19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6538 í B-deild Alþingistíðinda. (4546)

449. mál, heimild fyrir Reykjavíkurborg að taka eignarnámi hluta Vatnsenda í Kópavogskaupstað

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um heimild fyrir Reykjavíkurborg til að taka eignarnámi hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað á þskj. 799. Frv. þetta er flutt að tilhlutan yfirvalda Reykjavíkurborgar, en með bréfi til félmrh. dags. 9. fyrra mánaðar fór borgarstjórinn í Reykjavík þess á leit að frv. þetta yrði lagt fram á Alþingi. Áður en til þess kom kynnti ráðuneytið frumvarpsdrögin fyrir bæjaryfirvöldum í Kópavogi svo og lögmanni eiganda jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað. Báðir þessir aðilar voru samþykkir því að frv. yrði lagt fram.

Frv. fjallar um heimild fyrir Reykjavíkurborg til að taka eignarnámi landspildu úr jörðinni Vatnsenda í Kópavogskaupstað, en samningur var gerður milli borgarsjóðs Reykjavíkur og Magnúsar Hjaltested, bónda að Vatnsenda í Kópavogi, þann 7. okt. 1987 um kaup á fyrrgreindu landi til almannaþarfa. Til að samningur þessi geti komið til framkvæmda er nauðsynlegt að afla eignarnámsheimildar þar sem á sölu lands úr jörðinni Vatnsenda hvíla kvaðir sem annars koma í veg fyrir sölu.

Í arfleiðsluskrá Magnúsar Hjaltested, dags. 29. okt. 1940, stendur m.a. þetta, með leyfi forseta: „Allar eignir mínar, fastar og lausar, skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested með þeim nánari takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina. Það má ekki selja fasteign þá er ég nú á, Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá.“

Núverandi eigandi jarðarinnar er bundinn af þessu ákvæði og getur því ekki selt jörðina Vatnsenda eða hluta lands úr henni með frjálsum samningum. Af þessum sökum er nauðsynlegt að eignarnámsheimild liggi fyrir með sérstökum lögum þar sem um fasteign í öðru sveitarfélagi er að ræða. Samningur um kaup landsins milli Reykjavíkurborgar og Magnúsar Hjaltested frá 7. okt. sl. var undirritaður með fyrirvara um veitingu eignarnámsheimildar. Hinn 24. nóv. sl. var svo undirritaður samningur milli Reykjavíkurborgar og Kópavogskaupstaðar þar sem sveitarfélögin semja um ný lögsögumörk sín á milli og hafa makaskipti á landspildum, þar á meðal landspildum sem Reykjavíkurborg fær úr Vatnsenda.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.