19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6590 í B-deild Alþingistíðinda. (4572)

271. mál, framhaldsskólar

Frsm. 1. minni hl. menntmn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 1. minni hl. menntmn. Nd. og þeim brtt. sem kvennalistakonur leggja til við frv. til laga um framhaldsskóla sem hér liggur frammi til umræðu. Nál. hljóðar svo:

„Þó að halda megi fram með nokkrum rökum að skortur á löggjöf hafi auðveldað jákvæða og öra þróun mála í framhaldsskólum er tímabært að setja um þá rammalöggjöf. Frv. það, sem nú liggur fyrir deildinni til 2. umr., er um margt ágætt, en þó er þar ýmislegt sem Kvennalistinn getur ekki sætt sig við og leggur því fram töluvert margar breytingartillögur.

Síbreytilegar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á öfluga og góða framhaldsskóla þar sem stöðug endurskoðun fer fram. Hlutverk framhaldsskóla mótast annars vegar af þörfum þeirra einstaklinga sem hann sækja, hins vegar af þörfum þjóðfélagsins í nútíð og framtíð. Að áliti Kvennalistans eru engir betur færir um að standa vel að verki í mótun og þróun skólastarfsins en þeir sem næst því standa og því nauðsynlegt að tryggja sjálfsforræði skólanna. En það er einmitt í stjórnunarþætti frv. sem helstu agnúa þess er að finna að mati Kvennalistans.

Tvær meginástæður liggja til grundvallar skoðun Kvennalistans. Í fyrsta lagi er það andstætt hugmyndum okkar um valddreifingu að lítilli fimm manna nefnd, sem er samsett af fjórum pólitískt kjörnum fulltrúum og einum skipuðum af menntamálaráðherra, séu veitt svo mikil völd og áhrif bæði um þróun skóla, innra starf, námsbrautir og rekstur. Í öðru lagi þykja okkur fagleg sjónar:nið fyrir borð borin með þessu fyrirkomulagi. Eru þau þó virt í frv. þegar fjallað er um sérstaka fagmenntun, svo sem iðnnám eða nám í sjávarútvegsfræðum. Einnig er að finna í frv. ákvæði um sem víðtækust samráð við atvinnulífið. En þegar að hinni almennu menntun kemur eiga pólitískt kjörnir fulltrúar að hafa vit fyrir fagfólki, nemendum og öðrum þeim sem starfa innan veggja skólans.

Menntmn. bárust umsagnir frá flestum framhaldsskólum í landinu, samtökum kennara, skólameistara o.fl. og kallaði auk þess til viðtals ýmsa aðila. Það gekk eins og rauður þráður í gegnum umsagnir og viðtöl með örfáum undantekningum að gjalda varhug við of miklu valdi skólanefnda. Þar fara því skoðanir Kvennalistans og skólafólks saman. Þessu til stuðnings skal vitnað til eftirfarandi umsagna:

1. Í umsögn kennslumálanefndar HÍ segir m.a.: „Þó að við viljum að mestu leiða hjá okkur ákvæði frv. um stjórn framhaldsskóla gerum við okkur ljóst að þau geta haft varanleg áhrif á það hversu vandað og markvisst starf verður unnið í skólunum. Eitt mikilsverðasta atriðið í þessu samhengi er ákvæði 6. gr. um skipun skólanefnda. Okkur er ljóst að heilbrigður metnaður hins almenna borgara á skólasvæðinu getur vissulega orðið skólanum lyftistöng ef rétt er á haldið. Dæmi um slíkt eru vel þekkt bæði hér á landi og erlendis. Hins vegar er ekki víst að þetta sé tryggt með þeirri tilhögun að skólanefnd sé eingöngu skipuð mönnum sem þiggja umboð sitt frá ráðherra og sveitarfélögum. Meðal annars felur slíkt fyrirkomulag í sér hættu á því að skólanefndir sinni einkum fjármálum skólanna og skoði allt skólastarfið í ljósi þeirra og hefði þá lítið áunnist. Þessu mætti hins vegar breyta með ýmsu móti, t.d. með því að í skólanefnd væru tveir fulltrúar kosnir beinni einstaklingsbundinni kosningu á skólasvæðinu um leið og sveitarstjórnarkosningar fara fram.“

2. Í umsögn Bandalags kennarafélaga segir m.a.: „BK telur að skólanefndin samkvæmt frv. sé bæði of fámenn og valdamikil um innri mál skólans. Þar vantar einnig fulltrúa kennara sem er algert skilyrði af hálfu BK enda í anda atvinnulýðræðis nútímans. Eðlilegt verður að teljast að skólanefnd fjalli um fjármál og rekstur skólans en hins vegar alls óeðlilegt að fela henni innri stjórn.“

