þær tekjur renna til þjóðarbókhlöðunnar. Enginn. Þeir eiga rétt á þessu fé. Og með það verður farið eins og aðra markaða tekjustofna, þ.e. þeir fá aldrei meira en sem svarar þessum tekjustofni og það verður farið með greiðslur eftir byggingarhraða. Um það er ekki meira að segja.

Íslendingar voru í 1000 ár, var það ekki, húsnæðisleysingjar með sín handrit, þjóðlífið ferst ekki nú þegar þjóðarbókhlaðan er komin vel á veg, og rifjum upp hverjir studdu hæstv. fyrrv. menntmrh. dyggilega í að fá samþykktar grundvallarreglurnar um eignarskattsauka til þarflegra hluta. Þessum byggingarframkvæmdum verður haldið áfram með skikkanlegum hraða og þjóðarbókhlaðan mun rísa. Við skulum vona að hún verði okkur öllum til sóma þegar lýkur. Það er engin ástæða til sérstakra geðshræringa út af þessu máli.

Örfá mál önnur. Það var rætt um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það gerði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Og hann hældi fjmrh. fyrir tvennt. Það var elskulegt af honum. Ef hann hefði verið hér ögn lengur í ræðustólnum þá hefði hann sennilega gert það í þriðja sinn ef hann hefði ekki gleymt að tala um sérkennslumálin, en fjárveitingar til þeirra eru auknar um fjörutíu og eitthvað milljónir. Það var nefnilega mál sem var mikið til umræðu hér á hinu háa Alþingi á sl. vetri og hitnaði ögn í kolunum, m.a. milli hv. þm. og hv. þm. Sverris Hermannssonar, fyrrv. hæstv. menntmrh.

Um Lánasjóð ísl. námsmanna. Já, það er rétt að ég beitti mér fyrir því að auka fjárveitingar til þessa sjóðs um hátt á sjötta hundrað milljóna af framlögum skattgreiðenda og stóð þar með við það sem ég hef sagt og áunnið mér til mikilla óvinsælda, en ég hef sagt: Það eru fjárglæfrar að fjármagna þennan sjóð með lánum. Það kemur ekki til nokkurra mála að ætla að fjármagna hann með erlendum lánum, a.m.k. ekki umfram það sem hann greiðir nú þegar af syndum fortíðarinnar, sem er ærið. Inn í þennan sjóð kemur lítið fé í endurgreiðslum frá námsmönnum. Sáralítið. (Gripið fram í: Enn þá.) Sáralítið, já, og verður sáralítið á næstu árum. Endurgreiðslukjörin eru reyndar þau að það er ekki bara að þessi lán séu vaxtalaus, endurgreiðslurnar eru stórlega skertar og munu verða það.

Fyrsta skrefið var náttúrlega það að koma þessum sjóði á fjárhagslega traustan grundvöll. Ég hef haldið því fram, og er eindregið þeirrar skoðunar, að það verði að linna einhvern tímann þessu eilífa hringli með lánsréttinn. Því verður einhvern tímann að linna. Eina leiðin til þess að gera það er að treysta fjárhagsgrundvöll sjóðsins og láta Alþingi, umboðsmenn almennings og skattgreiðenda, standa frammi fyrir því: Eruð þið reiðubúnir til þess að borga 2 milljarða næsta ár eða 21/2 af skattpeningum almennings í þennan sjóð, án þess m.a.s. að gera kröfu um að þetta fé verði endurgreitt nokkurn tímann nema að litlum hluta?

