19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6552 í B-deild Alþingistíðinda. (4557)

466. mál, ferðamál

Guðmundur Ágústsson:

Frú forseti. Hæstv. samgrh. svaraði þeim spurningum sem ég lagði hér fyrir hann áðan, en ég tel að svörin hafi verið mjög loðin og teygjanleg. Mig langar því að spyrja hann aftur: Við hvern var samkomulag um að selja aðeins 2/3? Hann sagði það eitt að samkomulag hafi verið um að selja 2/3. (Samgrh.: Það er ríkisstjórnarinnar.) Þá vil ég spyrja aftur: Ef það er ríkisstjórnarinnar, hvaða rök lágu þá að baki að selja aðeins 2/3 og ef það eru rökin að ríkið hafi að einhverju leyti áhrif á starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins vaknar sú spurning: Hvað hefur ríkið að gera með svona lítinn hlut þegar starfsmenn telja sig ekkert geta gert með svona lítinn hlut?

Það var önnur spurning sem hann svaraði. Það var um fasta starfsmenn eða þá starfsmenn sem eiga að hafa forkaupsrétt að þeim hlutabréfum sem til falla. Þá sagði hann að það þyrfti að skoða hvaða starfsmenn uppfylltu að vera starfsmenn ferðaskrifstofunnar. Það kemur fram í 2. gr. frv. nokkuð skýrt að það skuli vera fastráðið starfsfólk Ferðaskrifstofu ríkisins. Þetta verður ekki skilið á annan hátt en þann að þeir séu starfsmenn allt árið. Þetta tekur ekki til starfsfólks sem er bara yfir sumarmánuðina, en það er meginþorrinn af starfsfólki ferðaskrifstofunnar.

Hv. 3. þm. Vesturl. talaði áðan um hvort ríkið ætti að reka fyrirtæki sem einstaklingar gætu rekið. Ég er inni á því að ríkið ætti í sumum tilvikum að reka slík fyrirtæki og viss rök má færa að því að Ferðaskrifstofa ríkisins ætti að vera ríkisfyrirtæki eins og það eitt að opinberum starfsmönnum er öllum vísað á eina ferðaskrifstofu. Það hlýtur að vega nokkuð þungt eins og ríkisstarfsmenn fara oft erlendis að ríkið hafi allan hagnað, ef hagnað má kalla, af þessum ferðum og þurfi ekki að borga ýmis þjónustugjöld sem því eru samfara. Þessu má e.t.v. líkja við ýmsar aðrar stofnanir eins og Innkaupastofnun eða aðrar stofnanir.

En þegar á heildina er litið og hvaða starfsemi þarna er um að ræða hjá Ferðaskrifstofu ríkisins held ég að fleiri og þyngri rök mæli með því að selja þetta fyrirtæki en hitt að selja það ekki. Hins vegar finnst mér að það megi þá breyta ýmsum lögum í þá átt að ríkisfyrirtæki beini ekki frekari viðskiptum til þessa fyrirtækis en annarra fyrirtækja á þessu sviði. Ríkið verður alltaf að hugsa um sig og hugsa um hvar það fær bestu þjónustuna og hvar það fær besta verðið og á sama hátt verður ríkið að hugsa um að selja þau fyrirtæki sem það ætlar að selja á sem hagstæðustu verði.