19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6543 í B-deild Alþingistíðinda. (4550)

466. mál, ferðamál

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hæstv. samgrh. þegar hann gat um að Ferðaskrifstofa ríkisins hefur í gegnum tíðina haft mikilvægu hlutverki að gegna varðandi landkynningu og fyrirgreiðslu við bæði innlenda og erlenda ferðamenn. Við stöndum á tímamótum í ferðaþjónustunni sem við erum að reyna að byggja upp og eigum eftir að taka mörg ný skref og mörg stór skref á næstu árum, trúi ég, og ég held að við þurfum að huga mjög vel að hverju skrefi sem við tökum. Þar sem hæstv. ráðherra minntist á hlutdeild Ferðamálaráðs í landkynningu áðan í ræðu sinni vil ég aðeins minna á að Ferðamálaráð er ein af þeim stofnunum sem við verðum að styrkja og gera hæfari til að gegna því hlutverki sem þeim er ætlað. Ég minni á að Ferðamálaráð hefur aldrei fengið þau fjárframlög sem þó eru lögbundin til þess á fjárlögum.

En það hafa orðið miklar breytingar í ferðamannaþjónustu á undanförnum árum og áratugum og í ljósi þeirra stórstígu breytinga á umfangi ferðaþjónustunnar, sem nú er orðin ein af þeim atvinnugreinum sem við setjum traust okkar á sem vænlegan framtíðarkost, er ekki óeðlilegt að endurskoða hlutverk stofnunar sem Ferðaskrifstofu ríkisins m.a. með tilliti til þess hvaða rekstrarfyrirkomulag er heppilegast.

Á Ferðaskrifstofu ríkisins vinnur fólk sem hefur gífurlega reynslu og þekkingu á ferðamálum og tel ég því að Ferðaskrifstofa ríkisins sé í góðum höndum hver svo sem eigandi hennar er.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að forstjóri Ferðaskrifstofu ríkisins, Kjartan Lárusson, telur líklegt að áhugi starfsfólks fyrir málinu sé fyrir hendi, en auðvitað er eftir að fjalla um málið hér á hinu háa Alþingi og ef af sölu verður mun núverandi starfsfólk væntanlega gera upp hug sinn með tilliti til verðs og greiðslufyrirkomulags fyrirtækisins.

Ég vil við 1. umr. aðeins leggja áherslu á að við kvennalistakonur teljum nauðsynlegt að endurskoða hlutverk og tilverurétt stofnana ríkisins í ljósi nýrra aðstæðna, en aðstæður breytast svo ört í okkar þjóðfélagi um þessar mundir að endurskoðunin þarf að vera sífelld og stöðug. Við munum því kynna okkur það frv. sem hér liggur fyrir með tilliti til þess að lög um Ferðaskrifstofu ríkisins er orðin gömul og að mörgu leyti úrelt af því að hlutverk Ferðaskrifstofunnar hefur breyst svo mjög sem raun ber vitni. Ég vil hins vegar vara við þeirri tilhneigingu, sem oft verður vart, að selja ríkisstofnanir nánast af handahófi og einkavæða sem flest.

Það er eitt atriði enn sem ég vil leggja áherslu á og það er að ef til sölu Ferðaskrifstofu ríkisins kemur verði jafnhliða gengið frá málum sem snerta Edduhótelin og rekstur þeirra. Tek ég í því tilliti undir orð hv. 4. þm. Vesturl. sem gerði Edduhótelin og réttindi starfsmanna þeirra að sérstöku umræðuefni í ræðu sinni áðan. Ég tel að stofnun Edduhótelanna hafi orðið ferðaþjónustunni mikil lyftistöng og jafnframt hefur leiga héraðsskólanna á sumrin verið skólunum smátekjulind til að standa að einhverju leyti undir viðhaldskostnaði og þar að auki hafa hótelin veitt fólki á viðkomandi svæðum vinnu. Ég vil leggja áherslu á að þetta mál verði skoðað mjög gaumgæfilega með tilliti til þeirra breyttu aðstæðna sem við búum við, en jafnframt þannig að réttur þeirra sem við fyrirtækið vinna, hvort sem er einungis yfir sumartímann eða allt árið um kring, verði tryggður.