18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6517 í B-deild Alþingistíðinda. (4515)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ef ég einhvern tímann hef verið ruglaður eftir nokkra ræðu þá er það eftir síðustu ræðuna sem hæstv. samgrh. flutti og er tilefni til þess að harma að hann skyldi nokkurn tíma hafa farið úr utanrrn. því að maður með slíka hæfileika á að vera í diplomatíinu og hvergi annars staðar.

Ég er engu nær um það hvað hann var að fara, en hitt er annað mál að ég vildi gjarnan leggja fyrir hann spurningu.

Ég var nokkur ár, nokkur kjörtímabil, í flugráði. Það hefur verið talað um varaflugvelli síðan ég kom á þing, en það hefur ekkert orðið úr framkvæmdum. Það hefur alltaf verið talað um að sameina farþegaflug og herflug. Nú kvað það vera komið út úr myndinni að hafa herflugvelli. Ég fagna því vegna þess að samkvæmt lögum er flugmálastjóri Íslands yfirmaður flugmála og flugvalla, allra flugvalla á landinu, en hann hefur engan aðgang að þeim eina flugvelli sem er tengiliður við umheiminn, þ.e. Keflavíkurflugvelli, vegna þess að hann er að hluta til, skulum við segja, hernaðarflugvöllur.

Nú vil ég gjarnan fá að spyrja hæstv. ráðherra beint og fá skiljanleg svör til baka: Hvað er varaflugvöllur og hvaða þarfir eru tengdar flugvelli til þess að hann geti heitið varaflugvöllur? Hvernig á að reka hann með þeim þörfum sem varaflugvöllur krefst við þá litlu umferð sem hér verður um varaflugvöll, því hann er eins og orðið segir, varaflugvöllur? Það er ekki bara flugbrautin að hún sé nógu löng til þess að stærstu vélar geti lent og þungar farþegaflugvélar tekið sig á loft. Það er miklu meira í kringum flugþjónustuna sem þarf að vera en bara brautin sjálf. Þess vegna vil ég spyrja. Það er nauðsynlegt fyrir Alþingi og sérstaklega fjárveitingavaldið að vita: Hvað er varaflugvöllur? Hvað felst í hugtakinu í huga hæstv. samgrh.?