3. Í ályktun fundar kennara við Menntaskólann við Sund segir m.a.:

„Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að pólitískt kjörnar nefndir, ein fyrir hvern skóla, fari hér eftir með skólastjórn, þar með einnig stjórn þeirra mála sem hingað til hafa verið í höndum kennara og skólastjóra. Þarna er að okkar dómi vegið stórlega að sjálfstæði skólanna þegar kennarar og skólastjórar eru nánast sviptir öllum ráðum.“

Þær brtt., sem liggja frammi á þskj. 850, hníga flestar í þá átt að draga úr valdi skólanefnda, en fela það í staðinn skólaráði sem skipað er fulltrúum nemenda og kennara. Auk þess ætlum við faggreinafélögum, deildastjórn o.fl. stærri hlut en gert er ráð fyrir í frv. eins og það liggur fyrir. Í stuttu máli vill Kvennalistinn draga úr áhrifum pólitískt kjörinna fulltrúa, en auka að sama skapi áhrif skólafólks. Með tilliti til þess sem segir í upphafi nál. um jákvæða þróun framhaldsskólakerfisins þegar skólafólk ræður ferðinni telur Kvennalistinn með öllu óverjandi að svipta það nú því forustuhlutverki.

Ein brtt. er um stofnun mötuneyta við framhaldsskóla og um að nemendur greiði einungis hráefniskostnað. Að áliti Kvennalistans er þetta mikið nauðsynjamál sem stuðlar að heilsuvernd og hollustuháttum, auk þess sem breyttir þjóðfélagshættir kalla á þessa starfsemi í öllum skólum.

Að þessum tillögum samþykktum leggur 1. minni hl. til að frv. verði samþykkt.“

Það er kaldhæðnislegt að við skulum hér á hinu háa Alþingi vera að ræða um frv. til laga um framhaldsskóla á sama tíma og kennarar standa í harðvítugri kjarabaráttu þó fóturinn hafi nú verið settur fyrir þá í bili. Maður óttast að stefni í neyðarástand í haust og var þó ekki úr háum söðli að detta. Fleiri hundruð réttindalausir kennarar við störf, langt frá því að jafnrétti til náms hafi náðst, kennarar illa launaðir og lítilsvirtir. Það á eftir að koma í ljós hversu margir skila sér til starfa í haust, en manni býður í grun að mikil vanhöld verði og lái þeim hver sem vill. Ár eftir ár reyna þeir að fá bót sinna mála og ástæða er til að undirstrika að kennarar eru ekki einungis að hugsa um eigin hag. Ég held að stéttin sem heild beri hag nemenda fyrir brjósti ekki síður en eigin og þar af leiðandi framtíð þjóðarinnar. En ekki er á þá hlustað. Virðing stéttarinnar og sjálfsvirðing hennar þver með hverju ári og hver og einn kennari hlýtur að hugsa sitt ráð vandlega í sumar. Eru þeir allir til í eitt verkfallið enn í haust, það tekjutap sem því fylgir, óvissuna um árangur og staðfestu? Stjórnvöld láta engan bilbug á sér finna, svara helst hálfgerðum skætingi og innihaldið er: Ég held þetta sé fullgott fyrir ykkur. Þetta er svo sem í fullkomnu samræmi við aðra stefnu í uppeldis- og menntamálum þjóðarinnar. Áhuga- og skeytingarleysið um uppeldi og menntun barna og unglinga er með ólíkindum og fyrirlitning á þeim sem annast þessi störf og hafa menntað sig til þeirra eftir því. Menntun og menning skiptir engu máli nema sem efni í ræður. Peningar, peningar og aftur peningar, neysla, neysla og meiri neysla eru einkunnarorð dagsins, rík þjóð sem stefnir í að verða blásnauð af öllu nema efnalegum gæðum og það mikið misskiptum.

Því geri ég þetta að umtalsefni hér í sambandi við frv. sem liggur frammi til umræðu að helstu vankantar þess eru að mínu viti af sama meiði og sú vanvirða sem kennurum er sýnd í launa- og fagbaráttu sinni. Hlutur kennara og fagfólks er að miklu leyti fyrir borð borinn og er gert ráð fyrir pólitískt kjörnum skólanefndum í staðinn. Menn segjast gera þetta í valddreifingarskyni, þ.e. að losa skólana undan menntmrn. og beina áhrifum og valdi til sveitarfélaganna. Gott og vel. En þá er ýmislegt til að taka.

