14.04.1988
Neðri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6484 í B-deild Alþingistíðinda. (4470)

293. mál, áfengislög

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Þá er nú að ljúka þeirri umræðu um þetta hitamál sem hér hefur staðið langan tíma í vetur og raunar marga vetur og hér hafa komið fram margar brtt. við það frv. sem endanlega kom frá nefndinni.

Menn hafa verið að tala um kjarkleysi þeirra manna sem vilja setja þetta mál í þjóðaratkvæði. Menn hafa rætt um tvískinnung og menn hafa rætt um rökþrot bjórandstæðinga. Ég verð að segja að mér finnst þetta hljóma undarlega.

Staðreyndin er sú, og það vita þeir sem hafa hlustað á umræður hér, þar vil ég undanskilja bjórsinna því að það er nánast undantekning ef þeir sjást í salnum, að langflestar ræðurnar hafa verið málefnalegar og vel rökstuddar og fjarri því að vera skítkast til einstakra þingmanna eða persónulegar ádeilur. Ég vil nefna m.a. málflutning hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, Árna Gunnarssonar og Steingríms J. Sigfússonar. Ég fullyrði að þar hefur ekki verið um skítkast í andstæðingana að ræða. Það hafa verið málefnalegar umræður byggðar á rökum á allan máta. Hins vegar hafa bjórsinnar aldrei gefið sér tíma til að hlusta á þær umræður, þá frekar en núna. Þeir eru ekki margir í salnum, líklega farnir heim, búnir að semja um það nú þegar að atkvæði falli ekki í dag í þessu máli o.s.frv. Það kemur því úr hörðustu átt þegar þessir menn eru að fjalla um að hér hafi verið hafður uppi slíkur málflutningur. Menn tala um að hér hafi verið ódrengilegur og ofsafenginn áróður úr ræðustóli o.s.frv. Þessu hafna ég.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir nefndi áðan tvískinnung í þessu máli. Undir hennar mál vil ég taka að öllu leyti og bæta einum tvískinnungi við. Það er venja hjá hv. Alþingi að kalla til umsagnir utan úr bæ og menn sitja spakvitrir úti í Þórshamri eða annars staðar og skoða þessar umsagnir. Þeir láta menn hafa fyrir því að semja umsagnir um hin ýmsu mál og telja mönnum trú um að þeir taki mark á þessu og taki afstöðu í ljósi þeirra umsagna sem þar eru gerðar. Er það nú gert í þessu máli? Að mér skilst bárust 15 umsagnir. 13 þeirra hvöttu til þess að frv. yrði fellt. Er þetta í anda þess að við samþykkjum þetta frv.? Er það í anda þessara umsagna eða í anda þeirra ráðlegginga sem við erum að leita hjá hæfustu mönnum? Svari því hver sem vill. Nei, það er nefnilega víða tvískinnungurinn í þessu máli öllu saman.

Ég ætla annars ekki að tala hér langt mál. Ég vildi aðeins ræða þá brtt. sérstaklega sem fram kemur á þskj. 856 og hv. þm. Árni Gunnarsson er 1. flm. að ásamt mér, Ragnari Arnalds og Þórhildi Þorleifsdóttur. Hún felur í sér að þetta frv., sem er reiknað með að verði samþykkt héðan frá Alþingi, öðlist ekki gildi án þess að það verði borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég vil færa rök fyrir því máli í fyrsta lagi að um ekkert eitt mál hafa orðið aðrar eins umræður og um bjórmál á Alþingi.

Í öðru lagi er bjórmálið ekki flokkspólitískt mál. Fólkið í landinu hefur í raun aldrei haft tækifæri á að velja fulltrúa inn á Alþingi samkvæmt skoðun sinni á því hvort það eigi að leyfa sölu áfengs öls hér á landi eða ekki. Stjórnmálaflokkarnir hafa sett fram hugmyndir, markmið og leiðir í flestum öðrum veigamiklum málum sem kjósendum eru gerðar kunnar fyrir kosningar. Því er vitleysa að tala um að það hefði alveg eins mátt bera söluskattsmál eða eitthvað því um líkt undir þjóðina. Þar vita kjósendur miklu fremur stefnu flokkanna í þeim málum, mjög skýra og ákveðna stefnu, en í þessu máli hafa kjósendur í reynd aldrei haft tækifæri til að velja sína fulltrúa samkvæmt vilja þeirra til þessa máls.

