04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

1. mál, fjárlög 1988

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði í rauninni ekki ætlað mér að koma hér upp í dag, en orð hæstv. fjmrh. urðu til þess. Hann auglýsti eftir stefnu stjórnarandstöðu í sambandi við tekjuaukningu á móti útgjaldaaukningu sem hefur verið talað um. Það er kannski ekki meginmálið við þessa 1. umr. Við höfum ekki fengið að liggja yfir þessu fjárlagafrv. mjög lengi, en hitt er það að við munum leggja fram okkar tillögur á sínum tíma.

Stóra málið í þessu frv. er það að það er ekki tekið nema á smáu hlutunum. Það eru skorin niður alls konar smá framlög til lista og menningar, til íþróttamála, þjóðarbókhlöðu og annars slíks sem hefði kannski verið öllu skynsamlegra að láta vera áfram í fjárlögum. Ég minni hæstv. fjmrh. á að þegar hann fór að tala um íþróttahreyfinguna er ég hræddur um að hann þekki ekki mikið til þar. Það er þannig að stærsti hlutur þess starfs sem þar fer fram er ekki metið til fjár og ekki talað um þegar talað er um útgjöld hreyfingarinnar. Það sem er lagt til í fjárlögum er innan við 2% af heildarútgjöldum hreyfingarinnar og þá ekki meðtalið allt sem hún hefur lagt fram í sjálfboðavinnu á ýmsum sviðum. Það má fara aftur til 1914 til að finna eitthvað sambærilegt ef ég man rétt. Þetta er meginmálið. Ég er hræddur um að ef hv. þm. hefðu kynnst því að vera uppi í brekku í skíðalöndum helgi eftir helgi, eins og margir vinir mínir hafa gert og ekki tekið krónu fyrir það, bæði í kulda og trekk eins og þar stendur, og vinna þar fyrir unga fólkið í landinu mundi þeim kannski skiljast að það er töluvert mikið starf sem þar er unnið og sáralitlir fjármunir. Ég minni á, fyrst þetta kom á dagskrá, að ýmsir af okkar ágætustu afreksmönnum í íþróttum hafa undanfarin ár þurft að borga fyrir sig sjálfir. Þætti alþm. kannski súrt í broti ef þeir þyrftu að borga sínar ferðir sjálfir og uppihald.

Ég kem rétt að þessu vegna þess að ég er hræddur um að þeir menn sem hér sitja viti kannski ekki alveg um allt þetta starf. Það starf sem veitt er hjá þessari hreyfingu er kannski mikilvægara en öll dagheimili í landinu samtals. Flestir af forustumönnum hreyfingarinnar, ef ekki allir, hafa ekki tekið krónu fyrir. Þetta hefur aldrei verið metið til fjár og ef ríkið þyrfti að taka þennan rekstur að sér væru þar ógnvekjandi tölur.

Ég minni líka á annað í þessu sambandi og það er Íþróttasjóður. Alvarlegi hluturinn er ekki sveitarfélögin sem eiga þar inni, heldur eru það hin frjálsu félög sem eiga þar stærsta hluti. Þetta eru menn sem hafa aflað fjár, byggt mannvirki og keypt ýmis tæki. Mest er þetta fyrir fé sem þeir safna með ýmsum hætti en hafa treyst á að fá hluta greiddan frá ríkissjóði þó að ríkissjóður standi aldrei við þær prósentur sem hann ætti að borga vegna þess að þær eru borgaðar löngu á eftir og verða mjög rýrar. Ég held að menn verði að gera sér ljóst hvernig staðan er í þessu máli. Og þetta er mjög alvarlegur hlutur.

En svo eru það stóru hlutirnir í þessu frv. og kannski það stærsta, að það stenst ekki. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar stenst ekki. Hún er hrunin. Ég vil minna á að í sjónvarpinu í kvöld kom einn helsti ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum fram, Þórður Friðjónsson, og ræddi þar um fastgengisstefnuna sem mönnum er orðið ljóst að getur ekki gengið lengur. Hraðfrystihúsin í landinu ráða ekki við þær verðbreytingar sem hafa orðið erlendis og þá lækkun á dollara sem hefur orðið, þannig að sú stefna er hrunin. Það er ekki ýkja björt framtíð sem blasir við hjá þessum aðilum. Og það er ekki verið að panta neina gengisfellingu. Við ráðum ekkert ferðinni í þessu. Það eru þættir erlendis sem við verðum að sætta okkur við hvort sem okkur líkar betur eða verr. Og ein afleiðingin af þessari fastgengisstefnu er að hér hefur streymt inn erlent fjármagn sem er miklu ódýrara en innlent fjármagn vegna þess að lánskjaravísitalan hefur vaxið langt, langt fram úr genginu. Það hefur skarast svo gífurlega að það er margfalt ódýrara að vera með erlent fjármagn. Þetta er ein meginástæðan fyrir þessari miklu spennu á höfuðborgarsvæðinu sem menn hafa talað um að sé í atvinnulífi.

