18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6517 í B-deild Alþingistíðinda. (4516)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hitti í raun og veru naglann á höfuðið með þessari spurningu. Það er nefnilega dálítið kúnstugt stundum að heyra ræðuhöld um varaflugvelli og varaflugvöllinn eins og það sé eitthvert alveg sérstakt fyrirbrigði, allt öðruvísi en allir aðrir flugvellir, og það eigi kannski að standa málað á brautina, varaflugvöllur, og hann megi ekki nota nema í algjörum varatilfellum. Auðvitað er varaflugvöllur bara venjulegur flugvöllur og því betur að hann sé sem mest notaður því þá fylgir því minni aukatilkostnaður að hann geti þjónað þessu varaflugvallarhlutverki.

Það sem hefur verið hálfhlægilegt í umræðunni um varaflugvallarmálið hefur auðvitað verið sú hugsun ýmissa að það væri skynsamleg ráðstöfun að byggja einhvers staðar, helst úti í mörkinni, varaflugvöll sem væri sem minnst notaður, þar sem væri sem allra minnst umferð, og hann stæði svo fullbúinn með slökkviliði og mannafla á vöktum og öllum „græjum“ allt árið til að taka á móti þeim tveimur, þremur tilfellum kannski á ári sem ekki er lendandi hér á suðvesturhorninu. Auðvitað er það þannig að eftir því sem sá flugvöllur, sem á að vera aðalflugvöllur landsins, er meira notaður, um hann er meiri umferð, þar er meiri mannafli, þar er betur búið slökkvilið o.s.frv., þeim mun hagkvæmara er þetta. Þar stendur auðvitað einn flugvöllur upp úr, þ.e. Akureyrarflugvöllur með menntað starfsfólk á vöktum, með öflugt slökkvilið, með farþegaumferð talsvert á annað hundrað þúsund á hverju ári og með tugi lendinga og flugtaka á hverjum einasta degi sem fært er. Þetta er auðskilið mál. Næstir koma svo í röðinni þeir flugvellir aðrir þar sem er næstmest umferð, eins og á Egilsstöðum og síðan t.d. í Vestmannaeyjum ef þar væri raunhæft að hugsa sér varaflugvöll sem er reyndar ekki vegna þess að veðurfarslega eru Vestmannaeyjar allt of nálægt Keflavíkurflugvelli auk þess sem aðstæður eru þar ekki fyrir hendi.

En ég vil aðeins undirstrika að þær upplýsingar sem komu fram í svari hæstv. samgrh. fyrir nokkrum dögum á Alþingi varðandi kostnað við að lagfæra Akureyrarflugvöll eða breyta uppbyggingarhugmyndum á Egilsstöðum þannig að þessi staður gæti þjónað þessu varaflugvallarhlutverki, þær kostnaðartölur miðuðu við að DC-8 flugvélar eða aðrar slíkar væru í notkun og það kostar aukalega 300–400 m lengingu á flugbraut sem ekki þarf að gera miðað við Boeing-flugvélar Flugleiða og Arnarflugs og miðað við þær nýju flugvélar t.d. sem Flugleiðir fá næsta vor. Það eru allar líkur á því að öll endurnýjun íslenska flugflotans verði innan þessara marka vegna þess að þróunin er einfaldlega þannig í gerð flugvéla að þær eru að verða þannig byggðar að þær þurfa styttri flugbraut. Orustuflugvélatýpur eins og DC-átturnar eru í raun, og með þann háa innkomuhraða sem þær hafa, að hverfa úr notkun. Þess vegna eru varaflugvallarmennirnir að falla á tíma. Þeir eru nefnilega að falla á tíma því að um leið og verður búið að taka síðustu DC-8 þotuna úr notkun verða engin rök til þess byggja hér 2300 - ég tala nú ekki um 3000 m flugbraut. En nefndirnar sem hafa verið að starfa hjá þeim hæstv. ráðherrum. samgrh. og utanrrh., hvað eru þær að gera? Þær eru að gera úttekt á aðstæðum miðað við 3000 m flugbraut. Til hvers? Auðvitað til þess að byggja herflugvöll vegna þess að það þarf engin íslensk flugvél meira en 2300 m braut. Þar er svo augljóslega verið að reyna að skýla sér á bak við þarfir íslensku flugfélaganna með þessa herflugvallarhugmynd að það sér hvert mannsbarn sem hugleiðir málið. Sem betur fer eru þessar hugmyndir dauðar og innan tíðar liggur væntanlega fyrir að 2000 m flugbrautir verða nóg að því gefnu að þar sé nægjanlegur viðbúnaður fyrir hendi og nægjanleg tæki til þess að þá flugvelli verður hægt að skíra varaflugvelli. Það breytir engu um eðli þeirra og þeir verða vonandi í notkun dag frá degi engu að síður, en þá verður þetta mál sem sagt úr sögunni og kostnaður upp á 100–120 millj. yrði þá kannski kominn ofan í 40–70 millj. í formi þeirra úrbóta sem gera þyrfti á Akureyri og Egilsstöðum og svo kannski í framtíðinni áfram á Sauðárkróki, Húsavík og víðar til þess að þeir flugvellir verði nægjanlega vel búnir til að geta sinnt slíkum verkefnum.

En varðandi svo aftur fjármögnunina sem hæstv. samgrh. vék að er það vissulega fagnaðarefni að tekjustofnarnir, hinir mörkuðu tekjustofnar skili þó svo miklum tekjum að það líti út fyrir að unnt verði að halda framkvæmdaáætluninni óbrenglaðri. En það hefði eftir sem áður verið mjög ánægjulegt að sjá sambærilega fjárhæð koma úr ríkissjóði og hraða þá framkvæmdum eða eiga einhverja aura afgangs í sérverkefni sem liggja fyrir og þarf að ráðast í innan tíðar.