14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6469 í B-deild Alþingistíðinda. (4458)

20. mál, kaup og sala fasteigna á vegum ríkisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér hafa spunnist nokkrar umræður um þessa skýrslu í framhaldi af því þingmáli sem við bárum hér fram, þingmenn Alþb., ásamt hv. þm. Málmfríði Sigurðardóttur og í sjálfu sér er ekki miklu við þessa umræðu að bæta. Það er ljóst að það viðurkenna allir að hér er um ákaflega ófullkominn pappír að ræða. Skráning fasteigna, bæði kaupa fasteigna og sölu á fasteignum, virðist vera ófullkomin og óskýr, satt að segja undarlega óskýr, og um það eru allir sammála að úr þessu þurfi að bæta, um það er enginn ágreiningur, og jafnframt er upplýst af hæstv. ráðherra að það sé verið að vinna í lagfæringum á þessu.

Það sem vakti athygli mína og hefur ekki komið hér fram í umræðunni áður er sú staðreynd að verulegur hluti af þessum fasteignakaupum á sér stað með heimildum sem aflað er eftir á. Eins og kunnugt er er það þannig að í 6. gr. fjárlaga eða annars staðar í lögum eru settar inn heimildir iðulega fyrir ráðherra til að ganga frá kaupum á fasteignum og þessi skýrsla nær yfir kaup á 77 fasteignum handa ríkinu á árunum 1983–1987. Ég hljóp yfir það hins vegar í skýrslunni hversu margar af þessum fasteignum eru keyptar samkvæmt heimildum sem aflað er eftir á. Þær reynast vera liðlega 20. Í raun og veru er það þannig að ráðherrar taka ákvörðun um að kaupa þessa fasteign og síðan er aflað heimilda eftir á. Þetta er nokkuð sérkennilegt að upplifa, sérstaklega þegar þess er gætt að við þekkjum það, sem höfum verið hér á þingi um nokkurt skeið, að það er mikil nákvæmni oft við að passa að verðugir aðilar fái heimildir og aðrir ekki þegar verið er að ganga frá fjárlögum á hverjum tíma. En óðara og er búið að ganga frá fjárlögum er engu líkara en að ráðherrar hlaupi út um allar þorpagrundir og gangi frá kaupum á fasteignum og þær eru 20, yfir 20 á þessu árabili. Ég er ekki að segja að hér sé um að ræða neina nýlundu, ég hygg að þetta sé venja eða ósiður sem tíðkast hafi um langt árabil, en það er fróðlegt að sjá það hér á blaði hvernig að þessum hlutum er staðið og vekur auðvitað til umhugsunar um að hve miklu leyti er yfirleitt tekið mikið mark á afgreiðslu fjárlaga yfir höfuð, hvort sem um er að ræða kaup á fasteignum, aukafjárveitingar eða hvað það nú er.

Það er einnig ástæða til að vekja athygli á því að þess eru dæmi í þessu plaggi að ekki hefur enn verið aflað heimildar til kaupa á einni fasteign sem er keypt á árinu 1983. 14. okt. 1983 er gengið frá makaskiptum e.t.v. á jörðinni Kotmúla í Fljótshlíð í Rangárvallasýslu og heimildar fyrir þessum kaupum hefur ekki verið aflað enn hér á Alþingi. Alþingi hefur ekki enn þá samþykkt þetta. Það hefur enginn gert tillögu heldur, að ég held, um að þessi heimild eftir á verði veitt. Samt sem áður er það þannig að ríkið hefur verið skuldbundið með skuldabréfi upp á 1 millj. kr., borgað út 100 þús. kr., eftirstöðvar eru 900 þús. til 15 ára með hæstu lögleyfðum vöxtum. Það hefur aldrei verið leitað eftir heimild fyrir þessu. Ég kannast ekki við að hér sé feimnismál á ferðinni. Ég þekki málið ekki. Ég kann ekki á það. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Hversu má það vera að ekki er gengið lögformlega frá málinu og heimildarinnar aflað? Skammast fjmrn. sín fyrir þennan gerning eða hvað? Ef svo er er eðlilegt að menn séu feimnir við að koma með hann hingað, en eðlilegra væri samt að þeir gerðu það, kæmu með málið fyrir fjvn. og Alþingi með eðlilegum hætti. Ég tók eftir því að hæstv. fjmrh. sagðist ekki hafa grænan grun um til hvers þessi fasteign væri notuð. Ég skora á hæstv. ráðherra að fara með Alþfl. í sumarferð að Kotmúla í Fljótshlíð til að kynna sér til hvers þessi fasteign ríkisins er notuð.