19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6561 í B-deild Alþingistíðinda. (4566)

382. mál, fóstureyðingar

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingar á lögum nr. 25 frá 1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir sem þm. Borgaraflokksins, hv. 11. þm. Reykv. og hv. 7. þm. Reykn. Kolbrún Jónsdóttir, flytja.

Þá vil ég fyrst segja að ég tel enga ástæðu til að breyta núgildandi lögum. Ég tel að lögin séu viðunandi og ekki síður andi laganna sem skýrt kemur fram við flutning frv. á sínum tíma og má lesa úr lögunum nú. Hann virðir þau grundvallarréttindi kvenna að þær beri sjálfar ábyrgð á lifi sínu og gerðum sem sjálfstæðir, ábyrgir og fullveðja einstaklingar og veitir þeim rétt sem ég tel að þeim sé fyllilega treystandi til að fara með. Reyndar veit ég engan betri eða hæfari til að fara með þann rétt. Þetta er meginatriði og hefur verið mikið baráttumál kvennahreyfinga um langt skeið. Hitt er annað og einnig mikilvægt að lítið gagna góð lög ef þau eru ekki framkvæmd.

Megintilgangur frv. sem hér er til umræðu virðist mér vera að koma í veg fyrir fóstureyðingar með því að þrengja löggjöfina og fækka þeim heimildum sem lögmætar eru fyrir slíkum aðgerðum.

Fóstureyðing hlýtur að vera hverri konu neyðarúrræði og hljóta allir að vera sammála um nauðsyn þess að draga úr fjölda ótímabærra þungana og þar með tilefnum til fóstureyðinga. Núgildandi lög leggja einmitt megináherslu á þetta atriði og fjallar allur I. kafli laganna um ráðgjöf og fræðslu. Vandinn er bara sá að langt er frá því að staðið hafi verið við framkvæmd laganna hvað ráðgjöf og fræðslu varðar. Allt frá samþykkt þeirra hefur vantað fjármagn til að skipuleggja og sinna fræðslu jafnt í skólum og fyrir almenning. Þetta ástand endurspeglar í raun stöðu almennrar heilbrigðisfræðslu hérlendis og raunverulegan áhuga stjórnvalda á forvarnarstarfi. Vonandi verður þó breyting til batnaðar í þessum efnum.

Ég vil aðeins víkja að lögunum, með leyfi forseta,

og vitna þá í 1. kafla, um ráðgjöf og fræðslu, en þar segir í 1. gr.:

„Gefa skal fólki kost á ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Landlæknir hefur á höndum yfirumsjón með framkvæmd og uppbyggingu slíkrar ráðgjafar og fræðslu.“

Í 2. gr. segir:

„Aðstoð skal veita, eftir því sem við á, svo sem hér segir:

1. Fræðsla og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra.

2. Ráðgjöf fyrir fólk sem íhugar að fara fram á fóstureyðingu eða ófrjósemisaðgerð.

3. Kynlífsfræðsla og ráðgjöf og fræðsla um ábyrgð foreldrahlutverks.“

Í þessu sambandi vil ég velta því fyrir mér og velta því hér upp fyrir þm. hversu brýnt það er fyrir flesta sem búa í þessu þjóðfélagi og alast hér upp að fá undirbúning undir það sem bíður langsamlega flestra og það er að verða foreldrar. Þessu veit ég ekki til að sé tekið á t.d. í grunnskólum með sérstökum hætti sem námsefni og er það þó mun brýnna en t.d. að vita hvar ár í fjarlægum löndum falla til sjávar fyrir fólk sem e.t.v. á aldrei eftir að koma þangað. Mér finnst því þar vera mjög röng forgangsröðun og er sannarlega brýnt að þessu hlutverki sé sinnt auk þess sem hér segir í frv. auðvitað um beina fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir.

Svo er það í fjórða lagi og ég held áfram að vitna með leyfi forseta:

„4. Ráðgjöf og fræðsla varðandi þá aðstoð sem konunni stendur til boða í sambandi við meðgöngu og barnsburð.“

Síðan vil ég vitna í 5. gr. þar sem segir: „Allar viðurkenndar getnaðarvarnir skulu fást hjá ráðgjafarþjónustunni. Unnið skal að því að auðvelda almenningi útvegun getnaðarvarna. m.a. með því að sjúkrasamlög taki þátt í kostnaði þeirra.“ Þetta atriði hefur t.d. aldrei komist til framkvæmda frekar en ýmis önnur í þessum kafla.

Það fór fljótt að gæta óánægju meðal almennings. og er óhætt að segja einkum meðal kvenna, með það að töf varð á því að þessi mikilvægi þáttur laganna kæmist til framkvæmda. Og þá langar mig að minnast á það að um vorið 1982 tóku sig saman 57 konur úr öllum stjórnmálaflokkum og ýmsum starfsstéttum og mynduðu áhugahóp um þessi efni. Þær vöktu athygli á þeim vanefndum sem hafa orðið á framkvæmd I. kaflans og skoruðu á ráðamenn mennta- og heilbrigðismála að ráða bót á því ófremdarástandi. Þær lögðu enn fremur til að landlæknisembættinu yrði falið að skipuleggja átak til fræðslu um kynferðismál fyrir almenning og með sérstöku tilliti til unglinga. Þær lögðu einnig til að myndaður yrði sérstakur hópur unglinga til að fá viðbrögð þeirra við efni og tillögum og ábendingar frá þeim áður en gengið væri frá því fræðsluefni sem unglingum væri ætlað. Síðan lögðu þær til nánari tillögur um fræðsluherferðina og hvernig mætti standa að henni sem ég vil vitna til, með leyfi forseta:

Það var þá í fyrsta lagi að gerð verði fræðsluþáttaröð fyrir sjónvarp í 3–4 hlutum sem fjalli um æxlun, getnaðarvarnir, kynlíf, kynsjúkdóma, rétt til fóstureyðingar og foreldraábyrgð. Þættir þessir verði varðveittir á myndböndum sem Námsgagnastofnun, framhaldsskólar, kynfræðsludeildir og fleiri aðilar, sem við kynfræðslu fást, hafi síðan aðgang að og noti.