Ég er þeirrar skoðunar að þær kröfur eigi að gera til námsmanna að þegar þeir ljúka sínu námi og taka til starfa í þjóðfélaginu eins og annað vinnandi fólk þá eigi að gera til þeirra a.m.k. sömu kröfur og gert er til verkamanna sem eru að kaupa sér íbúð í verkamannabústöðum. Þeir eigi að endurgreiða þetta fé með a.m.k. lægstu félagslegum vöxtum vegna þess að þetta er styrkur, námsaðstoð, fyrst og fremst tengd ákveðnu aldursskeiði. Við erum að færa til tekjur til fólks sem er ungt að afla sér menntunar og er ekki orðið aðilar að vinnumarkaðinum en þegar það hefur notið sinnar menntunar og er komið til starfa þá á það að endurgreiða þessi lán. Það getur gert kröfur til okkar um það að við leggjum þessum sjóði til nægilegt fjármagn til þess að eigin fjárhagur hans byggist upp, en hann mun ekki byggjast upp nema endurgreiðslurnar verði einhvern tímann einhverjar inn í þennan sjóð. (KH: Hvað eru félagslegir vextir?) Það er t.d. hjá íbúðakaupendum til verkamannabústaða, 1%. Og af því að það er verið að spyrja um reglur, þær eru ekki á verksviði míns ráðuneytis, það er verið að spyrja um lagaforsendur og lagabrot. Í 3. gr. laganna um Lánasjóðinn segir að opinber aðstoð við námsmenn samkvæmt lögum skuli nægja hverjum námsmanni til að standa straum af eðlilegum náms- og framfærslukostnaði þegar eðlilegt tillit hefur verið tekið til fjölskyldustærðar, framfærslukostnaðar þar sem nám er stundað o.s.frv. — Ef þetta er í lögum þá er þetta bull. Hvers konar lagatexti er þetta þegar tvítekið er þegar „eðlilegt“ tillit hefur verið tekið til, „eðlileg“ framfærsla? Hvað er þetta? Hver á að framfylgja svona lögum? Námsmenn reyna að sjá sér farborða annars vegar með því að vinna á sumrin og afla tekna, og hins vegar með því að þeir fá niðurgreidd lán meðan þeir stunda námið. Það er ekki til nein formúla fyrir því sem heitir „eðlileg framfærsla að teknu eðlilegu tilliti til einhvers“. Það býr enginn býrókrati til þá formúlu, enda er það út í hött.

Námsaðstoðin hefur sem betur fer, þrátt fyrir skerðingar, verið heldur rýmri hér en í flestum öðrum þjóðfélögum í kringum okkur. Við þurfum að halda í það einkenni íslensks þjóðfélags að menntamenn telji það sjálfsagðan hlut að vinna fyrir sér á sumrum. Meðan það ástand er í íslensku þjóðfélagi og við getum viðhaldið því að það verði áfram, þá er það gott — mjög gott. Við eigum ekki að búa hér til forréttindastétt menntamanna sem venst af því að afla tekna á sumrum og er síðan vanin af því að endurgreiða lán sín. M.ö.o.: Ekkert dekur — en réttlæti.

Húsnæðismálin. Í máli hv. 7. þm. Norðurl. e. Málmfríðar Sigurðardóttur kom fram nokkur viðurkenning á því að það væri jú verið að verja auknum peningum til húsnæðismálanna. Það var ekki svo skýrt að orði kveðið í máli hv. þm. Ásmundar Stefánssonar um það mál. Við skulum hafa það á hreinu hver breytingin er að því er varðar fjármögnunina. Það er rétt að framlag til Byggingarsjóðs ríkisins hækkar ekki mikið og hækkar ekki að raungildi, úr milljarði í 1100 milljónir. En ríkisframlögin í sjóðina báða hækka um 500 millj., 34%. Framlag í Byggingarsjóð verkamanna er tvöfaldað. En þetta er samt sem áður ekki það sem skiptir meginmáli. Við búum hér við löggjöf sem kveður á um skyldu lífeyrissjóða til þess að leggja fé inn í þessa sjóði. Það sem skiptir auðvitað sköpum er það að útlánageta Byggingarsjóðs ríkisins vex milli áranna úr 4355 millj. í rúma 6 milljarða eða um 38%. Útlánageta Byggingarsjóðs verkamanna eykst úr 1175 millj. í 2340 millj. Hækkun samtals á ráðstöfunarfé byggingarsjóðanna beggja milli ára er úr 5530 millj. í 8341 millj. Hækkunin ein nemur 2800 millj. kr. Það er yfir 50% hækkun. Þetta er gífurlegt fjármagn og þetta er mikil aukning. Og þetta er skýr stefna um að það er verið að leggja stóraukna áherslu á félagslegar íbúðarbyggingar. M.a. til þess að gera það kleift að byrja framkvæmdir samkvæmt væntanlegum lögum um nýtt kaupleiguíbúðarkerfi.

