19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6534 í B-deild Alþingistíðinda. (4537)

445. mál, eiturefni og hættuleg efni

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð um þetta mikilvæga mál sem hæstv. ráðherra hefur nýlokið að mæla fyrir. Það er enginn vafi á því að hér er hreyft mjög brýnu máli sem í heild sinni varðar sívaxandi vanda í okkar þjóðfélagi, þ.e. meðferð eiturefna og hættulegra efna. Og hefur reyndar lengi verið beðið eftir viðhlítandi úrræðum í þeim efnum. Áður framlagt frv. á þessu þingi um breytingu á lögum um hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit hefur verið til umfjöllunar í heilbr.- og trn. þessarar deildar nú um nokkurn tíma. Þar er um að ræða ýmsar kerfisbreytingar svo og betrumbætur á þeim lögum og snar þáttur í þeim breytingum sem þar er verið að gera varðar einmitt meðferð eiturefna og annarra mengunarvalda. Ég verð aðeins að taka það fram við hæstv. ráðherra að mér þykir reyndar mjög miður að þetta frv. sem hér er til umræðu skyldi ekki hafa komið fram fyrr og þess vegna fengið umfjöllun og meðhöndlun í nefndinni jafnhliða hinu frv. vegna þess að þau eru svo nátengd. Það hefði flýtt mjög fyrir umfjöllun frv. um hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit, hygg ég, því að það er mikill áhugi á því í nefndinni að afgreiða það sem best megi vera og tryggja að þessum málaflokki verði sinnt í framtíðinni bæði hvað varðar endurskipulagningu á starfseminni og ekki síst hvað varðar fjármögnun hennar. Þar hefur aðallega vantað að nógu vel væri gert hingað til.

Ég legg áherslu á og vona að þessi mál tefjist ekki úr hömlu, en hins vegar hefði verið mun betra að fá þetta frv. miklu fyrr þannig að við hefðum getað fjallað betur um málin bæði í nefndinni.