19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6556 í B-deild Alþingistíðinda. (4561)

385. mál, söluskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Þetta mál er að mínu mati allrar athygli vert og verðskuldar nákvæma skoðun. Ég vil taka fram að í fjmrn. er nú þegar fullsmíðað frv. sem tekur á nokkrum breytingum á nýsamþykktum og gildandi söluskattslögum. Það tekur fyrst og fremst til ýmissa þátta sem varða það að renna eðlilegum lagastoðum undir ýmis undanþáguákvæði eða úrskurði sem áður höfðu verið í gildi samkvæmt erindum eða bréfum frá ráðuneyti og einn málaflokk sérstaklega sem varðar meðhöndlun í söluskatti á öryggistækjum og ýmsum hlutum og búnaði sem flokkast undir líknarþjónustu og reyndar allmörgum fleiri slíkum álitamálum. Þetta frv. var ekki lagt fram á þessum vordögum vegna mikils málafjölda og var tekin um það ákvörðun í ríkisstjórninni að gera það ekki fyrr en á næsta þingi. Ég teldi af þeim ástæðum eðlilegt að þessu máli væri vísað til ríkisstjórnarinnar þannig að það verði tekin afstaða til þess við heildarendurskoðun á söluskattslögunum og lagt þá fram á næsta hausti.

Það er rétt, sem fram kom í máli flm., að fyrir þessu eru þó nokkur rök, bæði að því er varðar mengunarvarnir, slysavarnir, umhverfisverndarmál.

Hitt kann að vera álitamál nokkuð um framkvæmdina.

Erindið styðst upphaflega við erindi frá Reykjavík sem þá tók einungis til strætisvagnaþjónustu Reykvíkinga, en í frv. er gert ráð fyrir því að hér sé um að ræða almenna söluskattsundanþágu að því er varðar almannasamgöngutæki. Þetta getur vakið upp nokkur markatilvik. T.d. ef háttar svo til að fyrirtæki eins og Landleiðir rekur bílaflota sem bæði er notaður til almenningssamgangna og einnig til sérleyfisfólksflutninga, svo nefnt sé dæmi.

Við stöndum frammi fyrir því að söluskattur er ekki á fólksflutningum og er ekki gert ráð fyrir því í virðisaukaskattsfrv. sem liggur fyrir hinu háa Alþingi til skoðunar og stefnt er að því að fái lagagildi áður en þessu þingi lýkur. Það er hvorki lagður söluskattur né virðisaukaskattur á fólksflutninga sem slíka, en í virðisaukaskattsfrv. er gert ráð fyrir þeirri almennu reglu, sem er í samræmi við grundvallarreglur þeirra tillagna, að engu að síður komi virðisaukaskattur á aðföng, þ.e. tæki og viðgerðarþjónustu o.s.frv. Með hliðsjón af því að núverandi söluskattskerfi á skamma lífdaga fram undan er ástæða til að skoða þetta líka í samhengi við skipan mála með virðisaukaskatti.

Mín afstaða er því sú að þessu sögðu að málið er allrar athygli vert og verðskuldar jákvæða skoðun, en ég legg til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til heildarendurskoðunar á söluskattslögunum.