19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6574 í B-deild Alþingistíðinda. (4567)

382. mál, fóstureyðingar

Flm. (Guðmundur Ágústsson):

Frú forseti. Mig langar að svara þeim gagnrýnisröddum sem hafa komið fram á frv. sem ég er 1. flm. að, um breytingar á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Áður en máli þessu var frestað talaði hv. 4. þm. Vestf. um þetta mál og fann því helst það til foráttu að í því væri heimild til fóstureyðinga á félagslegum grunni og vísaði hann til þeirrar greinar í frv., h-liðar sem varðar 8. gr., 3. mgr. þeirrar greinar. Að öðru leyti virtist mér hann taka undir meginhugsunina sem þarna kemur fram, að leggja áherslu á líf hins ófædda og það að takmarka eigi mjög verulega fóstureyðingar hér á landi. Þakka ég honum fyrir þau orð sem hann lét falla um þetta frv.

Hv. 8. þm. Reykv. Sólveig Pétursdóttir ræddi einnig um frv. og leit aðallega til þess að í grg. frv. kæmu fram rosalegar tölur um fjölda fóstureyðinga hér á landi. Hún lagði mikla áherslu á að draga úr þessari tíðni og sagði að við þyrftum að gera allt sem í okkar valdi stæði til þess að svo gæti orðið. Tók hún undir margt það sem fram kemur í þessu frv. og þá sérstaklega varðandi breytingar á II. kafla frv. sem varðar ráðgjöf og fræðslu.

Nú síðast talaði hv. 6. þm. Reykv. og fór yfir frv. lið fyrir lið og þá hugsun sem það er byggt á. Henni fannst að það væri ekki byggt á þeim forsendum sem hún hefði helst viljað. Hún telur raunar að engin ástæða sé til að breyta núverandi löggjöf á þessu sviði. Telur hv. 6. þm. Reykv. að sú löggjöf sem nú er fullnægi þeim skilyrðum sem gera verður til laga um fóstureyðingar, en gagnrýndi hins vegar mjög ráðgjöfina og fræðsluna sem ekki væru í samræmi við það sem rætt hafi verið um þegar lögin voru samþykkt. Get ég vel tekið undir þessa síðari gagnrýni hennar á núgildandi lög, enda eru lagðar til í þessu frv. verulegar breytingar á þeim kafla laganna sem fjallar um ráðgjöf og fræðslu. Þar er tekið inn í að fræðslan skuli byrja í grunnskóla og síðan halda áfram og gert er ráð fyrir að landlæknisembættið taki við og aðstoði foreldra sem búa við erfiðar heimilisaðstæður.

En aðalgagnrýnin var samt sú að við hefðum ekki lagt nógu mikla fjármuni í þetta ráðgjafar- og fræðslustarf. Raunar taldi hv. þm. að það hefði litla þýðingu að breyta lögunum ef það fylgdi ekki með að eytt yrði meiri fjármunum í þetta. Í sjálfu sér get ég tekið undir það sjónarmið en hins vegar tel ég að þær breytingar sem hér er verið að boða knýi á um að gert verði eitthvað í þessum málum. Raunar tel ég að margt sem kemur fram í þessu frv. tengist betur núverandi kerfi á mörgum sviðum en gömlu lögin gerðu ráð fyrir.

Þá vil ég einnig benda á að þegar ég flutti mína framsöguræðu með frv. gerði ég ráð fyrir að því mundi fylgja annað frv. sem fæli í sér að reynt yrði að bæta stöðu þeirra foreldra sem eiga börn og hafa átt börn. En því miður tókst ekki að koma því frv. fram á þetta þing. Vonast ég eftir því að það verði lagt fram á næsta þingi. En það er alveg rétt að það má gagnrýna þetta frv. fyrir það að því fylgi ekki neinar aðrar breytingar en í því er kveðið á um. Eins og oft er eru orðin ein lítils virði ef ekki á að fylgja einhver framkvæmd á eftir. Ég tek á mig þessi andmæli en sá vilji sem hér kemur fram um að auka ráðgjöfina og fræðsluna átti ekki bara að byggjast á þeim orðum sem þarna komu fram heldur áttu að fylgja verulegar umbætur til handa foreldrum sem afráða að eiga börn í staðinn fyrir að fara í fóstureyðingu. Ég held að fram komi í grg. að þetta hafi verið sá andi sem bjó að baki, enda kom það fram í máli síðasta ræðumanns, hv. 6. þm. Reykv., að við gerum ráð fyrir því að sú deild innan landlæknisembættisins hafi mjög víðtækar heimildir til að aðstoða fólk sem lendir í vandræðum vegna barneigna og hún geti komið til aðstoðar í gegnum Félagsmálastofnun eða þá sjálf með beinum framlögum eða við útvegun húsnæðis.

