19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6536 í B-deild Alþingistíðinda. (4541)

448. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir á þskj. 798 um breytingu á 81. gr. laga nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins, fjallar um breytingu á kaflanum um byggingarsamvinnufélög. Breyting sú sem hér er lögð til að gerð verði felur í sér að einstaka byggingarflokkum í byggingarsamvinnufélögum verði heimilað að segja sig úr félaginu þegar tengsl íbúðareigenda við félagið eru orðin lítil.

Efni þess ákvæðis sem hér er lagt til að breytt verði hefur staðið óbreytt frá fyrstu tíð, bæði á meðan lögin um byggingarsamvinnufélög voru sjálfstæð lög og einnig eftir að þau voru felld inn í lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þannig tekur 81. gr. laga um Húsnæðisstofnun ríkisins mið af þeim tímum þegar byggingarsamvinnufélög áttu kost á að gefa út skuldabréf með ríkisábyrgð. Eðlilegt var, meðan þessi háttur var viðhafður og heimildin notuð, að byggjendur gætu ekki hvenær sem þeim datt í hug eða það þjónaði hagsmunum þeirra sagt skilið við byggingarsamvinnufélagið, a.m.k. ekki fyrr en full skil höfðu verið gerð á slíkum skuldum. Fjármögnun húsnæðis á eins og kunnugt er sér stað með allt öðrum hætti nú á dögum. Það má því segja að umrædd ákvæði laganna séu orðin eins konar eftirlegukind sem láðst hefur að færa til nútímahorfs.

Þegar íbúðareigandi, sem byggt hefur íbúð á vegum byggingarsamvinnufélags, hefur staðið skil á öllum sínum fjárhagslegu skuldbindingum gagnvart félaginu má segja að sameiginlegir hagsmunir hans og félagsins séu ekki lengur til staðar nema sá hinn sami hugsi sér að byggja aftur á vegum félagsins. Það sýnist því ekki þjóna neinum tilgangi að halda í lagafyrirmæli sem þvinga fólk til veru í félagsskap sem það finnur ekki sjálft að hafi neitt gildi fyrir sig, aðeins vafstur og fyrirhöfn við það að félagið falli formlega frá forkaupsrétti við hver eigendaskipti á viðkomandi íbúð.

Rétt þykir að nokkur tími líði frá því að byggingarhlutverki félagsins er lokið og þar til byggingarflokkurinn geti sem heild sagt sig úr félaginu þannig að íbúðareigendur geti sem best gert sér grein fyrir stöðu sinni gagnvart félaginu. Ég hef hér lagt til að sá tími verði fimm ár.

Ekki þykir rétt að svo komnu máli að gefa þetta alveg frjálst heldur verði félmrh. falið að meta í hverju tilfelli hvort rétt sé að verða við beiðni um úrsögn byggingarflokks úr byggingarsamvinnufélagi.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.