2. Landlæknir beiti sér fyrir samstarfi við útvarp, m.a. umsjónarmenn unglingaþátta.

3. Landlæknir láti gera 2–3 sjónvarpsauglýsingar sem hvetji unglinga til að nota getnaðarvarnir. Fjármagni verði veitt til að birta þessar auglýsingar nokkrum sinnum ár hvert.

4. Landlæknir láti hanna 2–3 veggspjöld sem hafa sama markmið og sjónvarpsauglýsingarnar. Þau verði hengd upp í framhaldsskólum, apótekum, læknastofum, heilsugæslustöðvum, æskulýðsmiðstöðvum, íþróttahúsum og öðrum samkomustöðum unglinga.

5. Jafnframt verði gerður upplýsingabæklingur sem beinist að unglingum 15–19 ára og dreifist á sömu stöðum. Í bæklingnum verði unglingar m.a. hvattir til að leita frekari fræðslu hjá kynfræðsludeildum þar sem þær eru.

6. Landlæknir birti auglýsingu á áberandi stað í símaskrá með símanúmeri kynfræðsludeilda og hvatningu til almennings að leita hennar.

7. Aðgangur unglinga að getnaðarvörnum verði bættur, t.d. með sjálfsölum á almannafæri.

Þessar tillögur og viðvörunarorð kvennanna vöktu athygli og umtal á sínum tíma, en annan sýnilegan árangur er ekki hægt að sjá að framtak þeirra hafi borið í raun.

Síðan við kvennalistakonur komum inn á þing höfum við ítrekað gert fsp. og borið fram þáltill. einmitt um þessi efni, þ.e. um fræðsluna og auðveldan aðgang að getnaðarvörnum, sérstaklega fyrir unglinga. Vil ég þá minnast einmitt á að það var fyrsta mál okkar á þingi á sl. kjörtímabili að bera fram fsp. um það hvernig háttað væri fræðslu um kynferðismál í skólum landsins. Kom þá í ljós að hún var illa vanrækt þó að fyrirskipuð væri í þessum I. kafla laganna. Síðan lögðum við fram þáltill. um auðveldari aðgang að getnaðarvörnum og, ítrekað, um að auka fræðslu meðal almennings um kynferðismál. Það var reyndar síðasta mál sem var afgreitt á síðasta kjörtímabili og samþykkt og fjallaði einmitt um þetta efni. Ég ætla að lesa þá þál. sem var samþykkt á síðasta þingi, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15–19 ára um kynlíf og getnaðarvarnir.“

Tillaga okkar hafði að vísu verið nokkuð ítarlegri en hún var stytt á þennan hátt og samþykkt síðan. Þá var reyndar sjúkdómurinn eyðni kominn til sögunnar og hann gaf málinu þann byr og áhuga sem það hafði ekki áður notið.

Ég vitna enn, með leyfi forseta, máli mínu til stuðnings í grein í Læknablaðinu, sem er 6. tbl. á árinu 1987, en þar er grein um fóstureyðingar og notkun getnaðarvarna eftir læknana Þórð Óskarsson og Reyni Tómas Geirsson. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ef stemma á stigu við vaxandi fjölda fóstureyðinga þarf að auka fræðslu um getnaðarvarnir og gera þær aðgengilegri, hvetja til ábyrgari notkunar getnaðarvarna, stuðla að notkun öruggra getnaðarvarna eftir fóstureyðingu og kveða niður goðsögnina um nauðsyn pilluhvílda“ eins og þarna segir. Aftur segir í þessari sömu grein, með leyfi forseta: „Notkun getnaðarvarna er verulega ábótavant meðal kvenna sem leita á Landspítalann í fóstureyðingu enda þótt smám saman hafi miðað í rétta átt.“ Og að lokum segir enn, með leyfi forseta: „Til þess að halda fjölda fóstureyðinga sem lægstum þarf að gera átak í þá átt að gera getnaðarvarnir aðgengilegri fyrir alla aldurshópa, m.a. með stofnun kynfræðsludeilda við heilsugæslustöðvar (family planning clinics), ódýrari getnaðarvörnum og aukinni fræðslu táninga.“

Eins og ég áður sagði hefur allt þetta verið vanrækt og ekki verið farið eftir þeim ákvæðum laganna sem varða fræðslu. Það er enginn vafi á því í mínum huga og það er reynsla annarra þjóða að aukin fræðsla um kynlíf og getnaðarverjur dregur úr fjölda ótímabærra þungana, ekki síst meðal unglingsstúlkna og má nefna reynslu Norðurlandaþjóðanna í þessum efnum. T.d. vil ég víkja að reynslu sem danskur læknir kynnti hér nýlega á fundi. Það var í lok síðasta árs sem hann kom til Íslands. Hann sinnir ákveðnu heilsugæsluumdæmi í Kaupmannahöfn. Þar hafði verið gert sérstakt átak í kynfræðslu meðal unglinga og það varð til þess að á tiltölulega skömmum tíma fækkaði fóstureyðingum verulega í þessum aldurshópi. Sama reynsla hefur fengist á Norðurlöndunum á sl. árum. Þar hefur fóstureyðingum meðal unglingsstúlkna sérstaklega fækkað mjög í kjölfar aukins fræðsluátaks. Ég get því tekið undir með hv. flm. þar sem þeir leggja áherslu á aukna fræðslu í sínu frv. en þessi ákvæði eru reyndar mjög skýr í núgildandi lögum. Vandinn er bara sá að þau hafa ekki verið framkvæmd og ég held að megintálminn í þessum efnum sé fyrst og fremst skortur á fjármagni og úr því er hægt að bæta án þess að breyta lögunum. Hér vantar að mínu viti fyrst og fremst skilning og vilja.