Það kom fram í máli hv. 6. þm. Reykv. að lögin sem nú eru í gildi virða grundvallarréttindi kvenna. Af þessu mátti skilja að þetta frv. gerði það ekki. Ég er ósammála hvoru tveggja. Ég vil einmitt miða við það að þetta frv. líti til konunnar og einnig barnsins eða fóstursins, en þau lög sem nú eru í gildi þjóni hvorki hagsmunum konunnar né hins ófædda. Það geta ekki verið lög sem hugsa um grundvallarréttindi kvenna sem heimila henni að grípa til ráðstafana sem eru andstæðar hennar skoðun. Þau lög sem nú eru í gildi eru þessu marki brennd að þau heimila konunni að grípa til fóstureyðinga, búi hún við „óviðráðanlegar félagslegar aðstæður“, eins og segir í lögunum.

Ég vil lýsa því yfir að hugmynd mín og míns flokks með framlagningu þessa frv. var alls ekki sú að því skyldi stefnt gegn konunni, heldur að við viljum líta á hagsmuni hins ófædda og það sé það grunnviðhorf sem þurfi að vera í löggjöfinni að virða mannréttindi allra, ekki bara þeirra sem hafa fæðst inn í þennan heim, heldur líka þeirra sem koma þangað og eru, má segja, á leiðinni.

Síðasti ræðumaður, hv. 6. þm. Reykv., eyddi nokkrum tíma í að tala um upphaf og lok lífsins og tók skýrt fram að það sem hún segði í þeim efnum væri ekki það sem allir gætu sætt sig við að væri hið rétta. Hún markaði að vísu ekki upphafið og ekki heldur lokin en kom með ýmsar kenningar þar að lútandi sem voru dálítið fljótandi. Ég get vel tekið undir það að mjög erfitt er að ákveða hvenær lif hefur kviknað og hvenær maður er látinn. Hins vegar getum við almennt séð ákvarðað báða þættina út frá málvenju og því sem við teljum að sé nokkurn veginn það rétta.

T.d. varðandi lok lífsins, þá eru allir sammála því að maðurinn er ekki látinn fyrr en a.m.k. annaðhvort helladauði eða hjartadauði hefur komið til. Það má kannski minna á að í Hollandi er nýbúið að samþykkja lög þar sem heimilt er manndráp á fólki sem þjáist af ákveðnum sjúkdómum. Þá er spurning hve langt er á milli lífsins og dauðans og hvaða verðmæti eru þarna lögð að baki.

Ég tel alveg ljóst að 10 vikna gamalt fóstur er líf í þeim skilningi sem flestir vilja leggja í hugtakið líf.

Það kemur fram í greinargerð frv. að það líf er byrjað að hreyfast af sjálfu sér og það líf hefur fengið alla stærstu og mestu líkamshluta, eða hjarta, lungu og fleira. Þá eru allir útlimir komnir og byrjaðar að myndast á þeim neglur.

Ég er alveg sammála síðasta ræðumanni að því leyti að hér þarf margt að bæta varðandi ytri aðstæður. En ég vil ekki taka undir það sem hún sagði, að ytri aðstæður og fóstureyðingar mætti tengja saman. Ég tel að þarna sé um tvo ólíka þætti að ræða. Annars vegar er lífið sem slíkt og hins vegar hvernig umhverfið er. Ég tel það fyrir neðan allar hellur að tengja þetta tvennt saman. Ég vil bara minna á að ekki eru nema 20–30 ár síðan slíkar heimildir voru ekki í lögum og þá datt fólki ekki í hug að fara fram á fóstureyðingar. Þá voru félagslegar aðstæður miklu verri en í dag.

Ég vil líka benda á að fóstureyðing bindur enda á líf sem er byrjað að þróast, líf sem annars hefði fæðst. Síðan er það líka spurning hvaða verðmæti þjóðfélagið á að virða. Á það að virða líf konunnar framar lífi fóstursins eða á að reyna að taka tillit til þessara beggja sjónarmiða? Í mínum huga er alveg ljóst að við eigum að sníða löggjöf að því að virða líf hins ófædda. Hins vegar á ríkisvaldið að sníða þjóðfélagið að konunni og því mannfólki sem þar er og allir eiga að vera velkomnir í þetta líf.

Sami hv. þm. gerði samanburð milli Norðurlanda og sagði að fóstureyðingar væru fæstar hér á Íslandi. Það er nokkuð til í því og ekki borið á móti því. Hins vegar benda allar tölur til þess að við séum óðfluga að nálgast þessar þjóðir. Á meðan fóstureyðingum fer fækkandi á Norðurlöndum aukast þær hér á Íslandi.

Það var gagnrýnt að í lögunum skyldi vera heimild fyrir 16 ára stúlkur til að fara í fóstureyðingu og því haldið fram að það væri óheppilegt að miða við ákveðinn aldur því þroskastig stúlkna væri mjög mismunandi. Það er nokkuð rétt. Hins vegar finnst okkur höfundum þessa frv. að þessi heimild þurfi að vera fyrir hendi. Vegna 16 ára stúlkna og raunar barna alveg niður í 13 ára aldur sem hafa orðið barnshafandi finnst mér að þjóðfélagið krefjist þess að slíkar heimildir séu fyrir hendi.