Í þriðja lagi: Með samþykkt þjóðaratkvæðagreiðslu um það lagafrv. sem hér liggur fyrir gefst tækifæri á að kjósa um það í eitt skipti fyrir öll hvort leyfa skuli bruggun og sölu áfengs öls hér á landi þar sem gert er ráð fyrir að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir að öðru leyti, þannig að kjósendur vita nákvæmlega þegar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar kemur hvað þeir eru að greiða atkvæði um. Umræður þurfa ekki að snúast eða teygjast á langinn um hvar skal selja bjórinn, hversu sterkur hann á að vera, um forvarnir í áfengismálum og annað í þeim dúr. Einungis yrði leitað eftir því hjá fólki hvort það vildi staðfesta þau lög sem væri þá þegar búið að samþykkja hér á Alþingi og fólkið þyrfti ekki annað en svara já eða nei. Það væri búið að taka ákvörðun um önnur atriði.

Í fjórða lagi: Af því leiðir að það er fjarstæða að halda því fram að með þessu séu alþm. að varpa frá sér ábyrgð eins og ýmsir vilja halda að við séum að gera með því að vísa málinu til þjóðarinnar, eða kvöð að sumra mati með því að afgreiða ekki þetta mál. Staðreyndin er sú að það hefur þegar komið fram vilji alþm. í Nd. í málinu og nokkuð er víst að svipað fylgi er við málið í Ed. Hér hefur meira að segja farið fram nafnakall þannig að þjóðin veit um hug einstakra manna í þessu máli. Landsmenn vita því vilja Alþingis áður en gengið er til kosninga.

Vita að hér á hv. Alþingi er að öllum líkindum vilji fyrir þessu eins og mál standa í dag. Þannig er engan veginn hægt að skýla sér á bak við það að Alþingi hafi ekki tekið ákvörðun í þessu máli. Alþm. eru því að gefa þjóðinni kost á að breyta ákvörðun alþm. ef hún vill, m.a. í ljósi þess að atkvæðismunur hér á Alþingi er lítill og óljós vilji þjóðarinnar. Þingmenn eru því ekki að vísa frá sér ábyrgð heldur þvert á móti einungis að leyfa fólkinu að taka endanlega ákvörðun um hvort lögin taki gildi eða ekki. Lögin mundu þá vera skýr og þyrftu ekki frekari umfjöllun Alþingis, m.ö.o. bjórmálið yrði afgreitt eins lýðræðislega og réttlátlega og hægt væri.

Að tala um að Alþingi væri að varpa frá sér einhverri ábyrgð er rangt. Svo virðist sem ýmsir þori ekki að skríða undan skelinni og láta í sér heyra hvort þeir eru með eða móti bjór. Það er kannski það sem þingmenn hafa veigrað sér við hingað til og flækt málið af þeim sökum. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að Alþingi semji lagafrv. og leggi það nákvæmlega fyrir þjóðina og afgreiði það með nafnaköllum og tilheyrandi hér þannig að þjóðin viti nákvæmlega hvernig hver einstakur þingmaður hefur greitt atkvæði, viti hver vilji Alþingis er, en jafnframt að Alþingi síðan láti það til endanlegrar afgreiðslu hjá þjóðinni m.a. vegna þess að engan veginn er ljóst hver vilji þjóðarinnar er í þessu máli, eins og ég gat um áðan, og að þjóðin hefur í raun og veru aldrei haft tækifæri til að velja þingmenn á Alþingi með tilliti til þess hvort þeir eru með eða móti bjór.

Bjórmálið er vissulega viðkvæmt og mun viðkvæmara fyrir marga en t.d. herstöðvamál og stóriðjumál, svo að hitamál séu nefnd. Allar skoðanakannanir sem komið hafa fram í þessu máli eru innan skekkjumarka og því varlegt að byggja þjóðarviljann á þeim.

Ég ítreka að ég held að það væri ekki óábyrgt heldur miklu frekar drengilegt af alþingismönnum Íslendinga að afgreiða þetta mál fastmótað frá hv. Alþingi til þjóðarinnar og lofa þjóðinni að taka endanlega ákvörðun í málinu.