18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6510 í B-deild Alþingistíðinda. (4511)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um flugmálaáætlun 1988–1991, á þskj. 815. Þáltill. er flutt í samræmi við ákvæði laga nr. 31 frá 27. mars 1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, en meginmarkmiðið með setningu umræddra laga var að fá fram reglubundna umræðu og ákvörðun á Alþingi um skipulega uppbyggingu þessa mikilvæga samgönguþáttar.

Við undirbúning flugmálalaganna var af skiljanlegum ástæðum horft til hliðstæðrar lagasetningar um vegagerð, þ.e. vegalaga, og laga um fjáröflun til vegamála og ágætrar reynslu sem fengist hefur af áætlunargerð á þeim vettvangi.

Fyrri kafli laganna nr. 31/1987 dregur því í öllum meginatriðum dám af sambærilegum ákvæðum vegalaga að breyttu breytanda, en í síðari kafla laganna er gert ráð fyrir að framkvæmdirnar fjármagnist af tekjum af flugvalla- og eldsneytisgjaldi og framlögum úr ríkissjóði. Um hliðstæður slíkrar tekjumörkunar má nefna þungaskattinn og bensíngjaldið.

Þessi framgangsmáti varð sjálfsagt til með örlög annarrar ágætrar framkvæmdaáætlunar í huga, en hún var bakgrunnur ályktunar Alþingis frá 2. maí 1978, um markmið og leiðir í flugöryggismálum. Þessi annars framsækna ályktun varð um flest úti á berangri ríkisfjármálanna þar sem ákvæði um skipulega endurskoðun og fastar tekjur vantaði.

Það leiðir af framansögðu að þáltill. sú sem hér er til umfjöllunar ber með sér sérstakt svipmót af annarri og betur þekktari hér í þingsölum, till. til þál. um vegáætlun sem við vorum að ræða rétt áðan, þ.e. endurskoðun á henni. Einn meginmunur er þó á þessum tveimur tillögum og kemur hann fram í því að hér í till. er í IV. kafla lögð til sundurliðun fjár á einstök verkefni, en skipting þessi á sviði vegamála kemur fyrst fram sem brtt. eftir umfjöllun í fjvn. Þetta ræðst af þeim mun sem er á lögbundnu stjórnskipulagi og ákvarðanatöku hjá framkvæmdastofnunum, Flugmálastjórn og Vegagerð ríkisins, þar sem önnur hefur yfir sér þingkjörna stjórn en hin ekki.

Rétt er að taka skýrt fram, einkum með tilliti til umræðu á sínum tíma um flugmálalögin, að flokkun flugvalla í þrjá flokka fer einungis eftir skráningu á núverandi lengd flugreina vallarins, sbr. 3. gr. laga nr. 31/1987, en ekki mati á mikilvægi vallar fyrir byggðarlag eða landshluta.

Eins og fram kemur í reglugerð með þáltill. er baksvið laganna nr. 31/1987 starf svonefndrar flugmálanefndar er lauk störfum í nóvember 1986. Í skýrslu nefndarinnar, er dreift var sérstaklega hér í þinginu en einnig var fskj. með frv. til margnefndra laga, var sett fram og skilgreint það markmið sem talið var að stefna bæri að við íslenska flugvallagerð. Þessu næst var tekið saman yfirlit yfir núverandi ástand vallanna. Við samanburð á þessu tvennu, stöðunni og markinu, var settur fram framkvæmdalisti með útreiknuðum kostnaði og forgangssviðum. Þá var lagt til að verki þessu yrði lokið á 10 ára bili. Hér er um merk tímamót að ræða í sögu íslenskra flugmála þar sem í fyrsta skipti er fram komin áætlun um skipulega uppbyggingu flugvallanna.

Útgjöld og tekjur vegna framkvæmda fyrir árið 1988 eru í samræmi við fjárlög en að viðbættum 25 millj. kr. sem eru tilkomnar vegna aukinna tekna Flugmálastjórnar 1987 í kjölfar gildistöku flugmálalaganna. Útgjöld til framkvæmda áranna 1989–1991 eru áætluð 272 millj. kr. á meðalverðlagi ársins 1988.

