14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6473 í B-deild Alþingistíðinda. (4462)

20. mál, kaup og sala fasteigna á vegum ríkisins

Guðrún Helgadóttir:

Hæstv. forseti. Það er ánægjuefni fyrir okkur, sem beiðnina fluttu, að hæstv. ráðherra nýtir það tilefni til að gera gangskör að því að fá eitthvert vit í þessi mál því það er alveg augljóst af því sem hér hefur komið fram að rekstur opinberra fyrirtækja er ekki á þann veg sem við öll mundum æskja.

Ég verð að segja eins og er að ég á afar erfitt með að skilja af hverju það er svona mikið verk að finna út eða komast að hverjar eignir ríkisins séu. Ég hef hingað til haldið að öllum eignum væri þinglýst ég hélt að það væri ekki svo ýkja erfitt að komast að því hver á hvaða eignir á Íslandi. A.m.k. gildir það um einstaklinga að það liggur nokkuð ljóst fyrir hvað þeir eiga.

Hitt er kannski enn þá stærra mál, sem hér var komið inn á áðan, sem er að e.t.v. er ástæða til að endurskoða lögin um Stjórnarráð Íslands og skilgreina betur hver á að sinna hverju innan ríkisstjórnarinnar. Það er alveg fráleitt að ráðuneyti hundsi beiðni fjmrh. um upplýsingar um hvað þau hafa verið að kaupa og selja eða hvaða fasteignaviðskipti þau hafa verið að stunda. Það segir sig sjálft að það gæti verið freistandi fyrir fjmrh. eða hvaða ráðherra sem væri. Við skulum bara hugsa okkur þegar draga tekur að kosningum að það sé virkilega hægt að hygla stórum hópum með liðlegum fasteignakaupum sem geta komið sér vel fyrir þá umræddu hópa. Hlutir eins og þessir eiga ekki að geta gerst. Mér er þó ekki grunlaust um að slíkt hafi gerst með góðum árangri fyrir viðkomandi ráðherra. Slíkt á auðvitað ekki að eiga sér stað og um það á Alþingi að standa vörð að enginn ráðherra geti misnotað vald sitt til að hygla einstökum hópum á þennan hátt.

Varðandi þau orð sem féllu hjá hv. 5. þm. Austurl. Agli Jónssyni, þá skildi ég ekki alveg af hverju hann brást svo ókvæða við orðum mínum um leigu af jörðum. Eftir stendur að það er fráleitt að hlunnindajörð norður í Skagafirði með laxveiði og öðru slíku sé leigð fyrir 71 kr. á ári. Það er bara gersamlega fráleitt. Það gleður mig ef það er verið að endurskoða leigugjöld af ríkisjörðum. Það þætti ágætisleiga hér á hinu óvinsæla þéttbýlissvæði.

Vegna orða hans um að bóndinn sem jörðina byggi sé auðvitað að auka eigur ríkisins með góðum rekstri á jörðinni, þá getur það vel verið ef eftir því er litið. Hins vegar held ég að við höfum enga tryggingu fyrir því hvernig þessar jarðir séu nýttar, hvort viturlega sé þar að farið eða óviturlega. Ég held að hv. 5. þm. Austurl. hljóti að geta verið mér sammála um að þessi mál þurfi að skoða líka. Ég held að hver einasti maður, eins og ég gat um áðan, gæti sett sig inn í þennan rekstur ef um einkafyrirtæki er að ræða. Ég held að það þætti ekki vel rekið svo vægt sé til orða tekið.

Ef ég á að vera alveg hreinskilin hafa mér fundist þessar umræður næstum því dálítið hlægilegar. Ráðherrar hafa verið í mestu vandræðum og við hin höfum haldið niðri í okkur hlátrinum því að slík endemi eru þetta að ég hygg að það sé alveg óheyrt í hinum siðmenntaða heimi að svona sé farið með opinberar eigur landsmanna og sameiginlegar eigur landsmanna. (Fjmrh.: Mér er ekki hlátur í hug.) Hæstv. ráðherra heldur því fram að sér sé ekki hlátur í hug. Hann hefur verið skellihlæjandi allan tímann og hef ég fylgst nokkuð grannt með því.

En hér er auðvitað ekki hlægilegt mál á ferðinni og ég vona að það verði sannmæli, sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að þessi umræða verði til þess að einhverju sköpulagi verði komið á rekstur opinberra eigna ríkisins í framtíðinni og það mál dragist ekki of lengi.