Ég minnist þess ekki að það hafi verið gerðar svo geysilegar breytingar milli ára í húsnæðismálum eins og hér er lýst en ég leyni því heldur ekkert að ég hef ákaflega litla trú á því að þetta kerfi húsnæðisfjármögnunar sem við búum við fái staðist til lengdar. Ég hef ekki trú á því. En svo sjálfsagt sem það er að gera nú þær breytingar að því er varðar útlánareglur að reyna að sjá til þess að þetta fé nýtist fremur þeim sem mesta hafa þörfina — og mig furðar á því yfirleitt að það skuli vera umdeilanlegt, auðvitað geta menn haft efasemdir um skömmtunarskrifstofur en menn eru væntanlega allir á einu máli um það að þetta sé nauðsynlegt að gera.

Útgáfa lánsloforða með sjálfvirkum hætti til allra sem á annað borð hafa greitt tvö ár í lífeyrissjóð einhvers staðar, það er gjaldþrotastefna fyrir fram. Það er að búa til eftirspurn eftir lánsfé á niðurgreiddum vöxtum sem er gjörsamlega ótakmörkuð. Og af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði t.d. svolítið um vaxtamál, sem er auðvitað eitt af þeim málum sem við ættum gjarnan í þessari stofnun að ræða af meiri alvöru en verið hefur lengi, hvað mundi gerast í vaxtamálum ef allt hið mikla fé lífeyrissjóðanna væri allt í einu til frjálsrar ráðstöfunar á lánamarkaði, hvort heldur væri í bankakerfinu eða annars staðar, ef allt þetta gífurlega fjármagn, sem er meginið af skyldusparnaði þjóðarinnar, ef það væri falt á markaðnum, er ekki mjög líklegt að það mundi leiða til lækkunar vaxta? Og ég spyr að gefnu tilefni. Hv. þm. sagði: Ég skammast mín ekkert fyrir að segja sem svo að ég vil pólitíska íhlutun, ég vil lög og reglur um þetta, ég vil niður með vextina með handafli nánast — eins og við höfum reynslu á, það var gamla leiðin sem leiddi til þess að sparifé þjóðarinnar þvarr. Við erum eflaust ósammála um þetta vegna þess að við alþýðuflokksmenn börðust fyrir því á annan áratug að fá verðtryggingu á sparifé til þess að ráða bót á því. (Gripið fram í: Það er allt annar hlutur.) Það er annar hlutur, já, en sýnir samt sem áður hvað pólitískar ákvarðanir í höndunum á stjórnmálamönnum, sem eru heldur ístöðulitlir oft á tíðum, geta þýtt. Í gamla daga var þetta eitt og sama pólitíska kerfið, sem það er að sumu leyti enn, pólitískt kerfi og bankakerfi og vöxtum var haldið af ásettu ráði niðri sem stefnu til þess að færa til fjármagn í þjóðfélaginu. Ekki dugir það.

