14.04.1988
Neðri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6475 í B-deild Alþingistíðinda. (4466)

293. mál, áfengislög

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið meira en þegar er orðið, enda er löngu komið nóg af henni sem slíkri og er það reyndar ekki minn, stíll að vera með miklar endurtekningar þó að hún sé mikið notuð, sú taktík, af bjórandstæðingum hér inni.

Hins vegar vil ég fá að fjalla í nokkrum orðum um þær brtt. sem hér eru fram komnar við þetta mál og vil þá kannski fyrst líta á brtt. á þskj. 762 þar sem 1. flm. er hv. þm. Sverrir Hermannsson.

Ég verð að segja alveg eins og er að fyrir öðrum eins tvískinnungshætti og fram kemur með þessari brtt. eru varla fordæmi. Ég legg þann skilning í þegar menn leggja fram brtt. við frumvörp að þá sé það gert til þess að ef sú tillaga sem lögð er fram til breytinga fáist samþykkt geti menn hugsað sér að standa að samþykkt málsins. Það hlýtur að vera meining hv. þm. Sverris Hermannssonar að nái hann fram sínum breytingum styðji hann þetta frv.

Annar megintilgangur till. er að stofna safnasjóð er eigi að hafa það hlutverk að styðja við vöxt og viðgang safna í landinu. Fari nú svo að vöxtur og viðgangur safna í landinu sé ekki nógu ör, mun þá 1. flm. þessarar tillögu berjast fyrir því að aukin verði bjórneysla í landinu til að auka fé til sjóðsins?

Herra forseti. Mér þykir miður að tala í þessa veru til manns sem ekki er hér inni, en það verður bara að hafa sinn gang. Ég vil þó segja það um allan þann málflutning sem þessi ákveðni þingmaður hefur haft hér í frammi og þar hafa verið notuð gífuryrði, látin fjúka hér af og til, að ég tel að hans málflutningur hafi verið okkur, sem styðjum þetta frv., besta vopnið. Ég tel að hann hafi fælt bjórandstæðinga frá og jafnvel yfir á það að styðja bjórinn einfaldlega vegna þess að mönnum liður illa í félagsskap manna sem nota þann rökstuðning sem hann hefur notað og þann málflutning. Þeir eru þó sjálfum sér samkvæmir, aðrir bjórandstæðingar á þingi, enda hafa þeir komið upp og lýst furðu sinni á brtt. 1. flm.

Brtt. á þskj. 848 er flutt af Steingrími J. Sigfússyni. Hann sagði þegar hann mælti fyrir henni að hann legði hana fram eftir nokkra umhugsun. Ég furða mig á þeim ummælum því að 1. gr. orðast svo:

„Þó er óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða selja áfengt öl af öðrum styrkleika en þeim sem inniheldur á bilinu 3,25–4% af vínanda að rúmmáli.“

Þarna vill hv. flm. koma í veg fyrir að veikari bjór en 3,25% verði seldur á Íslandi. Þetta get ég ekki skilið. Túlkunaratriðið er hvað er bjór og hvað er áfengi. Læknar fullyrða að um leið og alkóhól er komið í drykk er um áfengi að ræða. Í dag er seldur í landinu löglega bjór með 2,25% alkóhóli. Þennan bjór vill þá væntanlega flm. þessarar brtt. banna. Hér má aðeins selja bjór að styrkleika 3,25% og upp í4%.

Hann er náttúrlega eins og aðrir að færast á línu bjórmanna. Hann er að styðja bjórinn með þessu. Þarna munar í rauninni ekki nema 1% á þeim styrkleika sem er á öllum venjulegum export-bjór, öllum venjulegum útflutningsbjór. Hann er að styrkleika 5% af rúmmáli vínanda.

Í öðru lagi er tillaga Steingríms J. Sigfússonar, 2. liður, svo: „Eftir gildistöku laga þessara skal árlega næstu tíu árin varið úr ríkissjóði til fræðslu og forvarnarstarfa gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna jafngildi a.m.k. 75 millj. kr. á núgildandi verðlagi.“

Þetta er náttúrlega gott og blessað og þetta er það sem blessaðir mennirnir setja gjarnan inn sjálfum sér til friðþægingar. En hvað skeður eftir tíu árin? Af hverju er þetta bundið við tíu ár? Verða engin vandamál hér eftir tíu ár? Ég hefði getað skilið svona tillögu ef hún hefði ekki verið bundin við ákveðna tímalengd.

Hv. þm. kom inn á að það ætti að merkja nákvæmlega vöruna, hvort hún væri 5% styrkleiki, 7% eða 4% eins og hann vill hafa þetta. Þetta er rétt, en þetta er reglugerðarákvæði og verður sjálfsagt tekið upp þegar þar að kemur. Sama er um umbúðir, hvort um er að ræða flöskur, dósir og stærðina á þeim, magnið og allt slíkt.

Auðvitað tökum við undir að berjast gegn neyslu vímuefna á allan þann hátt sem mögulegt er.

Um brtt. á þskj. 851 flutta af hv. þm. Ragnari Arnalds, Friðjóni Þórðarsyni, Jóni Sæmundi Sigurjónssyni, Níelsi Árna Lund, Kristínu Halldórsdóttur og Óla Þ. Guðbjartssyni um að skipuð verði fimm manna nefnd sem hafi það meginmarkmið að draga úr heildarneyslu áfengis er náttúrlega allt gott að segja og sjálfsagt taka allir undir það.

En að lokum: Sú brtt. sem virðist alltaf skjóta upp kollinum þegar bjór er að færast á lokastig og hugsanlegur möguleiki að hann fáist samþykktur er brtt. þess eðlis að skjóta málinu til þjóðarinnar. Hv. þm. Árni Gunnarsson mælti fyrir þessu í gær og sagði að þjóðin ætti sjálf að hafa lokaorðið. Ég held að þetta sé ekki rétt. Þjóðin er löngu orðin þreytt á því kjarkleysi sem kemur fram í þingsölum. Þjóðin krefst þess að við tökum á slíkum málum. Hv. þm. sagði að í svona stóru máli yrði þjóðin að taka afstöðu. Það eru fleiri stór mál inni á þingi en bjórmál. Ég spyr þá hv. þm.: Átti ekki þjóðin að taka þátt í þeirri ákvörðunartöku að staðgreiðslukerfi skatta var tekið hér upp? Ætli það sé ekki heldur stærra mál en bjórmál?

Eins og formaður hans, hæstv. fjmrh., segir: Hér þarf ekkert annað en kjark. Og ég hef trú á því að við höfum þann kjark hér á þingi. Ég fullyrði að þjóðin hlær að okkur hér inni ef við klúðrum þessu máli eina ferðina enn.

Herra forseti. Hv. þm. Sverrir Hermannsson talar um gróðapunga og peningafíkn og allt slíkt sem maður er vanari að heyra af vinstri vængnum. Ég segi ekki annað en guð hjálpi þeim viðskiptaaðilum sem þurfa að sækja til hans erindi sem bankastjóra Landsbanka Íslands.