Annað meginatriði til að draga úr tíðni fóstureyðinga er að bæta félagslegar aðstæður kvenna. Þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði og reyndar grundvallaratriði. Meðal þeirra kvenna sem helst leita fóstureyðinga eru einmitt ýmsar þeirra sem búa við hvað lökust kjör hér á landi. Að baki þeim tölum sem gefnar eru í grg. þessa frv. eru grimmilegar staðreyndir um þá efnahagslegu og félagslegu þróun sem ríkir á okkar dögum. Og ég vil minnast á ráðstefnu sem samtök félagsmálastjóra héldu á árinu 1986 þar sem í ljós kom að um 25% allra fjölskyldna á landinu lifðu undir fátæktarmörkum og stór hluti þessa hóps var einmitt einstæðar mæður. Fjölskyldugerðin hefur breyst í okkar þjóðfélagi á undanförnum 20 árum eins og flestir vita. Það eru fleiri sem eru í óvígðri sambúð, hjónaskilnuðum hefur fjölgað um helming á sl. 25 árum, úr um það bil 5 í 10 á hver 1000 hjón á hverju ári. Einstæðum foreldrum fer fjölgandi og þar eru einstæðar mæður í stórum meiri hluta, yfir 90% . Margir telja, bæði félagsfræðingar, læknar og aðrir þeir sem sinna umönnun fólks, að þessi hópur standi einna verst í þjóðfélaginu og telja jafnframt að stór hluti hans búi við afkomu sem er undir fátæktarmörkum. Það er ekki síst vegna þeirra lágu launa sem konur almennt fá en eins og við vitum eru þær yfirleitt ekki nema hálfdrættingar í launum á við karla þrátt fyrir langan vinnudag. Félagsleg aðstaða einstæðra foreldra er mjög erfið hér á landi, en það bitnar auðvitað fyrst og fremst á börnum.

Síðan langar mig að vitna, með leyfi forseta, í frv. Á bls. 9 í grg. er rætt um forsendur frv. Þar er talað um að fóstureyðingum hafi fjölgað verulega á undanförnum árum. Síðan segir í grg., með leyfi forseta:

„Það er viðurkennt að á mörgum heimilum eru efnisleg gæði af skornum skammti. Gagnvart þeim fjölskyldum ber þjóðfélagið ríka ábyrgð því að það er smánarblettur á þjóðfélagi með einhverjar hæstu þjóðartekjur í heimi að þurfa að viðurkenna að fólk búi við örbirgð. Félagsleg vandamál ber þjóðfélaginu að leysa með félagslegum ráðstöfunum.“ Ég er alveg sammála þessu. Síðan kemur:

„Tilgangur þessa frv. er ekki að leysa úr félagslegum vandamálum sem eru í þjóðfélaginu heldur að sníða löggjöfina þannig að allt mannlegt líf sé friðheilagt, og að verja börn - á hvaða stigi lífsins sem þau eru - fyrir utanaðkomandi eyðingaröflum og veita þeim þau mannréttindi sem eru ofar öllum öðrum, réttinum til þess að fá að lifa og taka þátt í lífinu án tillits til efnahags og félagslegrar stöðu foreldra.“

En þá vil ég leggja mikla áherslu á að það er mjög erfitt að rjúfa þetta tvennt úr samhengi hvort við annað. Ég held að það sé ekki hægt að líta fram hjá því að félagsleg staða fólks ákvarðar að miklu leyti hvernig lífi það lifir og hvaða ákvarðanir það tekur um líf sitt hvað sem öllum lögum líður. Þess vegna held ég að það sé mjög grunnhyggið í raun að halda að menn geti sett þrönga löggjöf án þess að gera nokkuð til að bæta stöðu fólks til að hlýða þessum lögum. Ég vil benda hv. flm. á að það eru einmitt kannski — það er sagt reyndar í grg., aðeins fyrr, að hagtölur sýni að lífskjör hafi batnað verulega frá því að lögin voru sett árið 1975 - fyrst og fremst hluti þeirra sem leita fóstureyðinga af félagslegum ástæðum sem ekki hafa notið þessara lífskjarabóta. Það væri nær að beita sér fyrir því, eins og við höfum reynt, Kvennalistinn, frá því að við komum inn á þing og margir aðrir auðvitað líka og m.a. þm. Borgaraflokksins, að bæta hag kvenna og barna í þessu þjóðfélagi því það er ein af vænlegum leiðum til þess að takmarka fjölda fóstureyðinga af félagslegum ástæðum að mínu viti. Og ég vil benda hv. flm. á 275. mál þessa þings sem þingkonur Kvennalistans flytja í Nd. sem er um tímabundið átak í uppbyggingu dagvistarheimila fyrir börn og það eru önnur mál á þessu þingi sem einmitt varða uppbyggingu dagvistarheimila. Síðan vil ég benda á frv. til laga um lágmarkslaun sem þingkonur Kvennalistans flytja í Nd. sem er 351. mál þessa þings og það eru önnur mál sem einmitt varða launakjör en aðrir þm. og þingflokkar hafa flutt. Ég vil benda á frv. til laga um lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra sem er 110. mál þessa þings, líka flutt af þingkonum Kvennalistans í Nd., og síðan vil ég minna hv. flm. á þeirra eigin þáltill. sem varða launakjör, t.d. 265. mál þessa þings, um launabætur, 109. mál þingsins, um samanburð á dagvinnulaunum og tekjum á Íslandi og í nágrannalöndum okkar, og 289. mál, um mat á heimilisstörfum, bara til að nefna nokkur mál sem lúta að því, hygg ég, að reyna að bæta félagslega stöðu.

Það eru mörg fleiri mál sem væri ástæða til þess að nefna hér sem aðrir þm. og aðrir þingflokkar hafa flutt, en ég ætla ekki að lengja mál mitt með því að telja þau upp þó að það væri vel þess virði, en ég vil hins vegar minna hv. flm. á þessa hlið málsins.

Það kom reyndar fram í því sem ég áður las athugasemd í sambandi við réttinn til að fá að lifa. Og þá vil ég og mun víkja nánar að því síðar þegar ég tek fyrir ýmsa þætti frv. að það er talsvert mikið ágreiningsmál hvernig líf er skilgreint, sérstaklega meðal þeirra sem fjalla um upphaf lífs og enda þess í störfum sínum. Þessar skilgreiningar hafa að ýmsu leyti riðlast og breyst vegna aukinnar tækni og ég hygg að hv. flm. viti þetta.