Ég hef ekki trú á handaflinu í þessum málum. Ég hef þá trú að við eigum að reyna að fara leið nútímalegra stjórnunarhátta, reyna að stjórna, stýra markaði — já, það er ekkert til sem heitir frjáls markaður, ekki til og hefur aldrei verið til. Það á að stýra markaði og það á að vera hlutverk ríkisvaldsins að gera það að ákveðnum markmiðum. Og hvað getur ríkisvaldið gert til þess að lækka vexti? T.d. þetta: Ef aukið framboð sparifjár kemur á markaðinn þá ættu vextir að lækka. Fyrst og síðast það að hætta að fjármagna ríkissjóð og sinn rekstur með halla og draga þannig úr umsvifum ríkissjóðs á lánamarkaði, skilja eftir aukið svigrúm fyrir atvinnulíf, fyrirtæki og fólk. Það er ein leiðin. Þriðja leiðin er svo að sjálfsögðu sú að taka um það pólitíska ákvörðun að þegar ríkið telur sér nauðsynlegt að hreinsa til í sínum fjármálum eða að afla tekna fyrir samneyslu af því við erum að byggja fleiri skóla eða betri heilsugæslu, m.ö.o. að bæta lífskjörin með óbeinum hætti — af hverju á aukin tekjuöflun í þessu skyni að leiða til hækkunar á gjaldabyrði húsnæðisskuldara? Af hverju eiga skattar með sjálfkrafa hætti, sumir þeirra, ekki allir, að leiða til hækkunar á vísitölu? Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki heil brú í því og því eigi að breyta. En það á þá að breyta því með því að gera það að almennri reglu.

Herra forseti. Það er svo sem af mörgu að taka. Ég er búinn að ræða um hafnamál. Það er enginn ágreiningur um það að hafnirnar eru lífæð þessarar þjóðar. Spurningin er þessi: Eru menn reiðubúnir til þess í umfjöllun þingsins að veita eitthvað, eftir því sem svigrúmið er, meiri peningum til hafnamála gegn því að menn ætli sér þá að standast þá freistingu að spreða peningum í allar áttir? Eru menn reiðubúnir til þess að mæta aukningu á framlögum til hafnamála með því að lækka útgjöld einhvers staðar annars staðar? Ef menn eru sammála markmiðinu um jöfnuð í ríkisfjármálum þá verðum við að tala í alvöru um það að við ætlum ekki að hlaupa eftir öllum dyntum, öllum óskum, ekki að hlaupa til og taka undir allt sem allir eru að segja. Við verðum að velja. Það er pólitík að setja hlutina í forgangsröð, eins og þær segja vinkonur vorar. Það er rétt. Það er pólitík. Guð láti gott á vita að það reynist unnt.

Iðnráðgjafar. Já, það er skelfilegt mál að leggja af nokkra iðnráðgjafa. Það skiptir ekki máli hvaða skoðun ég hef á því út af fyrir sig. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi verið óttalega mislukkað kerfi og litlum árangri skilað, þó er það nokkuð persónubundið. Það segir nú ekki mikið um það þegar einhverjum mönnum er sagt upp hérna á almennum vinnumarkaði en það er alltaf voðalega mikið mál ef einhverjum opinberum starfsmanni í merkilegu og vernduðu umhverfi er sagt upp.

Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að hafa þessa tilhögun öðruvísi. Hvers vegna er það ekki sjálfsagður hlutur að leita meira til iðnaðarins eða til byggðarlaga og samtaka, sem hafa trú á þessu fyrirtæki, um það að þau leggi eitthvað til þessarar starfsemi? Af hverju á að breyta öllu í einhverjar „ríkisfúnksjónir“? Ég þekki suma iðnráðgjafa sem aldrei hafa séð glaðan dag vegna þess að þeir fundu aldrei nein verkefni og þeir voru að eigra um einhvers staðar í einangrun í viðkomandi byggðarlagi, sáu aldrei til sólar, þekktu ekki neinn, vissu ekki neitt og gerðu ekki neitt!

