19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6528 í B-deild Alþingistíðinda. (4534)

441. mál, ábúðarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á ábúðarlögum á þskj. 791.

Efni frv. fjallar um það að í 15. gr. ábúðarlaganna komi ný mgr. sem hljóðar á þessa leið:

„Þá er ábúanda ríkisjarðar heimilt að veðsetja ábýlisjörð sína til tryggingar lánum sem hann á kost á í Búnaðarbanka Íslands, til bústofnskaupa.“

Samkvæmt núgildandi ábúðarlögum hefur ábúandinn heimild til að veðsetja ríkisjörð til framkvæmda á bújörðinni, en hins vegar ekki ótvírætt til bústofnskaupa. Þetta hefur verið leyst áður þannig að sveitarfélag hefur veitt ábyrgð sem Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur metið gilda. Nú er hins vegar búið að breyta sveitarstjórnarlögum á þann veg að slík ábyrgð er sveitarfélagi ekki lengur heimil, en þá lenda ábúendur ríkisjarða í verri aðstöðu en aðrir bændur og má segja að í sumum tilvikum geti þetta beinlínis sett mönnum stólinn fyrir dyrnar hvað snertir ábúð slíkra jarða. Þetta hefur komið upp núna sérstaklega vegna þess vanda sem refabændur hafa lent í við verðfall á refaskinnum, þegar þeir hafa viljað breyta til og fá minka í stað refa, að einhverjum hluta til a.m.k., og nota þannig fjárfestingar sem fólgnar eru í byggingum á jörðinni. Af þeim sökum er frv. flutt og þess vænst að það geti fengið greiða afgreiðslu í gegnum hv. deild, en ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.