Það er líka ágreiningur meðal leikmanna, eða almennings, sem ekki e.t.v. sinna eða þurfa að vinna eftir ákveðnum skilgreiningarreglum í daglegu starfi sínu við þessi efni. Og mig langar að vitna af þessu tilefni í grein í Morgunblaðinu frá 4, sept. 1986 þar sem Auðólfur Gunnarsson, sérfræðingur í kvensjúkdómum, skrifar í tilefni af nýútkomnu hirðisbréfi biskupsins yfir Íslandi. Og ég vitna í hana, með leyfi forseta, vegna þess að ég tel nauðsynlegt að þessi hlið málsins sé líka rædd því að frv. byggir einmitt talsvert á ákveðinni skilgreiningu á lífi:

„Fyrir ekki svo mörgum árum var læknisfræðileg skilgreining á skilum lífs og dauða tiltölulega skýr og einföld. Staðfesting þess að hjartsláttur og öndun væri ei lengur til staðar var skilgreining lækna á lokum lífsins. Skilgreining á lífi við fæðingu hefur jafnan verið bundin við sömu lífsmörk, þ.e. öndun, hjartslátt og sjálfráðar hreyfingar. Fæðing lifandi barns hefur lengi verið miðuð við fóstur sem náð hefur 28 vikna meðgöngu og/eða 1000 gramma þunga og sýnir áðurnefnd lífsmörk en ella talið fósturlát eða andvana fæðing.

Nútímatækni í læknisfræði hefur riðlað þessum skilgreiningum á upphafi og enda lífsins. Þannig er nú unnt að halda öndun og blóðrás gangandi enda þótt sjúklingur sé í óafturkræfu dái vegna skemmda í miðtaugakerfi. Vegna þessa hefur reynst nauðsynlegt að taka upp nýja skilgreiningu varðandi endalok lífsins, þ.e. heiladauða (neurological death), þegar óbætanlegar skemmdir á æðri hlutum miðtaugakerfis gera sjúkling alls ófæran um að svara umhverfi sínu, enda þótt vefir líkamans haldist lifandi í líffræðilegu tilliti vegna tækni sem heldur blóðrás og öndun gangandi.

Ég veit að sumum finnst vafasamt að binda skilgreiningu á dauða við starfsemi miðtaugakerfisins, en sá sem staðið hefur oft við dánarbeð og fæðingu og tekið þátt í endurlífgun gerir sér fljótt grein fyrir því að mesta breytingin er fólgin í meðvitaðri getu til að svara áreiti og umhverfi sínu sem byggist á starfsemi miðtaugakerfisins sem aftur er háð því að öndun og blóðrás færi því súrefni og næringu. Sá sem í langan tíma sýnir engin merki um starfsemi æðri hluta miðtaugakerfisins er þannig andlega dáinn enda þótt öndun og blóðrás haldist gangandi, e.t.v. með utanaðkomandi aðstoð. Flestir læknar telja nú réttlætanlegt að stöðva tæki og lyfjagjöf sem halda öndun og blóðrás gangandi þegar öll merki um æðri heilastarfsemi er horfin og sýnt þykir að óafturkræfar hellaskemmdir séu það miklar að sjúklingurinn muni ekki framar geta haldið uppi neinum tjáskiptum við umhverfi sitt enda þótt með þessum hætti taki þeir í sínar hendur að ákveða dauðastundina samkvæmt eldri skilgreiningu, þ.e. stöðvun hjartsláttar og öndunar.

Ég hef orðið nokkuð fjölorð um þessa skilgreiningu á endalokum lífsins vegna þess að ýmsir vilja beita svipuðum viðmiðunum við ákvörðun á upphafi andlegs mannlegs lífs. Mörk upphafs mannlegs lífs eru þó e.t.v. enn þá umdeilanlegri en endalok þess í læknisfræðilegum skilningi þar sem með nútímatækni má viðhalda og jafnvel kveikja líf sem annars yrði ekki til eða eyddist.“

Og hann heldur áfram og vitnar reyndar í erlendan sérfræðing og segir, með leyfi forseta:

„Í grein í vísindaritinu Science glímir Clifford Groopestein, prófessor í líffræði og stefnumörkun við Kaliforníuháskóla í Santiago, við þá spurningu hvenær mannlegt líf byrji. Leyfi ég mér að vitna í orð hans í lauslegri þýðingu. Hann setur fram sex fullyrðingar sem hann telur vísindalega sannaðar:

Í fyrsta lagi að líf kviknar af lífi, þ.e. að lif, sem lifandi er í náttúrunni á hverjum tíma, sé framhald á lífi sem áður var til og haldi áfram í komandi kynslóð. Ekkert líf verður til af engu.

Í öðru lagi að mannlegt líf sé hér ekki undantekning. Þannig sé bæði sæðisfruman og eggfruman lifandi mannlegar frumur áður en þær renna saman í eitt við frjóvgun. Frjóvgun sé þannig ekki upphaf mannlegs lífs, heldur þýðingarmikill liður í viðhaldi þess.

Í þriðja lagi sé frjóvgun upphaf nýrrar kynslóðar. Þetta felur í sér annars vegar að eggið heldur áfram að þroskast og ný erfðasamsetning verður til við samruna erfðaþátta frá báðum foreldrunum.

Í fjórða lagi að enda þótt einfrumungurinn sem verður til við samruna frjós og eggs hafi nýja og sérstæða erfðasamsetningu sé hann samt ekki enn þá nýr einstaklingur, þ.e. ekki ný persóna, hvorki út frá vísindalegum né almennum sjónarmiðum. Hann hafi ekki enn þá neina þá eðlisþætti sem einkenni einstakling sem persónu. T.d. sé ekki enn til staðar jafnvel vísir að miðtaugakerfi og hann geti ekki svarað umhverfi sínu á einstaklingsbundinn hátt. Út frá vísindalegu sjónarmiði er þessi nýja fruma ekki endilega upphaf einstaklings þar sem hún getur enn þá skipt sér þannig að úr verði tveir einstaklingar eða jafnvel enginn. Auk þess má a.m.k. í dýratilraunum græða saman tvö frjóvguð egg á frumstigum þeirra svo úr verði samt einn einstaklingur.

