19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6582 í B-deild Alþingistíðinda. (4569)

382. mál, fóstureyðingar

Flm. (Guðmundur Ágústsson):

Frú forseti. Ræða síðasta ræðumanns kom mér töluvert á óvart, fyrir það fyrsta að hann skuli hálfpartinn mælast til þess að við drögum þetta frv. til baka og halda því fram að þetta frv. hefði aldrei átt að koma hingað á þingið.

Málið snýst ekki um það hvort þau einstöku atriði sem fram koma í þessu frv. og sem gagnrýnd hafa verið mest, einstakt orðaval, eigi rétt á sér eða ekki, heldur hitt hver er meginkjarninn í frv., sá meginkjarni sem við flm. teljum að þurfi að búa að baki því þjóðfélagi sem við viljum lifa í. Það er í fyrsta lagi að mannréttindi skulu vera í heiðri höfð og æðstu mannréttindi hvers og eins er rétturinn til að fá að lifa. Án þeirra mannréttinda eru engin önnur mannréttindi til. Svo einfaldur er sá kjarni sem býr að baki þessu frv.

Það sem síðasta ræðumanni var tíðrætt um er að draga í efa gildi þeirra gagna sem lögð eru til grundvallar þessu frv. um tíðni fóstureyðinga. Það skal upplýst hér að allar upplýsingar koma beint frá landlæknisembættinu úr heilbrigðisskýrslum og þær ályktanir sem dregnar eru í seinni hluta grg. eru allar fengnar þaðan um tölulegar upplýsingar.

Ég get tekið undir fullyrðingu hjá síðasta ræðumanni um muninn á læknisfræðilegum og félagslegum ástæðum. Hlutfallslega hefur læknisfræðilegum ástæðum fækkað en tölulega hafa þær staðið í stað. Það er jafnmikill fjöldi fóstureyðinga á grundvelli læknisfræðilegra ástæðna nú og áður eða mjög svipaður. Hins vegar hefur tíðni fóstureyðinga á grundvelli félagslegra ástæðna aukist mjög mikið. Ég þori ekki að nefna ákveðnar tölur um það hvað margar fóstureyðingar eru framkvæmdar hér á læknisfræðilegum grunni og hvað það hefur verið en mér telst svo til að það séu í kringum 200. Sá fjöldi hefur haldist óbreyttur síðan 1970. Hins vegar hefur fjöldi fóstureyðinga af félagslegum ástæðum farið mjög vaxandi eins og fram kemur í þeim skýrslum sem prentaðar hafa verið í grg.

En hvað kemur fram í grg. varðandi fjölda fóstureyðinga? Það kemur fram svo að ekki verður um villst að fóstureyðingum hefur jafnt og þétt fjölgað frá ári til árs nema hvað á síðustu tveimur árum hefur þeim fækkað að einhverju leyti. Á bls. 5 í grg. sést þetta nokkuð vel. Þar kemur fram að árið 1976 voru fóstureyðingar 368. Þá voru það 8,6% á fjölda 100 lifandi fæddra. Árið 1980 eru fóstureyðingar 538 og er þá talan komin í 11,6% miðað við fjölda á 100 lifandi fæddra. Árið 1983 eru fóstureyðingar 689 og eru það 15,8% miðað við fjölda á 100 lifandi fæddra. Árið 1984 er talan komin uppi í 745 og er það 18,1% á fjölda 100 lifandi fæddra sem þýðir að af 100 fæðingum enda 18,1 með fóstureyðingu. Þetta eykst árið 1985 og er þá 18,3. Árið 1986 eru þetta 17,6. Það hefur aðeins fækkað árið 1986 en skv. upplýsingum frá landlæknisembættinu lágu ekki fyrir tölur um árið 1987 í síðasta mánuði. Þetta eru þær staðreyndir sem liggja fyrir.

Það sem þetta þýðir er sú hrikalega staðreynd að tæplega fimmta hver þungun endar með fóstureyðingu. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta var ekki hugsunin þegar frv. var samið 1975. Þegar ég las umræður á Alþingi var rætt um miklu lægri tölur en þetta.

Til upplýsingar get ég sagt frá lauslegri könnun í bekk sem ég kenni. Ég spurði nemendur að því hvað þeir héldu að væru margar fóstureyðingar framkvæmdar miðað við 100 lifandi fæddra. Maður heyrði tölurnar frá 2 upp í 10. En þegar sú staðreynd kom í ljós að það væru 17 blöskraði öllum.

Ég held að það sem fram kom hjá síðasta ræðumanni, að það sé bara vitleysa og rugl í þm. Borgaraflokksins að vera að koma með svona frv., lýsi hugsunarhætti þeirra manna sem tala þau orð og sem vilja ekki umhyggju fyrir lífinu, hvorki fóstrinu né öðru, né mannréttindi sem þeir hafa að vísu reynt að berjast fyrir með kjafti og klóm á þinginu. En ég vil ítreka það að þær upplýsingar sem koma fram í greinargerðinni eru teknar upp úr því sem fram kemur í heilbrigðisskýrslum og eru sem sagt ekki tilbúningur þeirra manna sem sömdu þetta frv.

