19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6528 í B-deild Alþingistíðinda. (4536)

445. mál, eiturefni og hættuleg efni

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um eiturefni og hættuleg efni á þskj. 795, 445. máli Ed. Með lögum nr. 85/1968 var í fyrsta sinn kveðið á um eiturefni og hættuleg efni á heildstæðan hátt hér á landi. Hefur verið starfað eftir þessum lögum síðan hvað snertir flokkun, merkingar, tilbúning, innflutning og dreifingu eiturefna og hættulegra efna. Í lögunum er m.a. að finna fyrstu ákvæði er taka á iðnaðarmengun hér á landi þannig að lögin voru á vissan hátt afsprengi þeirrar umhverfismálaumræðu sem hófst hér á ofanverðum sjöunda áratugnum. Allt fram að gildistöku nýrra laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit 1. ágúst 1982 voru lög um eiturefni og hættuleg efni grundvallarlög á sviði mengunarvarnaréttar og fyrsta reglugerð um varnir gegn mengun af völdum eiturefna og hættulegra efna, er sett var 1972, var byggð á þessum lögum.

Í lögunum er greint á milli eiturefna annars vegar og hættulegra efna hins vegar og gilda um þessi efni mismunandi ákvæði. Það er þó sameiginlegt að eiturefnanefnd sem sett var á laggirnar með lögunum frá 1968 gerir tillögur um flokkun efna á lista annars vegar yfir eiturefni og hins vegar yfir hættuleg efni. Öll meðferð eiturefna lýtur miklu strangari reglum en meðferð hættulegra efna, ekki síst hvað snertir innflutning og dreifingu. Sala hættulegra efna er hins vegar háð ákveðnum skilyrðum sem ekki eru eins ströng.

Á undanförnum árum hafa verið sett margs konar lög er beinlínis kveða á um ýmiss konar starfsemi er lýtur að eiturefnum og hættulegum efnum, ekki síst eftirlit með þessum efnum. Má hér nefna lög nr. 46 1980, um Vinnueftirlit ríkisins, lög nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, þar sem mælt er fyrir um heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og starfsemi Hollustuverndar ríkisins og lög nr. 108/1984, um Lyfjaeftirlit ríkisins. Einnig má nefna lög nr. 59 1983, um heilbrigðisþjónustu, þar sem mælt er fyrir um aðra skipan læknishéraða og starfsemi héraðslækna en í gildi voru þegar gildandi eiturefnalög voru sett.

Þar að auki hefur eftir gildistöku laganna tekið til starfa sérstakt heilbrigðisráðuneyti en þessi mál voru áður vistuð í dómsmrn. og framkvæmdin að verulegu leyti falin embætti landlæknis þótt framkvæmdin hafi á undanförnum árum mótast eftir öðrum leiðum.

Með bréfi, dags. 13. sept. 1984, skipaði þáv. heilbr.- og trmrh., Matthías Bjarnason, nefnd sem var falið að endurskoða lög um eiturefni og hættuleg efni nr. 85/1968, með síðari breytingum, ekki síst með hliðsjón af því sem áður hefur verið nefnt. Nefndinni var hins vegar ekki ætlað að gera tillögur um skipan þessara mála innan matvælasviðsins þar sem hugmyndir eru uppi um það að kveða sérstaklega á um það í sérlöggjöf um matvæll og er ætlunin að ýta því starfi úr vör á þessu ári.

Í nefndinni áttu sæti Ingolf J. Petersen, deildarstjóri lyfjamáladeildar heilbr.- og trmrn., en hann var jafnframt formaður nefndarinnar, Ólafur Pétursson, forstöðumaður mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins, og dr. med. Þorkell Jóhannesson prófessor, formaður eiturefnanefndar.

