14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6470 í B-deild Alþingistíðinda. (4459)

20. mál, kaup og sala fasteigna á vegum ríkisins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur að jarðaafgjöld væru sérstaklega hagstæð ábúendum sem væru leiguliðar hjá ríkinu og nefndi í því tilefni eitt sérstakt dæmi um í 1 kr. eins og hún orðaði það. Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta skipti sem maður hefur heyrt talað um jarðaafgjöld á ríkisjörðum á hv. Alþingi og það hafa jafnan einkennt þá umræðu dylgjur eins og reyndar kom fram með skýrum hætti hjá hv. ræðumanni.

Sérstaklega hafði ræðumaðurinn á orði hvort ekki væri hægt að ná fram betri árangri í gjaldheimtu af ríkisjörðum og talaði um í því sambandi að það þættu góð kjör í Reykjavík ef það væri hægt að leigja fasteignir, væntanlega þá til að búa í, fyrir 71 kr. Nú er það fyrir það fyrsta að ýmsir leigusamningar og kannski æðimargir eru komnir æðimikið til áranna og í þeim hafa ekki verið ákvæði um verðuppfærslu. Í því felst að sjálfsögðu viss skýring á því að ýmsar leigugerðir eru með þeim hætti að þar er einungis um lágar upphæðir að ræða.

Nú hafa hins vegar verið gerðar þær breytingar á á síðari árum og ég hygg að ég viti það rétt að þeir leigusamningar sem hafa verið gerðir upp á síðkastið taka mið af breytingum sem verða á verðlagi, eru bundnir við þau verðmæti sem ríkisvaldið á á jörðunum og síðan taka þeir breytingum eftir því sem verðlag færist upp.

En það er reyndar ýmislegt meira í þessu máli sem er nauðsynlegt að benda á og í þessari ónákvæmu ræðu hjá hv. þm. kom heldur ekki fram. Það er þá fyrir það fyrsta að á leigujörðunum eiga bændurnir að langsamlega stærstum hluta eignirnar, eiga ræktunina, eiga byggingarnar og eiga að sjálfsögðu aðrar fasteignir sem þar eru þannig að hér er í langsamlega flestum tilvikum um að ræða mikinn minni hluta af þeim verðmætum sem búið er með á þessum stöðum.

Það er líka mál út af fyrir sig að fara yfir það hvaða uppgjörsmáta bændur verða að sæta þegar gert er upp og eignirnar eru færðar á milli leiguliða. Ég hygg að það sé býsna mikið öðruvísi en það sem gerist þar sem markaðsaðstæður eru með öðrum og betri hætti. En svo er rétt líka að nefna til viðbótar við þetta, sem a.m.k. á Alþingi má ekki gleyma þegar verið er að tala um þessi mál, að það er langsamlega minnstur hluti af þessum kostnaði, bæði á ríkisjörðunum og á öðrum jörðum, sem er gjaldfallinn inn í afurðaverðið, langsamlega minnsti hlutinn. Einmitt núna á síðari árum, með hækkandi verðlagi og hækkandi vöxtum, er reyndin sú að þetta hefur dregist saman en ekki aukist í búvöruverðinu. Þegar menn eru að tala um slíka hluti er alveg nauðsynlegt að menn horfi til allra átta í þeim.

Það er svo annað mál að auðvitað er eðlilegt að á þetta sé allt saman litið og eins og ég sagði áðan hafa menn einmitt á síðari árum verið að færa þetta til annars horfs. Verðtrygging er ekkert sérlega gömul í okkar samningum og það er ekki fyrr en á síðari árum sem sá háttur hefur verið tekinn upp í landbúnaði. Það er þá eðlilegt að horfa á það hvernig þessum málum sé skipað nú til dags þegar menn eru með umvöndun í þessum efnum.