Síðasti ræðumaður talaði um tvískinnungshátt í okkur sem leggjum fram þetta frv. að byggja frv. upp á því að lífið sé friðhellagt og síðan að koma með undantekningar frá því. Ég er alveg sammála honum í því að þegar samin eru lög eigi að hafa reglurnar sem skýrastar og reyna að komast hjá undantekningum. Að sjálfsögðu viðurkennum við að til eru aðstæður í þjóðfélaginu sem samkvæmt vilja fólksins kalla á það að vikið sé frá þeirri grundvallarreglu sem þarna kemur fram um friðhelgi mannlegs lífs. Það má minnast á fyrstu undantekninguna: Þegar líf og heilsa móður er í hættu, hvort á að fórna fóstrinu eða móðurinni? Það er ákvörðun okkar sem sömdum þetta frv. að í þeim tilvikum skuli heimiluð fóstureyðing og móðirin sé rétthærri í þeim tilvikum.

Í öðru lagi er talað um að heimila fóstureyðingu þegar sterkar líkur eru fyrir því að barn fæðist vanskapað eða sé haldið mjög alvarlegum sjúkdómi. Aðallega er vitnað til þess að það sé haldið mjög alvarlegum sjúkdómi. Ég held að þetta sé bara mannúðarástæða.

Í þriðja lagi er tekið fram að ef kona verður ófrísk sem afleiðing af refsiverðum verknaði skuli heimila fóstureyðingu. Þetta er ákvæði sem hefur verið í lögum alla tíð og ég held að það sé almennt viðhorf í þjóðfélaginu að heimila skuli fóstureyðingar á slíkum grundvelli.

Í fjórða lagi er síðan tekið fram að ef kona eða stúlka er ung að árum skuli heimila fóstureyðingu. Ég held að það sjónarmið eigi líka hljómgrunn hjá fólki og mundi vekja mikla tortryggni gagnvart þessu frv. og því ætlunarverki sem frv. þetta mælir fyrir um ef slík heimild yrði ekki fyrir hendi.

Því miður varð að koma með þessar undantekningar. Ég er meira að segja inni á því að ef rök eru fyrir fleiri ástæðum finnst mér í lagi að athuga slíkt.

Það er ekki rétt, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, að við séum að kveða upp dóm yfir konum. Í fyrri ræðu minni hér í dag, þegar ég mælti með þessu frv., tók ég það sérstaklega fram og hef reynt að haga mínum málflutningi þannig, ekki að níða konur niður eða gera nokkuð á þeirra hlut. Ég skil mjög vel afstöðu kvenna til bæði fóstureyðinga og fleira er þær varðar og tel raunar að þær ættu að hafa meira vægi í þessu þjóðfélagi. En þegar það varðar þennan þátt lífsins held ég að það megi takmarka þeirra rétt og tel það raunar sjálfsagðan hlut þegar um frelsi annars er að ræða, hvort sem um er að ræða konu eða karl. Ég geri ekki greinarmun þar á milli.

Í mínum huga snýst þetta mál ekki um konuna sem slíka þó að hún þurfi að bera fóstrið eða barnið undir belti. Þetta mál snýr að þjóðfélaginu sem slíku og því verðmætamati sem við viljum leggja í einstaka hluti og þá sérstaklega lífið sjálft. Þarna er ekki verið að takmarka frj álsræði konunnar, heldur verið að veita öðrum aðila, fóstrinu eða barninu rétt til að lifa. Við slíkar kringumstæður tel ég mjög eðlilegt að aðrir hagsmunir, og þá sérstaklega þeirra sem eldri eru, þurfi að víkja.

Ein aðalröksemdin gegn því að þrengja fóstureyðingalöggjöfina er sú að það kosti það bara að konur fari til útlanda. Ég er ekki sannfærður um það. Þó svo það hafi átt sér stað áður fyrr treysti ég kvenfólki það mikið - og kannski meira en þær gera sjálfar — að það muni hugsa sig alla vega tvisvar um og örugglega oftar áður en lagt er í slíkar utanlandsferðir.

Þá má varpa fram annarri spurningu vegna orða þeirra tveggja sem talað hafa hér í dag um fóstureyðingar: Af hverju ekki að heimila frjálsar fóstureyðingar? Af hverju er verið að hafa lögin undir rós? Af hverju er verið að tala um félagslegar aðstæður? Ég hélt að ég hefði reynt að sýna fram á það í framsöguræðu minni og raunar kemur það fram í grg. að sú kona sem fer fram á fóstureyðingu fær hana. Þær tölur sem liggja fyrir um þessi atriði tala sínu máli. Raunar er það sem fram kemur í grg. tekið beint upp úr heilbrigðisskýrslum. Þar kemur fram að aðeins 3–18 konum á ári sé synjað um fóstureyðingar og þá á þeirri forsendu að þær hafi gengið með fóstri í 12 vikur eða lengur og að ástæðurnar sem þær bera fyrir sig eru af félagslegum toga. Það kemur ekki fram í heilbrigðisskýrslum að konu hafi verið neitað á forsendu þess að aðstæður heima við væru mjög góðar.

Það er ástæða til að fara aðeins betur ofan í einstaka liði í grg. Hvaða konur eru það sem fara fram á fóstureyðingar? Fram kemur að það eru ekki þær konur sem flestir tala aðallega um, einstæðar mæður, heldur eru þetta aðallega nemar og ógiftar konur sem vinna í þjónustustörfum.

Ég vil að lokum þakka fyrir þær umræður sem orðið hafa um þetta frv. og vona að þó að það verði kannski ekki samþykkt á þessu þingi verði það alla vega til þess að vekja upp umræður um fóstureyðingar og hvernig við viljum haga þessum málum í framtíðinni, eins og raunar hefur gerst. En ég tel að núverandi löggjöf á þessu sviði hafi ekki borið nægilegan árangur, hvorki er varðar ráðgjöfina og fræðsluna né er varðar fóstureyðingarnar sem slíkar og þá þær forsendur sem fóstureyðingar eiga að byggjast á.