Það hafa verið slegnar pólitískar keilur út af hækkunum á rekstrarkostnaði ráðuneyta. Ég ætla aðeins að árétta þar nokkrar staðreyndir. Tilefnið er að það birtist blaðagrein þar sem samanburðurinn er gerður um hækkunina annars vegar á fjárlagafrv., frumvarpstölunum frá því í desember 1987, og svo á fjárlagafrv. 1988 og þær tölur eru auðvitað gríðarlega háar, enda slitnar úr öllu samhengi við samanburðinn sem er í öllu frv. milli endurskoðaðra áætlana í september um raunveruleg útgjöld 1987 og 1988. Þegar réttur samanburður er gerður kemur á daginn að hækkunin að því er varðar laun og rekstrarkostnað, það er það sem við erum að tala um, í þessum blessuðum ráðuneytum er að meðaltali 33%. Og ef litið væri á það ráðuneyti sem ég á að heita að vera í forsvari fyrir nú þýðir það, þegar þessi samanburður er gerður milli endurskoðaðrar áætlunar í september og áætlunartölunnar 1988, lækkun um 9%. Þá verður líka að taka tillit til þess að inni í fjmrn. — svo að ég taki dæmi, það eru nefnilega til skýringar á ýmsu af þessu — er launadeildin og menn geta hækkað þetta upp ef þeir taka launadeild fjmrn. sem er þjónustustofnun fyrir allt stjórnarráðið og reyndar allt ríkisbáknið á Íslandi og heyrir ekki í reynd undir launakostnað fjmrn. Annað: Einhver hæsta talan sem nefnd var var um sjútvrn. En þegar maður skoðar þá tölu kemur á daginn að þar er verið að blanda saman stofnkostnaði við innréttingu á nýju húsnæði fyrir sjútvrn. í gamla útvarpshúsinu þannig að í reynd er aukningin í sjútvrn. 17%. Og ég vil láta það koma skýrt fram vegna þess að ég get staðfest það að húsbóndinn í sjútvrn. er kannski einhver ráðdeildarsamasti maðurinn í þessu kompaníi. Ég segi ekki meira um þetta annað en það að ég tek mönnum vara við því að hlaupa eftir slíkum tölum. Skoðið þið skýringarnar að því er varðar hvert einstakt ráðuneyti eins og t.d. þessi tvö sem ég hef nefnt.

Ég gæti nefnt annað dæmi sem er rétt að koma til skila hérna. Við vorum að ræða um skattamálin og það er vissulega mikið sem þessi ríkisstjórn er að færast í fang við breytingar á skattalögum og öll þjóðin á mikið í húfi að þar takist sæmilega til og verkið verði sæmilega vandað. Í skattsvikaskýrslunni sem lögð var fram hér á Alþingi 1986 er það tekið sem dæmi um fáránleikann í íslensku stjórnkerfi að við tekjusvið fjmrn., sem á að valda þessari endurskoðun og verkstýra henni, starfa tveir menn, og allt í allt, við þetta mikla yfirráðuneyti sem er með öll hin ráðuneytin á herðunum, 17 hausar. Menn beri það saman við aðrar viðamiklar stofnanir í þessu þjóðfélagi, menn beri það saman við Seðlabankann, menn beri það saman við ýmis viðamikil einkafyrirtæki, t.d. á verðbréfamarkaðinum, menn beri það saman við Fjárfestingarfélagið. Yfirleitt býð ég mönnum upp á að gera samanburð við hvaða stofnun sem er, innanlands og utan, og fara ofan í saumana á því hvort hér sé haldið á málum af bruðli, hvort heldur varðar starfsmannahald, launakjör eða eitthvað annað.

Ég held ég fari að stytta þetta mál mitt. Ég held ég hafi engu sérstöku við að bæta um landbúnaðarmál í tilefni af ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar. Við erum áreiðanlega ekki eins mikið ósammála eins og hv. þm. heldur stundum. Kjarni málsins er sá að þessi lækkun á stoðdeildum landbúnaðarins styðst við mjög veigamikil rök og hún er lítilfjörleg. Helmingurinn af þessu er að hætta styrkgreiðslum til Áburðarverksmiðju ríkisins, verksmiðju sem þjóðin fékk gefins og framleiðir sínar vörur úr loftinu og hefur síðan tekist að halda þannig á málum að hún þarf 100 og 200 millj. kr. styrki af almannafé. Það er náttúrlega algjörlega út í hött. Þetta eru sjálfsagðar hreinsunaraðgerðir en þær eru svo litlar að því miður ætti heldur að biðjast velvirðingar á því hvað þetta er smátt. Auðvitað ætti að gera mun meira.