Í fyrsta lagi er auðvitað menntmrn. falið mikið vald áfram án ákvæða um samráð við aðra og í öðru lagi er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi formenn allra skólanefnda og er þá valddreifingin orðin dálítið sérkennileg. Hvergi er gert ráð fyrir að faglega þekkingu þurfi til skólastjórnar eða stefnumótunar í menntunarmálum þjóðarinnar. Að vísu er skólameistari tilkallaður, en samkvæmt orðanna hljóðan er hann fyrst og fremst framkvæmdastjóri og sér um að framkvæma ákvarðanir skólanefndar en má þó vera með í að ákveða námsframboð.

Hvar eru nú kennarar, deildarstjórar, faggreinafélög, nemendur og annað starfsfólk skólanna? Varla á það minnst nema í sambandi við skólaráð sem skal vera skólameistara til aðstoðar við stjórnun og rekstur skólans. Ekki minnst á stefnumótun, faglega umfjöllun eða annað slíkt nema, og þetta er athyglisverður punktur, þegar kemur að sérfagskólum svo sem eins og iðnskólum eða sjávarútvegsskólum. Þá er talsvert nákvæmlega kveðið á um faglega þekkingu og eins eru ákvæði um það að ef um er að ræða skóla sem annast starfsmenntun skuli sveitarstjórn gæta þess við tilnefningu í skólanefnd að fulltrúi viðkomandi starfsgreina eigi þar sæti.

Og enn spyr maður: Hvað með fagþekkingu þegar kemur að almennri menntun? Er hún einskis virði eða er hún ónauðsynleg? Endurspeglar þetta það viðhorf að starfsmenntun sé megintilgangur menntunar og að menntun hafi lítið gildi í sjálfu sér? Eru þetta aftur peningasjónarmið sem ná yfirhöndinni, einkunnarorðið: hagnýtt skal það vera? Þessi lög eru rammalöggjöf og ekki e.t.v. við því að búast að í þeim sé að finna mörg orð eða yfirlýsingar um,gildi menntunar og menningar, tilgang og stefnu. Ákaflega margt á að ákveðast með reglugerðum þannig að ekki er auðvelt að greina neina menntunarstefnu í lögunum, en svona ákvæði eins og tilgreind eru hér að ofan ýta undir þann grun að það sé ekki óskað aðildar skólafólks í stefnumótun. Það eigi bara að kenna það sem fyrir það sé lagt og hagnýti og þarfir atvinnuvega og efnahagslífs beri þar hæst.

Þetta er e.t.v. ótímabær svartsýni, en ég hlýt þó að spyrja: Því er ekki skólafólk kallað til og hvað veldur? Var það gleymska eða liggur eitthvað annað að baki?

Mig langar aðeins að víkja aftur að valddreifingu sem er lykilorð í allri hugmyndafræði okkar kvennalistakvenna, vinnubrögðum og framkvæmd. Okkur þykir það harla lítil valddreifing að færa vald frá einni stofnun til annarrar en ganga fram hjá því fólki sem á að framkvæma lögin og búa við þau og vera í raun holdgerving laganna, gefa þeim líf og anda. Pólitískt kjörnir fulltrúar til að tróna yfir öllu og öllum eru ekki okkar hugmynd um valdreifingu. Hvað gerir þá betur hæfa en fagfólk, nemendur og starfsfólk til að fjalla um skólamál? Það getur verið ágætt að pólitískt kjörnir fulltrúar beri einhvers konar fjárhagslega ábyrgð, í þessu tilfelli sveitarstjórnarmenn gagnvart ríkisvaldi, beiti þrýstingi á fjárveitingarvaldið og vinni að öðrum ytri málefnum, en innri starfsemi eiga þeir ekki að skipta sér af.

Virðulegi forseti. Það má vera að einhverjum þyki ég fjölyrða um of um þetta atriði, þ.e. um pólitísk yfirráð skóla gagnstætt faglegri stjórn, miðstýringu í stað valddreifingar, en í augum okkar kvennalistakvenna er þetta slíkt grundvallaratriði að við hljótum að fjölyrða um það og mótmæla harðlega.

Við hefðum gjarnan viljað fagna fram komnu frv. um löggjöf til framhaldsskóla af hellum hug því þess hefur lengi verið beðið og á því er brýn nauðsyn, en svona eins og það liggur fyrir núna finnst okkur það ekki gleðiefni. Við viljum heldur óreiðu lögleysu þar sem skólafólk ræður þróuninni þó heildarstefnu kunni að vanta en heildarstefnu þar sem skoðanir skólafólks eru fyrir borð bornar, óttumst að afleiðing verði stöðnun en ekki framfarir, íhaldssemi í stað framsýni og að betur hefði verið heima setið en af stað farið.