Ég held að menn hafi kannski ekki áttað sig á að ef þeir hefðu farið að bera saman verðbólgutölur núna, eins og þeir léku sér að þegar stjórn dr. Gunnars Thoroddsens var við lýði, væri verðbólgan núna komin yfir 60% samkvæmt þeim reikningsaðferðum sem voru notaðar þá, miðað við ár. Það er alvarlegur hlutur. Á sama tíma og ríkisstjórnin boðar að hún vilji helst leggja fjármagnið í erlend verðbréf og annað slíkt verður verðhrun í Wall Street. Það hefði verið gaman að sjá framan í þá menn sem hefðu átt stórfé þar og tapað þar miklum fjármunum. Við skulum segja að lífeyrissjóðirnir hefðu farið að fjárfesta í einhverjum fyrirtækjum og tapað svo stórfé. Það er alvarlegur hlutur. Við höfum held ég nóg að gera við okkar lánsfé hér og okkar fjármagn.

Það er líka einn hlutur í fjárlögunum sem er mjög alvarlegur og menn hafa áhyggjur af. Það er þessi mikla skattlagning sem er fyrirhuguð og hefur ekki orðið svo mikil um árabil. Ég er hræddur um að almenningur í landinu verði illa á sig kominn þegar skattarnir leggjast á á næsta ári. Ég er hræddur um að það verði einhver heimili sem eigi erfitt með að ná endum saman. Þetta eru alvarlegir hlutir.

Hér hefur verið talað um skattamál eins og það sé eitthvað einfalt, það sé verið að einfalda kerfið. Þvert á móti er ekki verið að einfalda kerfið, það er verið að flækja það. Það er verið að auka skattana og tilkostnaðinn við að rukka inn skattana og það er verið að auka báknið. Og það er meginniðurstaða þessara fjárlaga að stóru liðirnir vaxa, litlu liðirnir eru skornir niður við trog. Ég held að fróðlegt hefði verið að sjá einhvern af þm. Sjálfstfl. við þessa umræðu en þeir eru víst allir horfnir — (Gripið fram í: Allir farnir að sofa.) sennilega farnir að sofa — því að hér er merkur hlutur í frv. sem ég veit ekki hvort menn hafa áttað sig á. Þessi ríkisstjórn hefur tekið upp alveg nýja stefnu í skattamálum. Hún hefur nefnilega tekið aronskuna í framkvæmd. Hún hefur lagt skatta á Íslenska aðalverktaka sem er aronska. Ég hefði viljað sjá þá menn sem hafa staðið upp ár eftir ár og mótmælt þessari stefnu, ég hefði haft gaman af að heyra í þeim. Nú er þessi stefna tekin upp hér og ég er viss um að sumir munu náttúrlega fagna því. En þetta er engu að síður staðreynd.

Ég vil taka undir margt af því sem hv. 7. þm. Reykv. sagði. Það var margt rétt og satt og orð í tíma töluð. Ég held nefnilega að málið sé það að það er ekki hægt að versla við verkalýðshreyfinguna með því að þykjast ætla að leggja á skatta og segjast svo ætla að draga úr þeim í hinu orðinu, til þess að reyna að versla við þá. Það verður að vera hægt að stóla á að það sem ríkisstjórn gerir verði hún að standa við og fylgja þeirri stefnu mjög glöggt eftir.

Hér hefur verið mikið rætt um Jöfnunarsjóð og hæstv. fjmrh. hefur réttilega komið inn á að þetta er mjög illa unnið mál. Hann hefur sagt það óbeinum orðum. Það er nefnilega hvergi tekið fram núna hverjar tekjurnar verða, hve miklar í framtíðinni, hvernig þessum málum verður háttað og stjórnað hjá sjóðnum. Hvernig á að gera upp það sem er núna verið að framkvæma og liggur fyrir samþykkt. Það er hvergi neitt nákvæmlega til um þetta. Þessu hefur ekki verið svarað og hæstv. fjmrh. hefur reynt að vefja mál sitt hér í orðskrúði. Það kemur náttúrlega best í ljós í þessari löngu ræðu hans um fjárlög sem hann vafði hér upp á 84 síður, sem er mjög merkilegt. Samt sem áður hefur hvergi komið skýrt fram hvernig þessum málum verður skipað. Það á eftir að gera það, segir hann, það verður gert, það mun verða gert. Það er heila málið í þessu. Þetta frv. er illa unnið. Það hefur ekki verið lagt almennilega fram, enda hefur komið fram í máli stjórnarþingmanna gagnrýni á mjög marga þætti þess.

Ég undirstrika það að við þessa umræðu munum við ekki leggja fram sérstakar tillögur og við munum heldur ekki leggja fram hundrað og eitthvað tillögur eins og Alþfl. gerði á sínum tíma. Það hefur engan tilgang, það vita allir. Við munum reyna að gera einhverjar breytingar sem eru kannski raunhæfar, en það er ekki raunhæft að koma með ný fjárlög. Til þess höfum við ekki bolmagn. Og það er bara sýndarleikur og blekking og í því ætlum við ekki að standa.

Við munum leggja fram einhverjar tillögur í nokkrum atriðum sem við teljum að sé hægt að ná fram og séu raunhæfar. Ég held að þetta fjárlagafrv. boði slæma tíð og það verða engin blóm í haga á næsta ári.