19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6557 í B-deild Alþingistíðinda. (4562)

385. mál, söluskattur

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð vegna ummæla hv. þm. Svavars Gestssonar og þess frv. sem hann mælti fyrir. Kveikja þessa máls hefur orðið bréf eins af embættismönnum Reykjavíkurborgar til þingmanna Reykvíkinga um að fella niður söluskatt og aðflutningsgjöld af innflutningi nýrra strætisvagna til Reykjavíkur. Nokkrir af hv. þm. hafa síðan gert þetta mál víðtækara og vilja að fjmrh. hafi vald til að fella niður söluskatt af bifreiðum sem notaðar eru til almenningssamgangna. Þetta gildir þá væntanlega um alla bíla sem notaðir eru til farþegaflutninga og taka fleiri en níu farþega. Ég hygg að þar sé miðað við skilgreiningu í lögum. Það er skoðun út af fyrir sig að þetta beri að gera. Ég tek undir að það er mikilvægt að almenningsfarartæki eins og strætisvagnar í þéttbýli séu notuð sem mest og af sem flestum vegna þess, eins og hér hefur fram komið, að það getur dregið úr slysahættu. En ég vildi aðeins benda á að þó svo að söluskattur af strætisvögnum og öðrum bifreiðum af þessu tagi væri felldur niður er ekki sjálfgefið samband þar á milli að það verði til þess að þjónustan, sem þessi farartæki eru notuð til að veita, batni eða almenningur muni nota hana meira. Þar er ekki sjálfgefið samband á milli. Ég held að ef menn vilja ná þeim markmiðum sem verið er að tala um hér þurfi að gera allt aðra hluti. Ég er ekki að draga úr því að gera þessi tæki sem ódýrust, en ég held að það þurfi að gera allt annað og miklu fleira til þess að almenningur fáist til að nota strætisvagna og almenningsfarartæki í miklu ríkara mæli en nú er. Það þarf að gera þessa þjónustu miklu aðgengilegri, auka hana, gera hana ódýrari og hagkvæmari þannig að það verði einfaldlega betri kostur að ferðast með þessum farartækjum en að nota einkabílinn fyrir þá sem þannig háttar um og það eru vissulega mjög margir þar sem þetta vegur salt. En ég er ekkert sannfærður um það, þó svo að væri felldur niður söluskattur og aðflutningsgjöld af almenningsvögnum til nota fyrir strætisvagna Reykjavíkur, að það mundi sjálfkrafa leiða til betri þjónustu. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur greinilega meira traust á þeim sem ráða málum hér í borginni heldur en sá sem þetta mælir. Ég tel ekki að það sé sjálfgefið. Ég tel allt eins víst að borgin mundi nota þá peninga til einhvers annars en að bæta þessa þjónustu, því miður. Ég held að ef menn vilja ná þeim markmiðum sem hér er talað um, þ.e. draga úr mengun, minnka slysahættuna eða draga úr slysum, þurfi miklu víðtækari ráðstafanir varðandi almenningssamgöngur. Það get ég tekið undir. Ég er reiðubúinn að horfa á þau mál með ágætum flm. þessarar till. og vita hvaða leiða mætti leita þar. En ég er þeirrar skoðunar að þessi aðgerð ein út af fyrir sig hefði ákaflega lítið að segja og er þó hreint ekkert að leggjast gegn því að þessu máli verði allur gaumur gefinn, en undirstrika að til þess að ná þeim markmiðum sem hér er talað um þarf að gera miklu fleira.