Í fimmta lagi má í dýratilraunum á fyrstu dögum eftir frjóvgun og a.m.k. fram á 8. frumustigið auka við eða eyða vissum hlutum frumanna án þess að fóstrið skaddist. Þetta þýðir að í upphafi frumuskiptingarinnar verða til einstakar frumur sem myndað geta heilan einstakling en ekki sérhæfar frumur sem myndað geta aðeins hluta af samræmdri heild.

Í sjötta lagi liða enn nokkrir dagar þar til greina má tvær tegundir af frumum sem annars vegar mynda fóstrið sjálft en hins vegar himnu og fylgju. Enn þá tveim vikum eftir frjóvgun getur fósturvefurinn skipt sér og myndað tvo einstaklinga. Þetta þýðir að á þessu stigi hafa einstaklingseinkenni ekki náð að mótast.

Þessar sex fullyrðingar styðja eindregið þá skoðun að mannlegt líffræðilegt líf sé til staðar hvað frumurnar varðar fyrir, á meðan og eftir frjóvgun. Mannlegt líf flyst þannig milli kynslóða með frumuskiptingu og samruna. Við það myndast frumur með nýrri og sérstæðri samsetningu erfðaeinda, en á frumstigum geta úr þeim myndast einn eða fleiri einstaklingar, jafnvel enginn.“ Þetta veit ég að hefur verið umfjöllunarefni og umhugsunarefni lækna, lögfræðinga, heimspekinga og margra annarra á undanförnum árum. Og ég hef, sérstaklega erlendis, bæði lesið greinar og horft á sjónvarpsþætti þar sem menn reyndu að komast að einhvers konar niðurstöðu um það hvernig ætti að skilgreina. Þessi maður, sem ég vitnaði til, hefur valið þessa leið, en ég vil halda áfram að vitna í greinarhöfund, með leyfi forseta, sem segir:

„Ég hef orðið nokkuð langorður um skilgreiningu á mótum lífs og dauða. Það byggist á því að ég hef viljað færa rök að því að ekki sé réttmætt að líta á það sem tortímingu andlegs, mannlegs lífs ef fóstri er eytt snemma á meðgöngu meðan enn þá eru engin merki um æðri heilastarfsemi. Ekki beri því að líta á þá lækna sem deyðara sem taka úr sambandi vélar sem halda öndun og blóðrás gangandi þegar miðtaugakerfi sjúklings er það alvarlega skaddað að um andlegt líf getur ekki verið að ræða eða framkvæma fóstureyðingu snemma á meðgöngu né þær konur sem láta framkvæma slíkar aðgerðir.“

Og hann lýkur grein sinni með þessum orðum: „Ég held að við eigum að forðast að þröngva persónulegum skoðunum okkar upp á aðra í þessu efni, enda mun væntanlega hver og einn svara fyrir sig þegar hann mætir fyrir hinum æðsta dómi.“

Þetta eru sem sé hans viðhorf og skilgreiningar ásamt skilgreiningum þess erlenda manns sem ég vitnaði til. En ég vil leggja mikla áherslu á það að þetta er ágreiningsefni og fjarri fer því að menn séu á eitt sáttir um það þó að mikið hafi verið reynt að komast að niðurstöðu vegna vaxandi fjölda líffæraflutninga, vegna þess að tæknin leyfir að hjarta manna og öndun sé haldið gangandi þó að heili þeirra sé óstarfhæfur, og svo, síðast en ekki síst, vegna þess máls sem hér er til umræðu, fóstureyðinga og réttmætis þeirra.

En í frv. hefur verið valin önnur skilgreining og ég vil leyfa mér að vitna til hennar, með leyfi forseta. Hún er á bls. 12 í athugasemdum um einstakar greinar frv. þar sem segir í b-lið um 2. gr.:

„Fóstureyðing er samkvæmt lögum nr. 25/1975 „læknisaðgerð, sem kona gengst undir í því skyni að binda endi á þungun, áður en fóstrið hefur náð lífvænlegum þroska“ en samkvæmt frumvarpi þessu „læknisaðgerð sem kona gengst undir til að binda enda á kviknað líf í móðurkviði“. Í þessari breytingu felst viðurkenning á því að líf hafi kviknað við getnað og ekki tekið með í skýringu hugtaksins þroskastig fóstursins. Er þessi skilgreining hugtaksins í samræmi við aðrar greinar laga þessara og heiti þeirra, „Um friðhelgi mannlegs lífs“. " Þetta er auðvitað meginatriði í frv. sem hér er til umfjöllunar og þetta er vissulega sjónarmið sem ég ber fulla virðingu fyrir. En hins vegar vil ég leggja mikla áherslu á það að það eru önnur sjónarmið í þessum efnum og ég held að okkur beri líka að virða sjónarmið annarra og vil þess vegna taka undir lokaorð þeirrar greinar sem ég vitnaði til áðan.

Ég legg enn áherslu á það að fóstureyðing er neyðarúrræði. Ég held að því sé ekki haldið að konum eins og kemur fram í frv. Ég held líka að þrenging laganna komi ekki í veg fyrir fóstureyðingar eins og fram kemur í þessu frv. Við vitum að fóstureyðingar hafa verið stundaðar kannski frá alda öðli, að minnsta kosti um margra áratuga og -hundraða skeið, þrátt fyrir boð og bönn, og í seinni tíð bæði hérlendis og erlendis. Vanalega hefur slíkt verið gert í skúmaskotum með óhreinlegum, heilsuspillandi og oft banvænum afleiðingum. Á síðustu áratugum hefur það svo tíðkast að konur frá löndum þar sem fóstureyðingar eru bannaðar og þá oft vegna trúarlegra sjónarmiða, t.d. í kaþólskum löndum, hafa beinlínis flykkst þangað sem fóstureyðingarlög eru rýmri, eins og t.d. í Englandi, til að leita fóstureyðinga. Meðan ég dvaldist í Englandi, í 13 ár, vissi ég til þess að a.m.k. á seinni hluta þess tímabils voru sérstakar deildir sem tóku að sér, og gera eflaust enn, að framkvæma fóstureyðingar, einkum fyrir erlendar konur. Um slík viðbrögð kvenna geta í raun engin lög ráðið og gilt meðan einhver er reiðubúinn til að framkvæma fóstureyðingar og þeim er frjálst að ferðast.