Annað getum við kvennalistakonur ekki látið hjá líða að nefna áður en lengra er haldið og það er að gagnrýna samsetningu þeirrar nefndar sem skipuð var til að semja framlagt frv. Í þeirri nefnd áttu sæti sjö menn, ærið einlitur hópur, allt karlmenn í stjórnunarstörfum, aðeins tveir skólamenn, báðir fyrrverandi. Hefur það farið fram hjá ráðamönnum hverjir eru fjölmennastir í skólastörfum? Það eru konur. Þær eru að vísu ekki mjög fjölmennar í stjórnunarstörfum og aðrir eiga víst ekki greiða leið eða rétt til ákvarðana eða stefnumótunar. En þetta er ein birtingarmynd þeirrar forræðishyggju sem einkennir þetta frv. svo mjög.

Það er vitað að margt er ólíkt með aðstöðu og lífsskoðun karla og kvenna. Allir segja nú - a.m.k. upphátt, um hugskotið veit maður ekkert - að jafnrétti kynjanna sé keppikefli, aðstöðu- og launamun kynjanna verði að jafna, hag fjölskyldu verði að rétta o.s.frv. Hvernig dettur mönnum þá í hug að skipa nefnd um skólamál án þess að hafa konur með í ráðum? Ég tala ekki meira í bili um hitt, þ.e. um breidd og faglega þekkingu. Nú er ég einungis að tala um konur. Vita ráðamenn ekki að í skólum er hægt að leggja grunn að gjörbreyttum viðhorfum, eða vita þeir það einmitt svona vel? Í menntun, menningu og sköpun liggur afl breytinga. Er það virkilega hald manna að afl breytinga liggi hjá opinberum embættismönnum, miðaldra og þaðan af eldri karlmönnum? Það er eins og menn séu slegnir blindu, sjái ekki og skynji ekki hvað er að gerast í kringum þá. Eða eru þeir að reyna að stöðva tímann? Þá hljóta þeir að vita að það er vonlaust mál. Flóðbylgja tímans fer þá bara fram hjá þeim og þeir standa eftir eins og nátttröll, e.t.v. eins og einhvers konar klettar í hafinu, rótfastir og geta ekki fylgt með straumnum.

Víkjum þá að einstökum greinum frv. Vert er að taka það fram að við sjáum auðvitað ekki ástæðu til að vera að flytja brtt. sem hníga í sömu átt og brtt. meiri hl. sem sumar hverjar eru að okkar áliti til bóta.

1. brtt. okkar kvennalistakvenna tekur til 2. gr. frv. Við vildum kveða betur á um hlutverk skólanna. Okkur finnst ekki nóg að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi, heldur finnst okkur nauðsynlegt að jafnréttisandinn svífi þar líka yfir vötnum með tilliti til ofansagðs. Lýðræði tryggir ekki endilega jafnrétti og jafnréttið tekur þá auðvitað líka til búsetu, kyns, efnahags og ástands hvers og eins sem reyndar er áréttað enn betur með því að tala um menntun miðað við hæfni, þroska og námsgetu. Þessi síðasta setning ætti þá að tryggja óvefengjanlega rétt fatlaðra og/eða annarra sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að tileinka sér nám.

Næsta hlutverkslýsing er eftirfarandi: að efla félagsþroska nemenda, menningu og mannúð. Þetta eru allt lykilorð, eiginleikar sem fólk verður að þroska með sér ætli það að búa í sátt innbyrðis og við aðrar þjóðir. Við söknum þess líka að hvergi var minnst á menningu í öllu frv., hvorki þjóðlega né aðra. Er þó ljóst að menning okkar er okkur höfuðnauðsyn, ein helsta réttlæting tilveru okkar sem þjóðar.

Varðandi 3. gr. frv. kom fram ánægjuleg brtt. frá meiri hl. þar sem nú er kveðið á um að ríkið greiði allan kostnað við byggingu heimavista. Það kom greinilega fram í viðtölum við menn að eins og hátturinn átti að vera óttuðust menn heimóttarskap þar sem heimavistir eru augljóslega ekki fyrir heimamenn heldur fyrir aðkomufólk.

