19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6539 í B-deild Alþingistíðinda. (4548)

466. mál, ferðamál

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir stjfrv. um breytingu á lögum um skipulag ferðamála nr. 79 1985 sem felur í sér heimild til handa ríkisstjórninni að selja allt að 2/3 hlutum af Ferðaskrifstofu ríkisins hlutafélagi sem þegar er heimilað að stofna samkvæmt þeim lögum sem um Ferðaskrifstofuna gilda í dag og fengi þá hið nýja félag heitið Ferðaskrifstofa Íslands hf.

Í starfsáætlun núv. ríkisstjórnar er kveðið svo á að ríkisfyrirtæki og hlutafé ríkisins í fyrirtækjum sem stunda atvinnurekstur verði boðið almenningi til kaups þar sem henta þykir. Það er í samræmi við þessa stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sem þetta stjfrv. er flutt, en það gerir ráð fyrir sem minnstri röskun á þessum þætti ferðamála þar sem fyrirtækið er eftir sem áður áhrifamikill aðili í ferðamálum þar sem starfsmönnum er tryggður forkaupsréttur að hlutum í félaginu en ríkissjóður haldi eftir þriðjungi hlutafjárins.

Ferðaskrifstofa ríkisins var stofnuð með lögum nr. 33/1936 og var veigamikill þáttur í starfsemi hennar að annast almenna landkynningu auk fyrirgreiðslu við erlenda ferðamenn. Áður fyrr naut Ferðaskrifstofa ríkisins þeirra víðtæku sérréttinda að hafa einkaleyfi til reksturs ferðaskrifstofu og að nafninu til hélst þessi einkaréttur allt fram til ársins 1964. Enn fremur átti Ferðaskrifstofan skv. lögum frá 1936 að halda uppi eftirliti með gistingu og veitingastöðum. Um þetta eftirlit fer nú samkvæmt ýmsum sérlögum.

Á undanförnum árum og áratugum hafa orðið mjög miklar breytingar á ferðamannaþjónustu hér á landi svo að telja má algera byltingu. Má þar helst til nefna að sett hafa verið lög um Ferðamálaráð sem hefur verið falið að hafa forustu um landkynningu og hafa risið fjölmargar ferðaskrifstofur sem keppa á markaði ferðaiðnaðarins. Þá hafa þeir aðilar sem að ferðamálum starfa sett á stofn upplýsingamiðstöð sem þeir reka sjálfir til kynningar og upplýsingar í landinu. Má því segja að veigamikill hluti af upphaflegu hlutverki Ferðaskrifstofu ríkisins hafi verið falinn öðrum aðilum, auk þess sem flugfélögin og ferðaskrifstofur ástunda umfangsmikla landkynningu.

Meginþættir starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins eru í fyrsta lagi fyrirgreiðsla við skipulag utanlandsferða, rekstur hópferða, kynning á ferðum, rekstur sumarhótela og auk þess að undirbúa og annast um ráðstefnur sem auðvitað fleiri gera og.

Geta má þess að sérstök nefnd um minnkun ríkisumsvifa, sem skipuð var 1977, komst að þeirri niðurstöðu í áfangaskýrslu um Ferðaskrifstofu ríkisins í maí 1978 að vinna beri að því að starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins verði komið úr umsjón ríkisins. Hugmyndir sama efnis hafa komið fram af og til síðan og m.a. er gert ráð fyrir því, eins og ég gat um áðan, í gildandi lögum um ferðamál að stofnað verði hlutafélag um fyrirtækið og starfsmönnum verði heimilað að kaupa allt að 30% hlutafjárins.

Í kjölfar þeirrar lagasetningar fór fram mat á eignum Ferðaskrifstofu ríkisins og Edduhótelanna. Á hinn bóginn hefur enn ekki verið efnt til stofnunar hlutafélagsins um reksturinn svo sem fyrir er mælt í lögum. Þá kom reyndar í ljós fremur takmarkaður áhugi starfsmanna á kaupum þar sem um minnihlutaeign starfsmanna var að ræða og þeir höfðu þar af leiðandi ekki afgerandi áhrif á reksturinn. Þegar hefur hugur starfsfólks verið kannaður hjá starfsfólki Ferðaskrifstofu ríkisins um kaup á 2/3 hlutum hlutafjárins og þá kom allt annað hljóð í strokkinn og sýndist áhugi fyrir því að það gerðist.

Áður en að sölu kemur skal skv. 1. gr. frv. framkvæma mat á eignum Ferðaskrifstofunnar, þ.e. viðskiptavild. Þeirri stefnumörkun gildandi laga er haldið að gefa starfsmönnum kost á forkaupsrétti að fyrirtækinu. Þetta er eðlilegt með tilliti til þess að það er öðru fremur sá kjarni sem byggt hefur fyrirtækið upp á undanförnum árum. Fyrirtækið er af viðráðanlegri stærð og þessi leið hefur áður verið farin við sölu ríkisfyrirtækja og gefist vel. Einnig má telja að lítil röskun yrði á þeim þætti sem Ferðaskrifstofa ríkisins hefur sinnt í íslenskum ferðamálum ef þessi háttur yrði á hafður.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um starfsréttindi. Þeir fastráðnu starfsmenn fyrirtækisins sem eiga kost á sambærilegum störfum hjá fyrirtækinu eftir yfirtöku annarra rekstraraðila en ríkisins skulu ekki njóta lögkjara sem opinberir starfsmenn. Er eðlilegt að jafnframt falli niður réttur til launa vegna niðurfellingar starfa skv. 14. gr. laga nr. 38/1954. Um lífeyrismál þeirra fer eftir almennum reglum og þeim samningum sem starfsfólkið gerir sjálft um aðild sína að stéttarfélögum. Starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins eru nú 20 og taka allir laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna og njóta lögkjara sem slíkir.

Skv. 22. gr. gildandi laga er Ferðaskrifstofa ríkisins undanþegin ákvæðum XIV. kafla um almennar ferðaskrifstofur verði frv. þetta að lögum, en um hana gilda sömu lagaákvæði og um aðrar ferðaskrifstofur.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum leggja áherslu á afgreiðslu þessa frv. þar sem brýnt er að þeirri óvissu sem ríkt hefur um framtíð Ferðaskrifstofunnar verði eytt, en það hefur bakað fyrirtækinu vissan vanda að á undanförnum árum hefur legið í lofti hugmyndin um að gera fyrirtækið að hlutafélagi og sölu hluta þess, en ekki orðið úr framkvæmd. Ég er sannfærður um að það fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir muni auka veg fyrirtækisins og verða til eflingar ferðamála í landinu.

Ég vil svo að lokum þessarar umræðu leyfa mér, virðulegi forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.