Mig langar að vitna í þessu tilefni í fréttagrein sem ég rakst á í DV 29. ágúst 1986. Ég sel hana ekki dýrara en ég keypti hana eins og sagt er. Hún er eftir fréttaritara blaðsins sem heitir Pétur Pétursson og er í Barcelona. Hann er að segja frá því hvernig ástandið er á Spáni í þessum efnum og mig langar að lesa það vegna þess sem ég áður sagði, með leyfi forseta:

„Nú um þessar mundir er eitt ár liðið síðan sett var löggjöf sem leyfir fóstureyðingar með ákveðnum takmörkunum á Spáni og olli málið geysilegum deilum á sínum tíma.“ Áfram segir hann nokkru síðar: „Fyrir utan siðferðislega hlið málsins er það ljóst að gífurlegir hagsmunir voru í veði því læknastofur í einkaeign hafa af því geysimiklar tekjur að framkvæma ólöglegar fóstureyðingar.“ Nokkru seinna segir hann: „Löglegar fóstureyðingar hér voru aðeins 200 sl. ár á meðan 90 þúsund spænskar konur létu eyða fóstri erlendis, aðallega í London og Amsterdam. Engin leið er til að komast að því hve mikill fjöldi lét eyða fóstri á ólöglegum læknastofum, oft undir hroðalegum kringumstæðum. Kvensjúkdómalæknir nokkur í London, Timothy Rutter að nafni, hefur vakið málið á nýjan leik. Hann hefur eytt 8 þúsund fóstrum spænskra kvenna sl. ár. Hann hefur nú lýst því yfir að hann muni ekki framkvæma aðgerðir á fleiri spænskum konum fyrr en lögin verði endurskoðuð eða a.m.k. breytt á annan hátt því að ensku lögin séu mjög svipuð. Rutter segir það ekki vera í sínum verkahring að leyna ástandinu og hvetur stjórnina til aðgerða. Hann hefur nú látið gera leiðbeiningablað er auðveldi konum leiðina gegnum lagafrumskóg þann er fara þarf um til að láta eyða fóstri á löglegan hátt hér á Spáni auk þess sem hann hefur látið þýða ensku lögin yfir á spænsku og sent ásamt afriti af þeim spænsku helstu stofnunum í landinu til samanburðar.

Umfjöllun hans hefur valdið svo miklu fjaðrafoki hér að á dögunum lýsti Alfonso Guerra, varaforseti ríkisstjórnarinnar, því yfir að stjórnin væri með til athugunar tillögur ýmissa kvennasamtaka til breytinga á lögunum þar sem ljóst væri að þau virkuðu ekki sem skyldi. Tillögur kvennasamtaka eru flestar á einn veg, að fóstureyðingar verði gefnar algjörlega frjálsar og þær verði öllum að kostnaðarlausu. Þetta sé eina leiðin til þess að koma á kné þeim neðanjarðarlæknastöðvum sem voru starfandi með vitneskju og samþykki allra meðan núverandi lög eru við lýði og ekki sé við það ástand unandi.“ Nú veit ég ekki hvort þetta er allt rétt. Alla vega fannst mér þessi tala geigvænlega há. Ég les þetta hér upp til þess að lýsa upp þann raunveruleika sem blasir við mörgum. Það er mjög erfitt að líta fram hjá honum og ætla sér einungis að þrengja löggjöf án þess að gera nokkuð til að mæta því sem virðist vera þörf á. Þessari þörf má auðvitað mæta á ýmsan hátt til þess að draga úr henni. Ég endurtek enn einu sinni og ítreka að aðstæður kvenna og þekking fólks á kynlífi og notkun getnaðarvarna eru miklu áhrifaríkari þættir til að ákvarða hegðun þeirra í þessum efnum en þrenging laganna.

Næst vil ég víkja að þeim tölum sem hér hafa verið nefndar til að gefa til kynna mikla fjölgun fóstureyðinga hérlendis á undanförnum árum og þá sérstaklega í kjölfar rýmkaðrar löggjafar. Af því sem áður hefur komið fram um ólöglegar fóstureyðingar er fullvel ljóst að ekki er hægt að gera samanburð í þessum efnum. Meðan löggjöf hér var þrengri voru eðlilega færri löglegar fóstureyðingar gerðar. En engin vitneskja er um fjölda þeirra sem gerðar voru ólöglega hérlendis né heldur fjölda þeirra kvenna sem leituðu til annarra landa eftir fóstureyðingu. Því er þessi samanburður ekki marktækur né heldur þær fullyrðingar réttar að fóstureyðingum hafi fjölgað eftir að lögin voru rýmkuð miðað við það sem áður var, einfaldlega vegna þess að við vitum ekki hvernig það var áður. Hins vegar er það alveg rétt að tíðnin hefur farið nokkuð jafnt og þétt vaxandi síðan 1975 þó að eitthvað hafi dregið úr á sl. tveim árum. Þetta er auðvitað áhyggjuefni. Þó vil ég benda hv. þm. á töflu 1 á bls. 5 í grg. frv. og mig langar að biðja þá að bera saman fjölda framkvæmdra fóstureyðinga annars vegar, sem er fjórði talnadálkur töflunnar, og hins vegar fjölda fóstureyðinga á hverjar þúsund konur á aldrinum 15–49 ára eða á barneignaraldri. Þar er nokkur munur á tíðni, einkum á árunum eftir að löggjöfin var rýmkuð.

