05.11.1987
Efri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (453)

68. mál, almenn hegningarlög

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með flutning þessa máls og ég er sammála hv. flm. að það er sannarlega tímabært að taka á þessu máli. Eins og hún nefndi eru Lög sem um þessi mál gilda síðan 1940. Endurskoðun þeirra er ekki síst brýn og nauðsynleg vegna þess að þau mál er lögin varða hafa komist svo mjög í umræðu á seinni árum og rannsókn þeirra hefur leitt í ljós að brot á þessum lögum eru mun tíðari en menn grunaði áður. Á ég þá bæði við nauðganir og sifskaparbrot, en dulin brotastarfsemi er snar þáttur í þeim brotum.

Ég tel bæði eðlilegt og sjálfsagt að samræma refsiákvæði og þá um leið refsivernd þeirra sem neyddir eru til samræðis gegn vilja sínum og finnst gilda sama hvort sem um er að ræða persónur af gagnstæðu eða sama kyni. Einnig þykir mér eðlilegt að leggja að jöfnu kynmök af öðru tagi og hefðbundið samræði. Það er vitað af rannsóknum sem gerðar hafa verið að í tilteknum fjölda nauðgana, og eru þessar rannsóknir bæði erlendar og hérlendar, t.d. athugun sem ég hef unnið á vegum þeirrar nauðgunarnefndar sem hv. flm. nefndi, þá hefur nauðgari samræði við brotaþola um önnur líkamsop en leggöng og getur á þann hátt eða annan fengið kynferðislega fullnægingu. En ofbeldisverknaðurinn getur haft jafnalvarleg áhrif á brotaþola þó að samræði fari ekki fram að hefðbundnum hætti. Það má heldur ekki gleyma því að rannsóknirnar hafa enn fremur sýnt að afdrifaríkustu afleiðingar nauðgunar eru einmitt hið andlega áfall sem brotaþoli verður fyrir. Flestum nauðgunum, a.m.k. hérlendis, fylgir ekki gróft líkamlegt ofbeldi. Það er því oftast og fyrst og fremst hið andlega áfall og afleiðingar þess sem verða flestum brotaþolum illbærastar og erfiðastar viðfangs. Af þessum sökum tel ég einmitt mjög nauðsynlegt að leggja að jöfnu hefðbundið samræði og svokallað samræði af öðru tagi.

Hvað varðar eyðni er vissulega rétt að það er viss hætta fólgin í smitun ef um nauðgun er að ræða og kannski ekki síst þegar um er að ræða samkynhneigða einstaklinga og þá fyrst og fremst karlmenn, en í þessum efnum gildir auðvitað það sama um allar tegundir nauðgunar og gerir brotið þess vegna áhættusamara og mun alvarlegra.

Ég vildi líka víkja orðum að heildarmynd þeirra afbrota sem hv. flm. minntist á. Hér er um að ræða félagslegt vandamál einnig og e.t.v. sjúkleika eða sköddun þar sem í er fólginn vítahringur. Sá er beittur hefur verið ofbeldi í bernsku hefur tilhneigingu til þess að beita aðra ofbeldi þegar hann vex upp. Þannig er mjög nauðsynlegt, auk þess sem þarf að laga löggjöfina, að taka á þessum vandamálum á heildstæðan hátt.

Ég vildi lítillega geta um þá nefnd sem hv. flm. minnti á. Hún var sett á laggirnar í kjölfar þál. Kvennalistans sem samþykkt var á Alþingi 22. maí 1984. Þessi þál. fjallaði um könnun á rannsókn og meðferð nauðgunarmála og dómsmrh. skipaði fimm manna nefnd í júlí 1984 til að sinna þessu verkefni. Í nefndinni hafa átt sæti Ásdís Rafnar lögfræðingur, Guðrún Agnarsdóttir læknir og alþm., Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur og Sigrún Júlíusdóttir yfirfélagsráðgjafi. Jónatan Þórmundsson á einnig sæti í nefndinni og hefur verið formaður hennar.

Þessi nefnd hefur nú unnið að nokkuð ítarlegum könnunum. Markmið nefndarinnar voru í raun tvíþætt. Það var í fyrsta lagi að gera fræðilega könnun á ákveðnum staðreyndum og síðan að sinna tillögugerð á þeim grundvelli. Það má segja að nefndin sé um það bil að ljúka störfum. Ég reikna með að hún skili af sér í byrjun næsta árs og þá munu fylgja bæði ítarlegar kannanir með áliti nefndarinnar og einnig tillögugerð þar sem gerðar eru tillögur til úrbóta.

Í þessum tillögum verður einmitt um að ræða breytingar á löggjöf og ég hygg að lagt verði til að ekki einungis verði um að ræða þær greinar er hv. flm. nefndi, þ.e. greinarnar í XXII. kafla frá 194.199. gr., heldur hygg ég að það verði lagt til að fram fari endurskoðun á þessum köflum báðum, XXI. og XXII, í það minnsta XXII. kafla. Mér finnst að þær hugmyndir sem fram koma í því frv. sem hér var mælt fyrir eigi fyllsta rétt á sér og séu mjög gagnlegar hvort sem frv. nær fram að ganga áður en þessi endurskoðun fer fram eða verður hluti af þeirri endurskoðun. En ég styð þær hugmyndir sem í frv. koma fram og vona að þær fái eðlilegan framgang hér í þinginu.

Síðan langar mig, af því að tilefni gefst hér, að minna á það að í kvöld er haldinn fræðslufundur á vegum Orators, félags laganema, í Lögbergi kl. 8 og þar verður einmitt rædd meðferð kynferðisafbrotamála á Íslandi og spurt hvort breytinga sé þörf. Ég vek athygli hv. þm. á þessum fundi.