Nefndin skilaði áliti til ráðuneytisins á síðasta ári í formi frv. til laga ásamt athugasemdum. Nefndin var sammála um að sérstaklega þyrfti að lagfæra lög um eiturefni og hættuleg efni vegna þeirra breytinga sem orðið hafa frá gildistöku þeirra 1968, ekki síst með tilkomu þeirra laga sem ég áður nefndi. Enn fremur þyrfti að taka á þeim þáttum sem snerta landlæknisembættið, en landlæknir fór með umsjón málaflokksins þegar gildandi lög voru samþykkt. Nefndin er þeirrar skoðunar að lög um eiturefni og hættuleg efni eigi áfram að vera rammalög þar sem kveðið er á um framkvæmdina að verulegu leyti í reglugerðum.

Að fengnum tillögum nefndarinnar sendi ráðuneytið frv. til umsagnar ýmissa aðila, m.a. Vinnueftirlits ríkisins, Hollustuverndar ríkisins og Lyfjaeftirlits ríkisins, er hafa með að gera eftirlit á þessu sviði í einni eða annarri mynd. Að fenginni umsögn þessara aðila fóru starfsmenn ráðuneytisins ítarlega yfir lagafrv. og athugasemdir og reyndu að samræma athugasemdirnar og færa þær inn í lagafrv. eftir því sem ástæða þótti til.

Frv. það sem hér liggur frammi er að langmestu leyti samhljóða tillögum endurskoðunarnefndarinnar. Þó hefur verið gerð ein veigamikil breyting frá tillögum nefndarinnar og snertir hún ákvæði 2. gr. frv. þar sem lagt er til varðandi flokkun efna á lista yfir eiturefni og hættuleg efni, að flokkunin fari eftir skaðlegum áhrifum og notkunarsviði efnanna en ekki eftir fyrirframgefnum flokkunarreglum eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Er þetta gert fyrst og fremst með það fyrir augum að hægt verði að kveða á um flokkun, merkingu og bann og takmörkun við notkun í einni og sömu reglugerð og á þann hátt farið inn á sömu braut og Efnahagsbandalag Evrópu og önnur Norðurlönd hafa mótað. Með þessu er lagt til að reynt verði að samræma íslenska flokkunar- og merkingarkerfið og kerfi Efnahagsbandalagsins og annarra Norðurlanda, en íslensk stjórnvöld hafa þegar skuldbundið sig til þess að samræma þessar reglur, ekki síst í norrænu samstarfi. Samræmd flokkun og samræmdar merkingar hljóta að teljast mikill kostur auk þess sem þær auðvelda eftirlit með innflutningi, framleiðslu og dreifingu á eiturefnum og hættulegum efnum. Jafnframt er þess að geta að eftirlitsaðilar, þ.e. Vinnueftirlit ríkisins, Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, Hollustuvernd ríkisins og Lyfjaeftirlitið telja fyllilega tímabært að hér á landi verði teknar upp hliðstæðar merkingar og hliðstæðar flokkunarreglur og gilda í nágrannalöndunum.

Ég vil geta þess sérstaklega að sem stendur er unnið að reglugerð hér að lútandi og er reglugerðin reyndar tilbúin, en hún tekur mið af breyttum lögum og sömu reglum og gilda í nágrannalöndunum en tekur að sjálfsögðu ekki gildi eða verður ekki gefin út fyrr en og ef eða þegar frv. hefur orðið að lögum.

Varðandi einstaka efnisþætti frv. vil ég taka eftirfarandi fram: Ekki þykir ástæða til þess að breyta flokkun efna í tvo höfuðflokka, þ.e. annars vegar eiturefnin og hins vegar hættuleg efni. Þetta byggist á því að eiturefnin, sbr. II. kafla laganna, eru ekki í frjálsri sölu, en hættuleg efni, sbr. Ill. kafla, eru það hins vegar nema annað sé sérstaklega ákveðið. Eiturefni eru skaðvænlegri en hættuleg efni og líklegri til þess að valda eitrun. Því eru þau yfirleitt ekki látin út nema til þeirra sem hafa tilskilin leyfisskírteini og sala þeirra og innflutningur er háður sérstökum skilyrðum. Slík fyrirmæli gilda hins vegar yfirleitt ekki um hættuleg efni nema í undantekningartilvikum.