Næsta brtt. sem við flytjum er við 5. gr. frv. þar sem kveðið er á um að menntmrn. fari með yfirstjórn mála er þessi lög taka til og annist námsskrárgerð, kennslueftirlit og ráðgjöf um þróunarstörf er snerta framhaldsskóla og við viljum bæta við: í samráði við faggreinafélög. Þessi háttur mun í raun vera hafður á í námsskrárgerð og öðrum slíkum hlutum, að samvinna við faggreinafélög er í verki og finnst okkur því bæði eðlilegt og nauðsynlegt að lögfesta það starfslag.

7. gr. látum við standa óbreytta. Það kann að koma einhverjum á óvart en það stafar af því að breytingar á hlutverki skólanefndarinnar eru svo tilgreindar í brtt. við 8. og 9. gr. frv. þar sem við ætlum skólanefnd og skólaráði allt annað hlutverk en lagt er til hjá meiri hl. og ætla ég að leyfa mér að lesa 8. og 9. gr. í heild eins og við kvennalistakonur leggjum til að þær hljóði. Greinin orðist svo:

„Skólanefnd undirbýr árlega ásamt skólameistara tillögur til fjárlaga og sendir þær menntamálaráðuneytinu. Í upphafi hvers árs gerir skólanefnd fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgist með að henni sé framfylgt.

Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga, svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar og um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur.

Heimilt er skólanefnd að stofna sérstaka sjóði við framhaldsskóla. Skal um þá sett skipulagsskrá, leitað staðfestingar á henni og hún birt í Stjórnartíðindum.“

Ástæða er til þess að taka fram varðandi þessa grein að það liggur síðan frammi brtt. frá meiri hl. um að nemendur skuli hafa tillögurétt um skólagjöld þannig að okkur fannst í lagi að þetta stæði þannig áfram. Þarna látum við líka í ljós þá skoðun að það sé ekki af hinu illa að sveitarstjórnarmenn eða pólitískt kjörnir fulltrúar hafi íhlutun um fjármál skóla og framkvæmdir.

9. gr. leggjum við til að hljóði svo: „Skólameistari stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að starfsemi hans sé í samræmi við lög, reglugerðir, námsskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma.

Skólaráð skal starfa við hvern framhaldsskóla. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað fulltrúum kennara og nemenda svo og aðstoðarskólameistara starfi hann við skólann.

Skólaráð, deildarstjórar skólans og skólameistari marka stefnu í skólahaldi og ákveða námsskrár með samþykki skólanefndar og menntamálaráðuneytis.

Um skipan skólaráðs, verksvið þess, starfstíma og starfshætti skal nánar kveðið á í reglum sem menntmrn. setur.

Skólameistari annast framkvæmd þeirra ákvarðana sem skólaráð og skólanefnd taka.“

Ekki er þörf á að fjölyrða mikið um þessar breytingar, svo mjög sem það var undirstrikað hér á undan og í nál. Þar undirstrikuðum við hvar við álítum að valdið eigi að liggja. Nokkur atriði kunna þó að þarfnast skýringa eins og þetta sem ég hef þegar tiltekið um 8. gr. og varðandi skólanefndina, þ.e. við höldum því hér inni að námsframboð skuli ákveðið með samþykki skólanefndar og menntmrn. og þykjumst við sýna talsverða sanngirni með því að halda því inni.

5. brtt. er við 12. gr. laganna. Þar held ég að ég kjósi líka að lesa greinina í heild, þar sem við leggjum þar til talsvert miklar breytingar. Greinin orðist svo:

„Um fjölda starfsmanna og skiptingu starfa fer eftir stærð og gerð skóla hverju sinni. — " Þarna er sleppt orðunum „og fjárveitingu hverju sinni“ því að fjárveitingin hlýtur að eiga að miðast við stærð og gerð skóla.

„Við hvern framhaldsskóla skal starfa námsráðgjafi, einn eða fleiri [og er þetta nýmæli], og skal miða fullt starf við 300 nemendur. Jafnframt skulu nemendur eiga kost á sálfræðiþjónustu.“ Það kann vel að vera að við þetta sé átt hér í 12. gr. eins og hún er nú í frv., en er þó mjög óljóst orðað. Það er mikil þörf á því í framhaldsskólum að þar séu starfandi námsráðgjafar því að sú skylda er lögð á nemendur strax mjög unga að taka stefnu í sínu námi, taka þá stefnu að velja sér lífsstarf mjög ung þannig að það veitir ekki af að þarna séu námsráðgjafar sem nemendur geti leitað til þegar kemur að starfsvali og öðrum ákvörðunum.

