19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6544 í B-deild Alþingistíðinda. (4551)

466. mál, ferðamál

Guðmundur Ágústsson:

Frú forseti. Ég verð að lýsa því yfir að ég held að ríkisfyrirtæki sem eru nú í höndum ríkissjóðs eigi að selja. Hins vegar eru margar spurningar sem vakna þegar að slíkri sölu kemur og þá í fyrsta lagi verð, í öðru lagi hverjum á að selja, í þriðja lagi hvaða áhrif salan hefur og í fjórða lagi ýmsir aðrir þættir eins og það um hvers konar stofnun er að ræða og hvaða áhrif það hefur á önnur fyrirtæki sem eru í sams konar rekstri að þessi sérstaka stofnun er seld.

Hér er gert ráð fyrir að Ferðaskrifstofa ríkisins verði seld og það einungis 2/3 hlutar fyrirtækisins. Það er spurning: Af hverju á ekki að selja allt fyrirtækið þegar verið er að selja á annað borð? Hver eru rökin fyrir því að halda eftir 1/3? Ég spyr hæstv. samgrh. að því.

Það var upplýst áðan að fyrir nokkrum árum hefðu verið samþykkt á Alþingi lög þar sem gert var ráð fyrir að starfsmenn mundu eiga 1/3. Það þótti starfsmönnum ekki nægilegt út af því að þeir mundu hafa lítil áhrif í fyrirtækinu. Þá er líka spurning: Hvað hefur ríkið að gera með 1/3? Hefur það einhver áhrif? Og þá í framhaldi af því: Af hverju ekki að selja þann hluta líka ef á annað borð er verið að fara ofan í þessi mál og ganga þannig frá þessu fyrirtæki að það er verið að gera það að hlutafélagi?

Ég vil í öðru lagi taka fram hverjum er verið að selja þetta fyrirtæki, en eins og flestir vita eru á launaskrá hjá Ferðaskrifstofu ríkisins nokkur hundruð manns en stöðugildi eru mjög fá. Mig minnir að það hafi komið fram í ræðu hæstv. samgrh. að það væru um 20 manns fastir starfsmenn ferðaskrifstofunnar. Mér finnst mjög óeðlilegt að binda þetta við þessa 20 starfsmenn. Ég þykist vita að margir eru búnir að vinna hjá þessu fyrirtæki í allt að 25–30 ár og teljast ekki fastir starfsmenn. Hvernig fer með heimildir þeirra til að kaupa hlut í þessu félagi? Þeir njóta hvorki forkaupsréttar né annars réttar ef ég skil frv. rétt.

Síðan má velta upp fleiri spurningum varðandi starfsmenn. Ef t.d. starfsmaður sem keypt hefur hlut í fyrirtækinu ákveður að hætta, getur hann átt hlutinn áfram eða þarf hann að selja og hverjum getur hann þá selt? Er einungis hægt að selja hann þeim aðilum sem eru fastir starfsmenn og eiga þeir þá líka forkaupsrétt að hlutnum? Ég held að áður en þetta mál er afgreitt héðan frá Alþingi þurfi að gera sér einhverja grein fyrir hvert er verðmæti Ferðaskrifstofu ríkisins. Ég þykist vita að viðskiptavild fyrirtækisins er mjög mikil og verðmæti lausafjár er einnig töluvert, bæði í tölvum sem nýbúið er að ráðast í og í t.d. sængurverum o.fl. Eftir því sem mér skildist á ferðaskrifstofan 9000 sængurver. Hver maður getur gert sér í hugarlund hve mikið verðmæti það er. (Gripið fram í: Rúmfatnaður.) Rúmfatnaður heitir það já.

Það er líka annað sem hér kallar á og það er spurningin um, ef á að einskorða þetta við starfsmenn, hvort þar sé ekki um mismunun að ræða og einnig hvort ríkið eigi ekki hugsa um, eins og hvert annað fyrirtæki, að fá sem best verð fyrir allt það sem verið er að selja.

Það er líka önnur spurning sem vaknar, varðandi starfsmenn ferðaskrifstofa yfir höfuð, hvort starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins eigi að hafa einhvern betri rétt en starfsmenn annarra ferðaskrifstofa, að þeir geti eignast hlut í fyrirtæki sem þeir vinna hjá en aðrir starfsmenn ekki þar sem þar er rekið á einkagrundvelli. Ég vil ekki gera lítið úr starfsmönnunum sem slíkum, en hins vegar finnst mér að þegar ríkið er að selja eigi það að hugsa um að halda þeirri þjónustu eftir sem áður og að sjálfsögðu að hugsa um þá starfsmenn sem hafa verið í þjónustu þess fyrirtækis sem það er að selja.

Þetta fyrirtæki hefur haft mikla sérstöðu á markaðnum að því leytinu til að önnur ríkisfyrirtæki hafa beint viðskiptum til Ferðaskrifstofu ríkisins. Og þá er spurningin: Verður það hér eftir sem áður fyrr eftir að þetta er orðið að hlutafélagi? Koma þá ríkisfyrirtæki til með að beina viðskiptum sínum til þessa fyrirtækis í stað annarra?

Ég tek undir það, sem komið hefur fram hjá hv. 6. þm. Vesturl. og raunar hv. 4. þm. Vesturl., að þetta fyrirtæki, Ferðaskrifstofa ríkisins, hefur gert mikið gagn í ferðamálum og hefur verið mjög nauðsynleg stofnun til að byggja upp íslenskan ferðamannaiðnað og þá sérstaklega kynningu á Íslandi, bæði fyrir íslenska aðila og svo erlenda. Það hefur rekið umfangsmikið starf þar sem Edduhótelin eru og þá hefur ekki einungis verið hugsað um hvort einstakt hótel beri hagnað heldur hefur verið í fyrirrúmi að halda þjónustunni uppi. Sú spurning vaknar því, ef þetta er gert að einkafyrirtæki, hvort ákveðin Edduhótel verði lögð niður sem hafa verið rekin með tapi, en hin aftur á móti haldi áfram sem hafa skilað hagnaði.

Það sem ég hef rakið hér eru almennar hugleiðingar um þetta frv. og að hverju skal huga þegar ríkisfyrirtæki eru seld, en ég lýsi þeirri skoðun minni aftur að ríkið eigi ekki að standa í rekstri fyrirtækja sem einkaaðilar geta sinnt og veitt sömu þjónustu og ríkið. En ég legg áherslu á að áður en þetta mál fari hér í gegn verði upplýst hvaða hugmyndir eru um verð og þá einnig greiðslutilhögun og svo kannski í þriðja lagi hvaða hugmyndir starfsmenn ferðaskrifstofunnar hafa um fyrirtækið, hvort þeir vilja kaupa, og einnig komi það á hreint hvaða starfsmenn eigi rétt á að kaupa hlut í þessu félagi. Þá legg ég áherslu á að það verði fleiri en þessir föstu starfsmenn.