Framkvæmdir þær sem lagðar eru til á þskj. 815 eru í öllum meginatriðum í samræmi við tillögur flugmálanefndar um val og niðurröðun, en framkvæmdahraðinn tekur mið af tekjustofnum Flugmálastjórnar skv. II. kafla laganna. Rekstrarþættir áætlunarinnar eru í samræmi við fjárlög ársins og á meðalverðlagi þess. Sama gildir fyrir 1989–1991. Gert er ráð fyrir 3,5% hækkun á milli ára í auknu rekstrarumfangi hjá þeim deildum Flugmálastjórnar sem flugmálauppbyggingin nær til, þ.e. flugvalladeild, flugleiðsöguþjónustu og alþjóðaflugþjónustu, enda leiðir aukinn stofnkostnaður af sér hærri rekstrarútgjöld.

Svo sem áður var vikið að binda flugmálalögin flugvallagjald og bensíngjald framkvæmdum í þágu flugsins. Við áætlun á flugvallagjaldi fyrir árið 1988 er stuðst við farþegatölur 1986 en þær hækkaðar um 6% vegna innanlandsflugs og rúmlega 13% vegna utanlandsflugs, en það er meðalaukning farþegaflutninga milli áranna 1984-1986. Við afgreiðslu fjárlaga var gert ráð fyrir hækkun flugvallagjalds, en ákvörðun um breytingu á því verður látin bíða þar til séð verður hver þróun farþegaflutninga verður.

Við áætlun um tekjur af eldsneytissölu árið 1988 er stuðst við sölutölur um mitt árið 1987 en þær síðan hækkaðar um meðalfalsaukningu flugeldsneytissölunnar á ári tímabilið 1984–1986. Ekki er ráðgert að hækka gjaldskrár vegna eldsneytissölunnar á árinu ef áætlun um sölu þess stenst.

Aðrar markaðar tekjur eru beinar rekstrartekjur stofnunarinnar, lendingargjöld, loftferðaeftirlitsgjöld, leigugjöld og önnur þjónustugjöld. Gert er ráð fyrir að loftferðaeftirlitsgjöldin hækki í áföngum á gildistíma áætlunarinnar þannig að þær standi í lok þess undir starfsemi eftirlitsins.

Áður var vikið að því að skipting útgjalda á milli reksturs og framkvæmda í áætluninni væri í samræmi við fjárlög. Enn fremur var sagt að við val framkvæmda væri stuðst við tillögur flugmálanefndar um forgangsröðun. Hér er ekki ástæða til sérstakrar umræðu um aðferðafræði þess heldur vísast um það atriði til greinargerðar með tillögunni. Þá vænti ég að tækifæri gefist til nákvæmari athugunar á skiptingunni við umfjöllun í fjvn. og munu að sjálfsögðu fulltrúar Flugmálastjórnar og flugráðs vera þar reiðubúnir til svara.

Meginverkefni áætlunartímabilsins er flugbrautir og stæði sem ásamt byggingum taka um 80% framkvæmdafjárins fyrstu þrjú ár tímabilsins, en vægi annarra framkvæmdaþátta vex eftir því sem ávinnst við brautir og byggingar. Hér er rétt að minna á þá skoðun flugmálanefndarinnar að einstakar framkvæmdir geti verið svo stórar í sniðum og mikilvægar af hagkvæmnis- og öryggisástæðum að þær falli utan framkvæmdaraðarinnar. Dæmi í þessu eru t.d. flugstöð á Reykjavíkurflugvelli, flugbraut á Egilsstöðum og endurnýjun flugbrauta í Reykjavík. Þessar framkvæmdir vill nefndin að litið sé á sem sérverkefni og sama á raunar við um varaflugvöll og endurbætur á flugstjórnarmiðstöðinni.

Í flugmálaáætlun þeirri sem hér liggur fyrir gætir áhrifa eins þessara verkefna, Egilsstaðaflugvallar, en í samræmi við ályktun Alþingis frá því sl. vor fékkst sérstök fjárveiting til lendingarbóta og endurbóta á flugbrautinni þar. Unnið hefur verið að þessu verki nú í vetur og hefur miðað mjög vel sakir hagstæðra tilboða sem borist hafa í verkið. Verður að taka tillit til þessa verks þegar litið er til skiptingar fjárins innan áætlunarinnar. Ekki er gert ráð fyrir á þessu stigi að ráðist verði í fleiri sérverkefni á áætlunartímabilinu, en flugmálaáætlun kemur til endurskoðunar að tveimur árum liðnum auk þess sem ráðstöfun aukafjár, ef bærist, gæti átt sér stað utan hennar.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að lengja þessa umræðu. Ég vísa að öðru leyti til þeirrar greinargerðar sem með tillögunni er og þeirra upplýsinga sem síðar kynnu að koma og óskað væri eftir af hv. fjvn., en mín tillaga er að þessari tillögu verði að lokinni umræðu vísað til síðari umr. og hv. fjvn.