Varðandi starfsemi eiturefnanefndar er gert ráð fyrir að hún starfi áfram en verði skipuð sex mönnum í stað fjögurra og fimm þegar fjallað er um notkun eiturefna í landbúnaði. Ástæða fyrir fjölgun nefndarmanna er sú að gert er ráð fyrir því að fulltrúi landbrn., sem á að hafa sérþekkingu á notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju, verði fastur fulltrúi í nefndinni í staðinn fyrir að vera lausafulltrúi og eingöngu til taks þegar fjallað er um notkun þessara efna í landbúnaði og garðyrkju. Enn fremur er bætt við nefndarmanni með efnafræðilega þekkingu þannig að annar skal hafa fræðilega þekkingu en hinn tæknilega.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir einum aðila en ekki gert upp á milli þekkingar. Auk þess er lagt til að eiturefnanefnd starfi framvegis meira sem sérfræðinefnd og að störf hennar verði minna í formi stofnunar, en töluverðrar tilhneigingar hefur gætt á undanförnum árum til þess að fela nefndinni störf, þar með talin eftirlitsstörf. Öll skrifstofuvinna og eftirlitsvinna er í dag í höndum eftirlitsstofnana sem þegar hafa verið nefndar. Er því ekki ástæða til þess að fela nefndinni það hlutverk. Auk þess eru lagðar auknar upplýsingaskyldur á nefndina og bætt inn málaflokkum sem ástæða er til að nefndin fjalli um, t.d. að gera tillögur um viðbrögð við slysum af völdum eiturefna og hættulegra efna svo að dæmi sé tekið.

Varðandi útgáfu leyfisskírteina, svokallaðra eiturbeiðna, er lagt til í frv. að heilbrigðisfulltrúar sveitarfélaganna gefi út eiturbeiðnir í stað lögreglustjóra, enda er þannig búið að heilbrigðiseftirliti í dag að heilbrigðisfulltrúar þurfa sérstakt leyfi til starfa og liggur að baki því viðurkennd sérþekking. Það er nýmæli að leitað skuli umsagnar eiturefnanefndar áður en leyfi er gefið út. Vísast nánar um þetta til 7. gr. frv.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að sé veitt undanþága frá ákvæðum laganna skuli hún auglýst sérstaklega, þ.e. megi selja efnin á frjálsum markaði, t.d. í almennum verslunum. Reynslan hefur sýnt að ekki er þörf fyrir þessa undanþágu og er hún því felld niður, en í stað þess er látið nægja að heimila sölu á frjálsum markaði á tilteknum varningi er inniheldur eiturefni. Þetta fyrirkomulag mun auðvelda framkvæmd laganna verulega. Rétt er að vekja athygli á því að í 9. gr. er að finna nýmæli í samræmi við það sem ég hef áður sagt um að samræma flokkun og merkingarreglur, en þar segir að íslensk eiturmerki skuli vera í samræmi við hliðstæð eiturmerki í nágrannalöndunum svo sem kostur er.

Í 12. gr. frv. er að finna heimild fyrir Hollustuvernd ríkisins til að setja reglur um varðveislu hættulegra efna í matvöruverslunum og öðrum verslunum að höfðu samráði við eiturefnanefnd. Þetta er gert til þess að tryggja að hættuleg efni séu ekki höfð innan um matvæli og þess háttar vörur. Sem dæmi um slík efni má nefna alls konar hreinsi- og þvottaefni.

Í 13. gr. er að finna nýmæli sem ætlað er að sporna við þeirri hættu er fylgir notkun lífrænna leysiefna. Lífræn leysiefni eru mikið notuð til þess að leysa ýmis efni og efnasambönd sem torleyst eru í vatni, svo sem í lími, í málningu og lökkum og til eldsneytis. Notagildi þessara lífrænu leysiefna er talið mjög mikið, en eituráhrif margra eru að sama skapi lítið rannsökuð. Eiturefnanefnd er falið að reyna að stýra notkun þessara efna þannig að hættuminni efni verði notuð í stað hinna hættumeiri og er þar sérstaklega höfð í huga snefun eða sniff unglinga, sbr. nánar í 13. gr. frv.