Ég vil einnig benda hv. þm. á þá staðreynd að þrátt fyrir þessa aukningu hérlendis eru samt enn mun færri fóstureyðingar hér á landi en t.d. í nágrannalöndum okkar eins og Norðurlöndunum. Þá langar mig til að vitna í töflu sem ég fékk frá landlækni og hún gildir reyndar um Norðurlöndin fyrir árið 1984 og varðar tíðni fóstureyðinga á hver 1000 lifandi fædd börn. Í Grænlandi voru þær 609, í Danmörku 400, í Svíþjóð 328, í Noregi 280, í Finnlandi 209 en á Íslandi 177. Og þessi hlutföll standa enn. Ég hef ekki nýjustu tölur en ég veit að þessi hlutföll eru enn mjög svipuð. Ísland er alltaf miklu lægra, eða talsvert lægra en hin Norðurlöndin.

Ég vil hins vegar ítreka í þessu sambandi það sem ég áður minntist á en það er ástand mála hjá unglingsstúlkunum hérlendis. Bæði fæðingum og fóstureyðingum hefur fækkað hjá stúlkum á aldrinum 15–19 ára á hinum Norðurlöndunum í kjölfar aukinnar fræðslu eins og ég minntist á áðan. Samtímis hefur hins vegar fjölgað fóstureyðingum hérlendis hjá þessum aldurshópi. Þetta er auðvitað verulegt áhyggjuefni og brýn ástæða er fyrir okkur til að taka nú höndum saman og tryggja það að I. kafli núgildandi laga, nr. 25/1975 verði framkvæmdur. Til þess þarf fjármagn og það er einmitt skylda okkar að tryggja það að næg fjárveiting fáist þannig að lögskipaðir aðilar, í þessu tilfelli landlæknir og heilsugæslustöðvar og sjúkrahús, geti sinnt hlutverki sínu.

Ég vil nú aðeins víkja nokkrum orðum að frv. umfram það sem ég hef þegar gert og ég legg áherslu á að ég styð sannarlega þann skilning, sem kemur fram í frv., á mikilvægi fræðslunnar og mér finnst það vera ágætur þáttur þess en ég hef þegar sagt að ég telji ekki vera ástæðu til þess að breyta lögunum vegna þess að það eru alveg nógu skýr og skilmerkileg ákvæði um fræðslu í núgildandi lögum.

Það er þá á bls. 2 í frv. sem varðar Ill. kafla, um fóstureyðingar, og 8. gr. undir stafliðnum h, innan sviga 8. gr. Það er þriðji liðurinn undir því þar sem segir, með leyfi forseta: „Þegar ætla má að þungun og tilkoma barns verði stúlku allt að 16 ára aldri of erfið vegna óviðráðanlegra félagslegra ástæðna.“ Það á sum sé að vera ein heimildin. Og þá vil ég gera athugasemd vegna þess að ég tel afar varasamt að binda slíkt við ákveðinn aldur. Þetta fer svo afskaplega mikið eftir einstaklingum hvort eð er, þroska einstaklinga, ýmsum öðrum ástæðum, t.d. félagslegum ástæðum. Það er mjög erfitt að binda slíkt við ákveðinn aldur. Það hlýtur að fara í hverju tilfelli eftir einstaklingi. Og það er vissulega áhyggjuefni fyrir okkur öll að manneskjur sem vart eru komnar sjálfar af barnsaldri skuli annaðhvort lenda í fóstureyðingu eða í því að eiga sjálfar börn. Það getur haft mjög afdrifarík sálræn áhrif á börn að eiga börn sem mjög erfitt getur verið að bæta úr síðar meir. Ég tel mjög varasamt í frv. að binda þetta við ákveðinn aldur fremur en við einstaklinginn og hvernig hún er á sig komin í þessu tilviki.

Á bls. 3 í staflið k um 11. gr. kemur sú hugmynd fram, sem oft hefur skotið upp kollinum, að konur eigi það val eitt að fæða barn og láta það í fóstur eða ættleiða það. Ég hygg að margir þeir sem bera fram þannig hugmyndir hafi ekki upplifað það að vinna á fæðingardeild og sjá ungar stúlkur sem hafa neyðst til þess að gefa börn sín sem þær fæða. Það hlýtur fyrst og fremst að vera hlutverk löggjafans og þjóðfélagsins alls að sjá til þess að ungar stúlkur og konur geti haldið börnum sínum hjá sér og séð fyrir þeim. Það hlýtur að vera úrræðið fyrst og fremst.

Síðan kemur fram á bls. 5 í grg. og varðar Ill. kafla í grg. um reynslu af lögunum. Þar er byrjað að tala um helstu auðkenni þeirra kvenna er fara í slíka aðgerð. Ég vara mjög við þessu vegna þess að ég held að þetta geti verið bæði lítillækkandi og mjög særandi fyrir þær konur sem hafa þurft að velja þetta úrræði. (Gripið fram í.) Já, það má þá segja að það sé jafn... (Gripið fram í.) Þó að það komi úr skýrslunum er það samt eitthvað sem er umhugsunarvert. Ég tek undir þessar athugasemdir sem komu fram hjá Sólveigu Pétursdóttur, hv. 8. þm. Reykv., sem talaði í þessu máli síðast þegar það var til umræðu.

Síðan er sagt nokkuð neðar í næstu málsgr., með leyfi forseta: „Hér eru ekki tök á að fara ítarlega út í þessa könnun en hjá því verður ekki komist vegna þeirra breytinga sem frv. þetta boðar, að gera grein fyrir helstu niðurstöðum til að varpa ljósi á hið raunverulega vandamál fóstureyðandans.“ - Og ég vil spyrja ,hv. 1. flm.: Hver er fóstureyðandi? (GuðmÁ: hvaða blaðsíðu er þetta?) Þetta er á bls. 5. Það er 2. mgr. að ofan. Þar er talað um hið raunverulega vandamál fóstureyðandans.

Síðan skil ég hreinlega ekki þessar setningar hérna sem eru á bls. 6 og ég vildi líka spyrjast fyrir um þær, með leyfi forseta, ef ég les þær. Það er þriðja síðasta málsgreinin að neðan á blaðsíðunni:

„Fóstureyðingar eru þrátt fyrir þessar tölur færri hér á landi en í flestum öðrum löndum, hvað sem veldur. Nærtækast væri að kenna löggjöfinni þar um en fyrrgreindar tölur afsanna þá staðhæfingu. Leita verður frekari skýringa í siðferði Íslendinga og baráttuþreki þeirra til að takast á við vandamál líðandi stundar.