Þróunaraðstoð, það var eitt. Ég ætla að segja örfá orð um hana. Tvískinnungshátturinn og hræsnin í hv. Alþingi ríður ekki við einteyming í því máli. Já, menn gera ályktun. 1700 millj. skulu það vera og a.m.k. einn hv. þm., Steingrímur Sigfússon, sagði: Ja, ég er einn af þeim sem vilja bara gera þetta. Gjarnan hefði ég viljað heyra meira frá hv. þm. af hvaða útgjaldaliðum fjárlaga hann hefði viljað taka þetta eða hvort hann vill leggja það fyrir þjóðina í skattaálögum, kannski með loforði um að hún fái skrautritað skjal eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson reyndar lofaði í tilefni af þjóðarbókhlöðuskattinum. Auðvitað er þetta ekki upp í nös á ketti. Með því einmitt að vera ekkert að fikta við þessa tölu — hérna er hún, 20 millj. — sjá menn framan í það hvers konar hræsni þetta er. Nú finnst mér að hv. Alþingi Íslendinga geti bara tekið sig til og spurt sjálft sig: Meinar það eitthvað með því sem það er að samþykkja? Eru menn þá reiðubúnir til þess að segja að Alþingi Íslendinga verji það ekki lengur fyrir samvisku sinni að fótumtroða sjálft sínar eigin samþykktir? Hefur það einhverja stefnu í þessu máli? Hafa stofnanir og íslensk stjórnvöld mótað einhverja stefnu í þróunaraðstoð? Menn geta væntanlega gert sér í hugarlund að það er ekki mjög einfalt mál. Það er ekki bara að kaupa eitthvert skip og senda meira og minna blindandi til Grænhöfðaeyja. Grænhöfðaeyjar njóta m.a. efnahagsaðstoðar frá 68 þjóðum, það er rétt að taka það fram, og er ekki sýnt enn að ástandið hjá þeim hafi batnað mikið við þessa aðstoð.

Mér finnst að menn ættu bara að horfast í augu við sjálfa sig og spyrja: Hvað vilja menn gera? Hverju vilja menn til fórna? Ég hef hlustað á það sem fjmrh. í þessu dvergríki að menn andmæla sköttum, tala um skattafár, skattaplagerí, og síðan hef ég hlustað á eitthvað um 30, 40, 50, 60 tillögur um aukin útgjöld og enginn af tillögumönnum flutti tillögur um tekjuöflun og enga tillögu heyrði ég um niðurskurð, ekki eina einustu. Ég verð að viðurkenna að þessi frammistaða stjórnarandstæðinga veldur mér vonbrigðum. Ég rifja upp að á þeirri tíð þegar við vorum í stjórnarandstöðu fluttum við seinast við fjárlagaafgreiðslu 1986 hundrað og eitthvað tillögur, þar af 76 við fjárlög og hitt við lánsfjárlög, tillögur sem gáfu til kynna, í stórum dráttum, þessa stefnu okkar í ríkisfjármálum, m.a. lækkun útgjalda í stórum stíl og skattaálögur. Blaðamenn kölluðu þetta önnur fjárlög, en við reyndum a.m.k. að vinna heimavinnuna okkar og ekki bara láta okkur nægja að slá okkur svolítið til riddara með því að nefna vinsæl mál og segja: Meiri peninga, meiri peninga. Við lögðum fram tillögur um annars konar fjármálastefnu. Og ég hefði kannski vænst þess að hagsýnar húsmæður og annað gott fólk gerði það. (GHelg: Ætli við gerum það ekki við 2. umr., hæstv. ráðherra?) Ég var að ávarpa hagsýnar húsmæður, hv. þm.