14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6474 í B-deild Alþingistíðinda. (4463)

20. mál, kaup og sala fasteigna á vegum ríkisins

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem ég benti á í tilefni af þessum umræðum að það þyrfti að endurskoða í þessu sambandi eignadeild og yfirráð yfir henni þar sem það er ágreiningur og hefur verið svo lengi sem ég veit um það undir hvaða ráðuneyti hver ríkiseign heyrir. En ég vil taka það fram að gefnu tilefni vegna ummæla sem viðhöfð voru hér úr ræðustól að að sjálfsögðu voru makaskiptin hvað Kotmúla snertir samþykkt í ríkisstjórninni þó svo það hafi láðst af einhverjum ástæðum að ganga frá heimild frá Alþingi seinna.

En ég vil taka undir það og minna á þær umræður sem hér hafa verið hvað eftir annað af minni hálfu og þá aðallega sem fjmrh. að það þarf að hafa miklu betri skipan á Stjórnarráði Íslands. Ég skal taka dæmi og vera mjög stuttorður, hæstv. forseti.

Hæstv. fjmrh. leggur fram fjárlög. Hann leggur fram lánsfjáráætlun og í lánsfjáráætlun er heimild fyrir erlendum lántökum í gegnum langlánanefnd. En hæstv. fjmrh., ef ekki er búið að breyta því, hefur ekkert með langlánanefnd að gera. Það er bankamálaráðherra. Í gegnum hann streymdi miklu meira inn í landið af lánsfé en Alþingi hafði samþykkt. Og hvernig sem ég fór að sem fjmrh. til að stemma stigu við innstreymi í gegnum langlánanefnd tókst mér það ekki. Mér tókst það ekki. Það var tvöföld upphæð sem var tekin inn í landið að láni í gegnum bankakerfið og í gegnum langlánanefnd á við það sem Alþingi hafði heimilað þrátt fyrir allt mögulegt sem ég gerði sem fjmrh. til að stöðva það innstreymi. En þegar kemur á Alþingi verður fjmrh. að vera ábyrgur fyrir því að fjárlögin standist og að lánsfjárlögin standist og erlendar lántökur standist. Þetta er gat sem þarf að laga.

Mér var ekki hlátur í huga fyrr en hv. þm. Guðrún Helgadóttir fór að tala um að ráðherra væri að hygla fyrir kosningar einhverjum gæðingum með húsakaupum. Ég skil ekkert í því að svona skuli koma upp í umræðum eða í hugsun alþm. Húsakaup eru annaðhvort ákveðin á fjárlögum eða, ef eitthvað kemur upp sem kallar á húsakaupin, þá er það ríkisstjórnin sem fjallar um það og tryggir þá afgreiðslu málsins á Alþingi þegar það kemur seinna til afgreiðslu þar þó að seinna sé en æskilegt getur talist eins og komið hefur fram.