„Menntamálaráðherra setur eða skipar skólameistara framhaldsskóla að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólaráðs“ sem er þá breyting frá skólanefnda. „Menntamálaráðherra setur eða skipar fasta kennara að fengnum tillögum skólaráðs [aftur] og skólameistara viðkomandi skóla. Skólameistari ræður stundakennara í samráði við deildarstjóra [og er það líka nýmæli] og aðra starfsmenn í samráði við skólaráð. Leita skal staðfestingar menntamálaráðuneytis hafi kennari ekki kennsluréttindi.“

Við 13. gr. er ein brtt. Það er í lok 13. gr.: Reglur um störf annars starfsfólks setur skólanefnd“ verði: setur menntamálaráðuneytið.“

Við 14. gr. gerum við þrjár brtt., þ.e. að kennari, sem vill sækja um sérstakt orlof, skuli senda ekki „skólanefnd og menntmrn." umsókn sína heldur skólaráði og menntmrn. og er það til samræmis við aðrar hugmyndir okkar um starfsemi skólanefndar og skólaráðs.

Auk þess leggjum við til að undanþágu sé hægt að gera frá ákvæðinu um 5 ár. Hljóðar málsliðurinn svo:

„Heimilt er að veita undanþágu frá ákvæði um a.m.k. 5 ár við sérstakar aðstæður (svo sem skipulagningu nýrra námsbrauta, endurskipulagningu náms, endurnýjun námsefnis og þess háttar).“ Þarfnast þetta ekki mikilla skýringa, einungis er ítrekað að skólinn þarf að vera í sífelldri endurnýjun og geta brugðist skjótt við breyttum aðstæðum og því meiri þörf nú heldur en nokkru sinni fyrr á endurmenntun, símenntun og fjölbreytni ýmissi af því tagi.

Þriðja breytingin er svo aftur að skýrslu um þetta orlof skuli viðkomandi senda skólaráði í stað skólanefndar.

15. gr. kveður á um heilsuvernd í framhaldsskólum. Við erum að vísu ekki með brtt. þar að lútandi en vekjum athygli á því að þarna eru fagleg sjónarmið virt. Eins er ákvæðið um heilsuvernd harla lítilsvert ef ekki er öflug fyrirliggjandi starfsemi í gangi í samræmi við ýtrustu hollustukröfur. Mataræði er þar stór þáttur, ekki síst með tilliti til þess að nemendur eru á orkuríkasta aldrinum, eru að vaxa og þurfa mikinn þrótt ef vel á að vera, auk þess sem þarna er lagður grunnur að áframhaldandi heilbrigði. Við erum reyndar með brtt. hér seinna um mötuneyti. Íþróttaiðkun, heilbrigðisfræðsla, fræðsla um skaðsemi áfengis og tóbaks og annarra vímuefna þarf að vera fyrir hendi. Allt eru þetta þættir virkrar heilsuverndar og hefði mátt skilgreina þetta allt öllu betur, en vonandi verður það gert í reglugerð.

Við 16. gr. gerum við brtt. Það er að inn bætist nýr málsliður sem orðist svo:

„Skylt er að gefa þessum nemendum kost á fornámi í einstökum námsáföngum ef á þarf að halda.“ Þarna er átt við nemendur sem orðnir eru eldri en 18 ára og eins og kveðið er á um fyrr í þessari grein eiga nemendur sem þurfa á að halda að stunda fornám í einstökum námsgreinum. Okkur fannst ástæða til þess að kveða á um að þetta ætti líka að vera fyrir hendi fyrir þá nemendur sem detta út úr skóla um tíma af einhverjum ástæðum og kjósa að hefja nám að nýju, að það eigi með öllu móti að gera þeim það auðveldara og greiða götu þeirra og því eigi þarna að vera þessi kostur á fornámi ef þeir þurfa á að halda.

9. brtt. okkar er við 17. gr. Þar viljum við taka út orðin „að því er varðar undirbúning til starfa eða áframhaldandi náms“ og viljum að 1. málsl. greinarinnar hljóði svo: „Nám í framhaldsskóla skal fara fram á námsbrautum sem tilgreindar eru eftir markmiðum námsins“ og þykir nóg sagt með því.

