18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6516 í B-deild Alþingistíðinda. (4514)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim tveimur ræðum sem hafa verið haldnar. Varðandi það sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði um framlag ríkissjóðs er þetta dæmi svo einfalt að þær tekjur sem áætlaðar voru samkvæmt fjárlögum eru það miklar að þær ná að greiða þann kostnað sem reiknað er með að sé fyrir hendi samkvæmt þeirri tíu ára áætlun sem lögð var til grundvallar þegar frv. var samþykkt á sínum tíma. Þar var að vísu gert ráð fyrir framlagi úr ríkissjóði, en í ljós kemur að tekjurnar eru meiri og þær duga til þess að ná fram þeirri áætlun sem þar var lögð til grundvallar. Þess vegna var ekki talin ástæða til þess að á fjárlögum væri varið sérstöku fjármagni þar sem, eins og ég sagði, tekjur undir þessum kringumstæðum dygðu til.

Spurningin um varaflugvöll. Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að utanrrh. hefði skotið herflugvallarhugmyndinni út af borðinu. Dæmið er þannig að umræðurnar um varaflugvöllinn sem hafa farið fram hafa verið undir forustu samgrn. og samgrn. fer ekki með þau málefni sem tengjast varnarliðinu. En þá fyrst er nú orðið fjör í sambandi við varaflugvelli þegar þeir verða kannski orðnir sex í landinu. Ég er sammála hæstv. utanrrh. í þeim efnum að óski flugvél eftir því að fá að lenda verður henni sjálfsagt ekki sagt að fara í sjóinn af því að hún sé ekki farþegaflugvél. Mönnum verður sjálfsagt leyft að lenda til þess að bjarga lífi sínu.

Varðandi það sem hv. 11. þm. Reykv. sagði get ég ekki hér og nú sagt með hvaða hætti greiðslur fari fram - þá að því kemur að fjármagni verði varið til þess að gera varaflugvöll eða gera einhvern flugvöll að varaflugvelli. Þessum athugunum er ekki lokið. Hvort tveggja kemur til greina. Við endurskoðum á slíkri áætlun verði gert ráð fyrir sérstöku fjármagni ef sértekjurnar duga ekki til þess að ljúka verkinu eða Alþingi kýs aðrar leiðir í þeim efnum með sérstakri ályktun og þá sérstakri fjárveitingu á fjárlögum.