18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6522 í B-deild Alþingistíðinda. (4524)

Óvissa um ráðningu kennara

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir frumkvæði hans til að taka upp þetta brýna mál sem hlýtur að valda okkur öllum áhyggjum. Ég lagði reyndar inn fsp. um málefni kennara sl. fimmtudag og var því að vonum nokkuð undrandi að það skyldi nú tekið upp utan dagskrár, en fyrir smámisskilning mun fsp. ekki hafa komið fyrir augu forseta Sþ. enn þá.

Önnur fsp. mín er til menntmrh. og hljóðar svo, með leyfi forseta: Hversu margar stöður kennara og skólastjóra munu fyrirsjáanlega losna annars vegar við grunnskóla, hins vegar við framhaldsskóla nú í vor og hverjar eru horfur með ráðningu?

Hin er til forsrh. um deilur kennarasamtaka og ríkisins: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að taka á þeim deilum sem nú eru uppi á milli samtaka kennara og ríkisins?

Væntanlega munu þær liggja fyrir sem prentað þskj. á morgun, hljóti þær samþykki forseta.

Það er mjög brýnt að taka þessi mál fyrir og ræða í fullri alvöru. Kjaradeilur kennara við ríkisvaldið eru orðnar langvinnar og eru farnar að hefta skólastarf víða í landinu. Ef svo fer sem horfir óttast ég að þessi linnulausa kjarabarátta gæti endað með hljóðlátri byltingu kennara sem fælist í því að þeir muni endanlega segja skilið við kennarastarfið.

Við eigum margar skýrslur um störf kennarans og kjör frá sl. árum, þar á meðal skýrslur með niðurstöðum sem ekki eru ágreiningsefni milli menntmrn. og kennara og reyndar unnar í sameiningu beggja aðila. Skýrsla OECD hefur einnig verið mikið rædd. Rauði þráðurinn í öllum skýrslunum er að bæta þurfi kjör kennara. Við þurfum ekki fleiri skýrslur. Nú þarf að kippa þessum málum í lag í eitt skipti fyrir öll vonandi.

Í skýrslu OECD kemur einnig fram að mikill meiri hluti kennara sem ljúka kennaraprófi eða allt upp í 70% hefji aldrei kennslustörf eða hverfi fljótlega frá kennslu til annarra starfa. Halda menn að þetta lagist ef ástandið verður áfram eins og nú blasir við?