10. brtt. er við 18. gr. frv. sem hljóðar svo nú: „Lögð skal áhersla á tengsl verklegra og bóklegra þátta námsins.“ Við viljum gjarnan að þessi mgr. orðist svo: „Lögð skal áhersla á tengsl list- og verkmenntunar við hinn bóklega þátt námsins.“ Ástæða er til þess að nefna þarna listmennt þótt henni sé nú ekki gert hátt undir höfði að öðru leyti því að hún flokkast hvorki undir verk- eða bókmennt. Framhaldsskólar hafa listmennt ekki á námsskrá nema þá sem valgrein eða sem sérstakar brautir, sem er þó ekki víða, og þá helst tónlistarbrautir í samvinnu við tónlistarskóla. Nemendum er ekki gert skylt að tileinka sér neitt varðandi listir og myndast þannig gat í skólakerfinu þar sem í grunnskólum er lögð áhersla á tónmennt, handmennt, myndmennt og fleira af þeim toga þó að vísu gangi mjög misjafnlega að framfylgja þeim ákvæðum. Sérstaklega vantar mikið á úti á landsbyggðinni að þeim ákvæðum sé framfylgt, en þetta eru atriði sem þyrfti að athuga mjög vendilega þegar kemur að námsskrárgerð fyrir framhaldsskóla því að það er alveg ljóst að þarna verður mjög alvarleg gloppa í menntun unglinga. Síðan er þeim ætlað hugsanlega að velja sér þessar greinar til náms þegar þau koma á æðri skólastig, þ.e. eftir framhaldsskóla, og er vandséð hvernig nemendur, t.d. sem fara í Kennaraháskóla, eiga allt í einu að velja sér greinar eða svið sem ekki hefur verið minnst á við þau síðan þau voru 12 ára gömul eða svo. Þessi brtt. okkar er sem sagt heldur veikburða tilraun til að koma listmennt að svo að það orð komi þó einu sinni fyrir í frv.

Í sömu grein leggjum við til að í stað orðanna „skal heimilt“ komi: „er skylt“, þ.e. „auk skyldunámsefnis er skylt að gefa nemendum kost á valgreinum að uppfylltum skilyrðum sem sett skulu í námsskrá“.

Við 19. gr. erum við ekki með brtt. en aftur er brtt. við 20. gr. og hún er af sama toga og margar fleiri að eftir orðunum „menntmrn. setur“ komi: „í samráði við faggreinafélög“.

Næsta brtt. okkar er við 32. gr. og get ég þó ekki stillt mig um að minnast hér á 30. gr. en mér sýnist að með þeim brtt. sem meiri hl. leggur til auk þeirra brtt. sem við erum með bæði í hlutverkalýsingu skóla og seinna varðandi stundafjölda megi fatlaðir vel við una ef þær brtt. ná allar fram að ganga. Við fluttum því ekki neina brtt, við 30. gr. sjálfa. Í brtt. okkar við 32. gr. leggjum við til að á eftir 32. gr. komi ný grein sem orðist svo:

„Mötuneyti skulu rekin við alla framhaldsskóla. Nemendur bera sjálfir kostnað vegna hráefnis. Launakostnaður starfsfólks mötuneyta greiðist úr ríkissjóði.“ Mötuneyti eru að vísu rekin í þeim skólum þar sem eru heimavistir, en nemendur búa þó við þau einkennilegu skilyrði að þeim er sjálfum gert að greiða launakostnað starfsfólks í mötuneytum öfugt við það sem er um t.d. launakostnað starfsfólks við sama skóla þar sem ríkissjóður ber þann kostnað. Þarna þykir okkur sjálfsagt að nemendur sitji við sama borð og aðrir og þurfi ekki að greiða þennan launakostnað sjálfir. Vil ég í því tilefni minna á þáltill. sem lögð var hér fram fyrr í vetur af kvennalistakonum, m.a. um launakostnað við mötuneyti framhaldsskóla þar sem einmitt var verið að gera tilraun til þess að kippa þessu sama í lag. En það er miklu víðar en í heimavistum sem þörf er á að hafa mötuneyti og vísa ég þá til þess sem ég sagði áðan um hollustuvernd í skólum og breytta þjóðfélagsháttu sem gera það að verkum að þetta er mikið nauðsynjamál að nemendur á þeim aldri sem algengastur er í framhaldsskólum eigi kost á hollri og góðri máltíð um skólatímann og þurfi ekki að búa við svokallað sjoppufæði meiri hluta dagsins.

13. brtt. er við 34. gr. Þar er kveðið á um fjárveitingu til rekstrar framhaldsskóla og hljóðar greinin svo núna í frv.:

„Við ákvörðun fjárveitinga til kennslu í framhaldsskólum skal miða við grunntöluna 1,7 til 2 kennslustundir á viku á hvern nemanda í fullu bóknámi eftir stærð og gerð skóla.“ Við þetta leggjum við til að bætist eftirfarandi: „Þessu til viðbótar skal koma sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda megi uppi kennslu í viðurkenndu verknámi og sérnámi er krefst skiptingar nemenda í smáa námshópa, svo og þar sem smæð skóla eða fámenni krefst þess.“ Einnig leggjum við til að við bætist ný málsgrein: „Auk þess bætist við sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda uppi sérkennslu fatlaðra nemenda.“

Það var mál manna sem hafa komið til viðtals við menntmn., sérstaklega þeirra sem komu utan af landi, að þessi grunntala, viðmiðunartala, 1,7–2 kennslustundir á viku, kynni að vera ágæt viðmiðun við skóla í þéttbýli en hætta væri á að þetta dygði ekki í fámennari skólum og því þyrfti að gera þarna á bragarbót og teljum við okkur gera það með þessari brtt. auk þess sem þarna er fastar kveðið á um þá sérkennslu eða þann kennslustundafjölda sem kann að skapast af þörfum fatlaðra nemenda.