Ætla mætti því að fóstureyðingarlöggjöfin í núverandi mynd sé dulbúnar frjálsar fóstureyðingar og þá til þess eins gagns að fæla þær konur frá fóstureyðingu sem telja að þær geti ekki fengið slíka aðgerð framkvæmda.“ — Ég hreinlega bara skil þetta ekki og vildi biðja hv. 1. flm. að skýra það fyrir mér.

Síðan kemur á bls. 10 sem er 1. mgr. sem byrjar þar í grg. Þar segir, með leyfi forseta:

„Kjarninn í frv. er sá að konunni er frjálst að haga sér eins og samviska hennar býður meðan sú háttsemi skaðar ekki mannréttindi annarra.“ Og þá vil ég taka undir þær athugasemdir sem komu fram hjá hv. 8. þm. Reykv. að það er auðvitað mjög nauðsynlegt að beina ekki sjónum fyrst og fremst að konunni í þessum efnum, hvorki er varðar fræðsluna né annað sem varðar hegðun þó að vísu standi það konunni næst því að þetta er hennar líkami. Við hljótum líka að hugsa um maka konunnar, í þessum efnum. Við hljótum að hugsa um pilta jafnt og stúlkur þegar við tölum um fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir. Við hljótum að ítreka og minnast á ábyrgð beggja aðila í þessum efnum.

Það kemur líka fullyrðing neðar á þessari síðu þar sem segir í 3. mgr.: „Reynslan hefur sýnt að fræðslan ein dugir skammt.“ Og þá vil ég enn og aftur ítreka að henni hefur ekki verið sinnt sem skyldi og þess vegna höfum við í raun enga viðmiðun.

Neðar á þessari sömu síðu, þar sem tekin eru til atriðin sem heimila fóstureyðingar, í næstsíðustu málsgrein á undan athugasemdunum, segir, með leyfi forseta: „Í þriðja lagi er heimiluð fóstureyðing ef móðir er ung að árum. Þessa heimild má gagnrýna út frá sömu forsendu og aðrar heimildir laganna til fóstureyðinga, en það þykir rétt að hafa þessa heimild fyrir hendi að því tilskildu að foreldrar standi með stúlkunni að umsókn um fóstureyðingu og að fóstureyðingin verði stúlkunni ekki til skaða.“ Þetta hlýtur að vera afar erfitt að meta fyrir fram. Og þess vegna vildi ég spyrja: Hvers vegna var þetta sett inn? Ég sé ekki hvernig hægt er í flestum tilvikum að meta þetta fyrir fram.

Í athugasemdum við einstakar greinar frv., og þá um 1. gr., segir í c-lið um 3. gr. á bls. 12: „Gert er ráð fyrir að þessi deild starfi ...“, þ.e. deild sem á að hafa yfirumsjón með fræðslu og ráðgjöf á þessu sviði og ég vitna í þessa setningu, með leyfi forseta: „Gert er ráð fyrir að þessi deild starfi í nánum tengslum við sveitarfélög og Tryggingastofnun og aðstoði fólk sjálft eða með stuðningi þessara aðila til að ala önn fyrir því og barninu.“ Þarna er í raun, að því er mér virðist, tillaga um félagslegar úrbætur en hún er ekkert útfærð og hún kemur hvergi annars staðar fram og ég mundi gjarnan vilja biðja hv. flm. um nánari skilgreiningu á þessu því þetta er afar mikilvægt atriði.

Síðan segir reyndar í fskj. I með grg. með frv. á bls. 15, neðstu línu, með leyfi forseta: „Það má ekki gleymast að val konunnar á oftast að verulegu leyti rætur í afstöðu umhverfisins“. - Þá vil ég enn og aftur leggja áherslu á við hv. flm.: Hvernig væri þá að reyna að breyta umhverfinu en ekki að taka það skref að þrengja lögin? Ég mun ekki fjalla frekar um frv. en að lokum þetta, virðulegi forseti:

Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða þar sem fóstureyðingar eru. Um það eru skiptar skoðanir og bæði konur og karlar bera oft til þess sterkar tilfinningar með eða á móti. Þetta er einnig mál sem varðar grundvallarréttindi kvenna til að ráða yfir líkama sínum og lífi. Fóstureyðing er þó og verður neyðarúrræði og við hljótum öll að vilja draga úr fjölda þeirra eins og okkur er frekast unnt. Það gerum við best, að því að ég hygg, með því að taka höndum saman um að búa vel í haginn fyrir konur og börn og gera samfélagið vinsamlegra börnum og foreldrum þeirra og auka fræðslu um kynlíf og getnaðarverjur. Það tel ég tvímælalaust vænlega leið og mun vænlegri en hér er lögð til. Ég óttast það að þrenging löggjafarinnar hvað varðar heimildir til fóstureyðinga án þess að nokkrar félagslegar úrbætur komi til verði til þess að reka fóstureyðingar aftur á þann vettvang sem býður heim hættum fyrir konur og jafnvel dauða þeirra og verði til þess að auka enn á þann félagslega vanda sem löngu er orðinn óþolandi og smánarblettur á okkar menntaða og ríka þjóðfélagi. Við þurfum að sjá sóma okkar í því að byggja upp þjóðfélag sem er vinsamlegt manneskjum, öllum manneskjum, ungum og öldnum, og einnig þeim sem eru á besta aldri. Það hlýtur fyrst og fremst að vera verkefni okkar. Í þannig þjóðfélagi, þar sem börn eru velkomin, verður minni og vonandi ekki þörf fyrir úrlausn eins og fóstureyðingu nema í undantekningartilvikum.

Ég vil ljúka máli mínu með því að segja: Þegar um ákvörðun eins og fóstureyðingu er að ræða treysti ég engum betur til ákvörðunar en konunni sjálfri. Náttúran hefur falið henni það hlutverk að bera börn, ala þau og annast. Ég tek undir með náttúrunni og treysti engum betur til að gegna þessu hlutverki og ákvarða um það en einmitt konunni sjálfri.