Þótt ekki hafi það verið hlutverk endurskoðunarnefndarinnar að gera tillögur um skipan mála varðandi eiturefni og hættuleg efni innan matvælasviðsins var eigi að síður talið ráðlegt að viðhalda gildandi ákvæðum í lögum um eiturefni og hættuleg efni uns ný lög um notkun eiturefna og hættulegra efna í matvælum eða mengun matvæla af völdum slíkra efna hafa verið sett, sbr. það sem ég sagði hér áður um setningu nýrra laga um tilbúning og dreifingu matvæla. Vísast enn fremur í ákvæði til bráðabirgða hvað þetta snertir.

Rétt er að vekja athygli á nýmæli í 19. gr. þar sem lagt er til að eiturefnanefnd verði falið að fylgjast með upplýsingum um rannsóknir er varða krabbamein eða illkynja frumubreytingar í mönnum og dýrum af völdum eiturefna og hættulegra efna. Enn fremur er rétt að vekja athygli á nýmælum í 21. gr. þar sem mælt er fyrir um það að merkja skuli farartæki er flytja eiturefni og hættuleg efni, en slíkur flutningur hefur færst í vöxt á undanförnum árum og má þar sem dæmi nefna tankbíla garðúðunarmanna.

Eins og þegar hefur komið fram í máli mínu er ekki reiknað með því í frv. að eiturefnanefnd verði eftirlitsaðili með framkvæmd laganna. Þess í stað er gert ráð fyrir að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna komi í auknum mæli inn sem eftirlitsaðili og að öðru leyti er gert ráð fyrir þeim eftirlitsaðilum sem starfa að þessu eftirliti í dag eins og Vinnueftirlitinu innan vinnustaða, Lyfjaeftirliti ríkisins varðandi lyfjaframleiðslu fyrirtækja og lyfjabúðir og Hollustuvernd ríkisins. Einnig geta þar komið til lögreglustjórar og embættislæknar, þ.e. héraðslæknar og heilsugæslulæknar. Í frv. sjálfu er ekki fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði eftirlitsaðila, heldur er skírskotað til þeirra laga sem gilda um hinar einstöku eftirlitsstofnanir, en þau hef ég nefnt hér áður.

Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að haldið verði í skilgreiningarnar eiturefni og hættuleg efni. Jafnframt er gert ráð fyrir að nánari ákvæði um flokkun verði sett í reglugerð að fengnum tillögum eiturefnanefndar. Nú liggur ljóst fyrir að flokkun með reglugerð getur tekið langan tíma og er því lagt til í 24. gr. frv. að eiturefnanefnd geti einhliða, að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins, flokkað á lista og kveðið á um notkun eða bann við notkun efna eða efnasamsetninga sem uppvís verða eða grunur leikur á að geti við venjulega notkun falið í sér óvænta hættu á eitrun eða hættu fyrir heilsu manna eða dýra. Á þennan hátt á að vera hægt að taka á öllum málum strax og hættan verður ljós eða grunur leikur á að um hættu geti verið að ræða. Gert er ráð fyrir því að ráðherra staðfesti ákvörðun eiturefnanefndar í reglugerð innan árs frá því að ákvörðun er tekin, annars falli hlutaðeigandi efni eða efnasamsetning sjálfkrafa út af lista.