14. brtt. er svo við 39. gr. sem yrði þá 40. gr. samkvæmt þessu. Sú grein hljóðar svo: „Heimilt er að lána skólahúsnæði til félagsstarfsemi utan reglulegs skólatíma, enda greiðist fyrir leiga sem nemur a.m.k. kostnaði fyrir rafmagn, hita, ræstingu og vörslu. Skólanefnd setur almennar reglur um slíka ráðstöfun skólahúsnæðis.“ Við þetta leggjum við til að bætist: „Greinin tekur ekki til félagsstarfsemi nemenda skólans“ til að taka af öll tvímæli um það að nemendur eigi ekki með sínu félagsstarfi að standa straum af rekstri skólahúsnæðis utan skólatíma.

Síðustu brtt. eru svo við 41. gr. sem er um lög sem eiga að falla úr gildi við gildistöku þessara laga. Leggjum við til að 1. tölul. og 10. tölul. greinarinnar falli burtu. Taka þeir báðir til hússtjórnarfræðslu, á mismunandi stigum þó. 1. tölul. tekur til húsmæðrafræðslu og 10. tölul. til Hússtjórnarkennaraskóla Íslands. Okkur finnst ekki gott að þessu sé öllu kippt burt án þess að nokkur áætlun liggi fyrir um hvernig þessum málum skuli háttað og viljum í þessu sambandi benda á að það nær auðvitað ekki nokkurri átt að þessar námsgreinar skuli felldar niður án þess að þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að kennslu í þeim verði haldið uppi og haldið áfram.

Það kann að vera að það sé tímanna tákn að þarna skuli ekki liggja frammi neinar tillögur um hvernig að þessum málum skuli standa. Það getur vel verið að það sé skoðun fólks að sú menntun sem þarna hefur verið veitt sé það lítilsverð að á henni þurfi enginn að halda. Það er mjög nauðsynlegt að halda uppi viðlíka menntun í framhaldsskólakerfinu. Æskilegt er náttúrlega að hún flokkist undir einhvers konar heimilisfræðslu sem er meira réttnefni en húsmæðrafræðsla. Í framhaldsskólum ættu auðvitað allir nemendur að fá gagngera menntun í heimilisfræðslu, ýmiss konar, þar sem það á fyrir flestum að liggja að stofna heimili, eignast börn. Full þörf er á því að allir, jafnt karlar sem konur, hafi þekkingu á þeim störfum sem til falla á heimili, svo sem matargerð, heimilishaldi ýmiss konar, þjónustustörfum og barnauppeldi ekki síst. Beinast lægi við að tengja þess konar nám jafnréttisfræðslu því að það hlýtur að vera mikill grunnur að því að einhver árangur náist í þeim efnum að jafnrétti ríki innan veggja heimilisins þegar þar kemur til starfa og ábyrgðar. Eins vil ég aftur minna á það sem ég sagði hér áður um nauðsyn þess að jafnréttisfræðsla sé í skólum þar sem þar er akurinn. Þar er hægt að sá og uppskera ef menn meina það sem þeir segja um nauðsyn þess að efla jafnrétti og jafnréttisvitund þjóðarinnar.

Ég vil bara að lokum árétta nauðsyn þess að ræða þessi má.l gaumgæfilega. Það ber að harma að svo fáir þm. skuli vera viðstaddir umræðu um skólamál. Þingsalurinn í dag er svipur hjá sjón hjá því sem var í gær þegar bjór var hér til umræðu og þykir kannski bæði þm. og fjölmiðlum það öllu merkara umræðuefni en hvernig staðið skuli að menntun og uppeldi þjóðarinnar. En við megum þó ekki gleyma því eða missa sjónar á því að það hvernig að þeim málum er staðið er mál mála og af því hvernig til tekst með uppeldis- og menntunarmál ræðst allur annar árangur þjóðarinnar og líf hennar, bæði í andlegum og veraldlegum skilningi.