19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6548 í B-deild Alþingistíðinda. (4553)

466. mál, ferðamál

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þeirra spurninga sem til mín var beint.

Ég held að það gæti einhvers smámisskilnings hjá hv. 3. þm. Vesturl. vegna þess að það var ábyggilega ekkert sem kom fram í máli mínu sem fól í sér að Kvennalistinn væri algerlega á móti því að fyrirtæki sem Ferðaskrifstofa ríkisins yrði selt. Þar eð ég hef skrifað orðrétt hjá mér það sem ég sagði held ég að það sé rétt að ég taki aðeins til það helsta aftur. Ég talaði um nauðsyn þess að ef Ferðaskrifstofa ríkisins yrði seld yrði stofnun eins og Ferðamálaráð styrkt á þann veg að hún gæti staðið fyrir því landkynningarstarfi sem henni er ætlað og hún fengi sín lögbundnu framlög, en síðan sagði ég, með leyfi forseta: „Það er e.t.v. ekki óeðlilegt að endurskoða hlutverk stofnunar sem Ferðaskrifstofu ríkisins m.a. með tilliti til þess hvaða rekstrarfyrirkomulag er heppilegast.“ Og ég sagði efnislega í máli mínu áðan einnig að við teldum nauðsynlegt að hafa tilverurétt slíkra stofnana, sem eru á vegum ríkisins og í þess eign, ég endurtek: tilverurétt, einmitt hvort þær eiga að vera til sem ríkisstofnanir, og hlutverk í stöðugri endurskoðun. Ég sagði síðan að lokum að við vildum kynna okkur efni þessa frv. enn betur og að það væri gengið frá öllum lausum endum varðandi starfsfólk sem við Ferðaskrifstofu ríkisins vinnur, hvort sem það er á skrifstofunni sjálfri eða á Edduhótelunum.