Í 27. gr. er lagt til að lögfest verði ákvæði um samstarfsnefnd eftirlitsaðila með framkvæmd ákvæða laganna og er höfð til hliðsjónar skipan núverandi samstarfsnefndar sem starfar í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 238/1986, um eftirlit með framkvæmd ákvæða laga um eiturefni og hættuleg efni, en til þessa nefndarstarfs var formlega stofnað með reglugerð nr. 455/1975, með sama heiti. Í þessari nefnd eiga sæti auk fulltrúa heilbr.- og trmrh. fulltrúi eiturefnanefndar, fulltrúi Hollustuverndar ríkisins, fulltrúi Lyfjaeftirlits ríkisins og fulltrúi Vinnueftirlits ríkisins. Er hlutverk nefndarinnar að fjalla um verkaskiptingu milli eftirlitsaðila í takmarkatilfellum og um samræmingu aðgerða. Gert er ráð fyrir að eiturefnanefnd sem nú situr starfi út yfirstandandi ár þótt lögin öðlist gildi frá og með 1. júlí á þessu ári, nái þau fram að ganga. Helgast þetta af því að töluverðan tíma getur tekið að endurskipa í nefndina, enda er ekki hlaupið að því að fá til þá sérþekkingu sem krafist er lögum samkvæmt.

Ég vil að lokum geta þess að á fundi samstarfsnefndar um eftirlit með framkvæmd ákvæða laga nr. 851I968, um eiturefni og hættuleg efni, sem starfar samkvæmt reglugerð nr. 238/1986 og ég fjallaði um hér á undan, var nýlega samþykkt að beina þeim tilmælum til mín að í frv. til laga um eiturefni og hættuleg efni verði sett ákvæði sem heimila að banna megi afhendingu tiltekinna hættulegra efna nema viðkomandi uppfylli sömu skilyrði og gilda um útlát eiturefna. Samþykkt þessi var gerð í framhaldi af því að upp hafði komist um framleiðslu á amfetamíni í heimahúsi. Lyfjaeftirlit ríkisins var kallað til aðstoðar við rannsókn málsins og hefur undir höndum lista yfir efni sem notuð voru við framleiðsluna og voru þar á meðal tvö efni á lista 1, þ.e. sterkt eitur, eitt efni á lista 2, þ.e. efni sem flokkað er undir og kallað eitur, og fjölmörg á listum 3 og 4 en þeir fjalla um hættuleg efni. Efni þessi höfðu fengist keypt hjá lyfjaheildsölum og nokkrum öðrum aðilum án þess að athugasemd væri gerð og er ljóst að sala efna á lista 1 og 2 brýtur í bága við ákvæði gildandi laga og reglugerða. Telur nefndin brýnt að sett verði inn í lög um eiturefni og hættuleg efni heimild sem veitir leyfi til þess að takmarka sölu á hættulegum efnum til einstaklinga. Ég kem þessum sjónarmiðum hér með á framfæri við heilbr.- og trn. og bið hana að kanna málið sérstaklega, en ekki er gert ráð fyrir þessum takmörkunum í frv. þar sem sú athugasemd kom seinna fram eða eftir að frv. hafði verið lagt fram hér á þingi. Telst mér til að þessi ákvæði varðandi takmörkun á útlátum hættulegra efna ættu heima í 11. gr.

Þótt frv. þetta sé seint fram komið held ég að í því sé ekki að finna nein veigamikil atriði sem gætu valdið deilum. Hér er um að ræða tillögur um breytingar á lögum sem flestar leiða af breytingum í þjóðfélaginu á þeim 20 árum sem lögin hafa verið í gildi og breytingar á ýmiss konar sérlöggjöf sem sett hefur verið á þeim tíma auk þess sem breytingarnar styðjast við skuldbindingar íslenskra stjórnvalda í alþjóðasamstarfi. Ég tel brýnt að frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi, ekki síst til þess að skapa grundvöll til setningar reglugerðar um merkingar, flokkun, tilbúning og fleira þegar í hlut eiga vörur er innihalda eiturefni og hættuleg efni þannig að hér gildi svipaðar reglur og í nágrannalöndunum. Auk þess minni ég á að það er þýðingarmikið að frv. fái afgreiðslu í tengslum við frv. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit sem einnig er til meðferðar hér í hv. deild.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. með beiðni um að nefndin hraði störfum svo að frv. geti orðið að lögum á yfirstandandi þingi.