Í sömu umfjöllun var spurt um hvað það þýði sem segir í grg. á bls. 10: „að fóstureyðingin verði stúlkunni ekki til skaða“. Spurt er hvað þetta þýði og hvort þarna sé verið að útiloka fóstureyðingu á þessum grundvelli. Svo er ekki, heldur verður þarna að leggja almennt mat á það hvort ákveðin fóstureyðing hafi í för með sér meiri skaða en almennt gerist. Þarna er ekki verið að þrengja heimildina meira en felst í orðunum.

Minnst var á ákvæði í 11. gr. um ættleiðingu. Í sjálfu sér get ég tekið undir það sjónarmið að ekki eigi að hvetja konur til að fæða börn til þess að gefa þau. Hins vegar finnst mér það sem fram kemur í 11. gr. ekki vera þess eðlis að að því sé stefnt, heldur er þar sagt:

„Áður en fóstureyðing má fara fram er skylt að upplýsa konuna sem fer fram á aðgerðina um fóstrið og þroskastig þess, áhættuna samfara aðgerðinni og hugsanleg eftirköst. Enn fremur um þá félagslegu aðstoð sem henni stendur til boða og þann kost að láfa barnið í fóstur eða láta ættleiða það.“

Þarna er einungis verið að koma í veg fyrir að fóstureyðing eigi sér stað og konunni sé gerð grein fyrir öllum þeim möguleikum sem fyrir hendi eru án þess að á einn eða annan hátt sé verið að mælast til eins eða annars.

Í ræðu hv. 6. þm. Reykv. og raunar í ræðu 8. þm. Reykv. Sólveigar Pétursdóttur er gagnrýnt orðavalið „auðkenni þeirra kvenna sem hafa farið í fóstureyðingar“ og haldið fram að þarna sé farið niðrandi orðum um konur. Ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir því, enda var það ekki tilgangurinn með því að koma þessu orði þarna inn að fara niðrandi orðum um konur. Þetta er tekið beint upp úr heilbrigðisskýrslum sem útgefnar voru af landlæknisembættinu árið 1975. Mér fannst ekki rétt að breyta því orðalagi, enda er hér hvað eftir annað vitnað í þessa heilbrigðisskýrslu sem grundvöll þeirra upplýsinga sem raktar eru í þessum kafla frv.

Einnig var gagnrýnt að lítið er minnst á hlut karlmannsins. Get ég tekið undir þá gagnrýni. Að sjálfsögðu viljum við flm. þessa frv. ekki síður kalla hann til ábyrgðar fyrir fóstureyðingum. Hins vegar eru þessi mál sem varða fóstureyðingar og kannski sú löggjöf sem nú er í gildi að meginstefnu byggð í kringum konuna. Af þeim augljósu ástæðum hefur þetta verið talið fyrst og fremst mál kvenna. Ég get sem dæmi nefnt að ég veit um tvö nýleg tilvik þar sem karlmaður reyndi að hindra konu í því að fara fram á að fá fóstureyðingu. Þeir fengu engu áorkað í þeim efnum gegn vilja konunnar. Eftir því sem mér skildist tóku þeir félagsráðgjafar sem um málið fjölluðu heldur ekkert tillit til þess sem karlmaðurinn eða eiginmaðurinn hafði að segja um málið.

Síðasti ræðumaður sagði í lokaorðum sínum: Ég treysti engum til að fara betur með barn en konunni. Ég get að sjálfsögðu tekið undir þessi sjónarmið. Hins vegar má ekki gleymast að karlmenn eru til og þeir eru jafnmiklar tilfinningaverur oft og tíðum og kvenmenn. Sá hugsunarháttur sem beinist að því einu að það eigi að hugsa um konuna er ekki réttur og gefur mjög brenglaða mynd af þjóðfélaginu.

Ég hef hér reynt að fara yfir þau atriði sem ég hafði skrifað hjá mér til að svara þeirri gagnrýni sem á þetta frv. hefur komið og eflaust gleymt einhverju. Það stafar ekki af því að ég geti ekki skýrt það út, heldur fyrst og fremst af því að ég hef ekki náð því niður.

Að lokum vil ég leggja áherslu á og ítreka það sem ég sagði í upphafi framsöguræðu minnar, að ég held að við þurfum að gera eitthvað til þess að draga úr fóstureyðingum. Hins vegar er spurning um leiðir að því marki. Á að þrengja löggjöfina og þá að auka í leiðinni ráðgjöf og fræðslu? Eða á að hafa lögin óbreytt og þá miða við það sem gerst hefur á undanförnum árum og gera ekki neitt? Ég held að við þurfum að hugsa um þessi mál miklu meira en við höfum gert og með því hugarfari að reyna að draga eins mikið og hægt er úr fóstureyðingum í stað þess að horfa aðgerðalaus á það sem er að gerast.