19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6537 í B-deild Alþingistíðinda. (4543)

448. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að það eru þrjú mál sem liggja fyrir þinginu og snerta breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það er í fyrsta lagi frv. um kaupleiguíbúðir sem er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar sem hún mun leggja áherslu á að fá afgreitt á þessu þingi. Það er frv. sem felur í sér heimild til að breyta ávöxtunarkjörum á skyldusparnaði sem ég tel mjög mikilvægt að verði einnig lögfest á þessu þingi þar sem ljóst er að niður féll það skattalega hagræði sem skyldusparendur höfðu þegar staðgreiðslan tók gildi um síðustu áramót. Þetta eru þau tvö mál sem ég legg áherslu á að nái fram að ganga á þessu þingi sem kveða á um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun. Það mál sem ég hér mælti fyrir um breytingar á ákvæði um byggingarsamvinnufélög er ekki eins mikilvægt að fá í gegn. Ég vil þó ítreka að hér er fyrst og fremst um leiðréttingaratriði að ræða og ætti ekki að tefja mikið þingstörf að það mál nái fram að ganga.