18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6519 í B-deild Alþingistíðinda. (4518)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég get ekki hér og nú gert eitthvað til þess að hv. þm. skilji það sem ég sagði áðan, en ég þakka hins vegar traustið sem kom fram í því sem hann sagði. Varaflugvöllur, skilgreiningin á því fer að sjálfsögðu eftir því fyrir hvers konar flugvöll viðkomandi flugvöllur á að vera varaflugvöllur. En það sem við höfum verið hér að tala um er að eiga flugvöll sem getur sinnt þeirri flugþjónustu sem okkar aðalflugvöllur gerir. Það byggist á veðurfræðilegum athugunum og aðstæðum, en ég held að 2400 m löng braut þurfi að vera fyrir hendi og það kom fram í mínu svari.

Það er verið að athuga hvar þessar aðstæður eru. En minnki flugvélarnar e.t.v., eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði, þarf auðvitað styttri brautir o.s.frv. og aðstæðurnar breytast. Þetta er allt saman breytilegt eftir því hvers konar tæki það eru sem við erum að fjalla um. Það eru sérfræðingarnir, sem enn hafa ekki lokið sinni skoðun, sem við hljótum að horfa til þegar þeir hafa komið fram með tillögur sínar.