19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6601 í B-deild Alþingistíðinda. (4573)

271. mál, framhaldsskólar

Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það stjfrv. sem hér er til umræðu fjallar um býsna mikilvægt mál sem ekki hefur hlotið afgreiðslu og eðlilega umfjöllun hér á Alþingi um mjög langt skeið. En frv. sem við fjöllum hér um, þótt það sé fagnaðarefni að það skuli hafa komið fram, er ekki gallalaust. Satt best að segja er það svo meingallað að ekki verður við unað nema gerðar séu á því veigamiklar breytingar.

Í upphafi vil ég minna á þau þrjú meginatriði sem ég tel meginágalla þessa frv. Í fyrsta lagi tel ég að í frv. sé allt of mikil miðstýring og það skorti þar valddreifingu frá ráðuneytum menntamála og fjármála til heimamanna, kennara, nemenda og skólameistara. Í öðru lagi tel ég að það viðhorf komi ekki nægilega skýrt fram í frv. að framhaldsskólinn sé fyrir alla á viðkomandi aldursskeiði en ekki bara þá sem ráða við það nám sem boðið er upp á. Í þriðja lagi tel ég að frv. lýsi skilningsleysi á aðstöðu minni skóla í dreifðum byggðum landsins, að ákvæði frv. um rekstur skólanna mótist um of af einföldum þríliðureikningi og að byggingarkostnaður skólanna leggist í allt of þungum mæli á sveitarfélögin og það sé ekki sanngjarnt miðað við það sem á undan er gengið.

Þetta eru þau þrjú atriði sem ég legg langmesta áherslu á. Ég legg hins vegar jafnhliða áherslu á það að það er þjóðarnauðsyn að sett verði samræmd heildarlög um framhaldsskólana vegna þess að núverandi löggjöf er frumstæð. Hún felur í sér verulega fjárhagslega mismunun gagnvart bæði kjördæmum og sveitarfélögum. Verknámið situr ekki við sama borð og bóknámið. Kerfið er almennt illa samræmt. Það býður upp á óteljandi blindgötur og núverandi kerfi mótast af allt of mikilli miðstýringu sem við þurfum að hverfa frá. Ég er ekki að segja það að í frv. ráðherrans sé miklu meiri miðstýring en er í dag í gildandi kerfi, en hún er allt of mikil. Það er úrelt fyrirbrigði sem við búum við og við hefðum þurft að nota þetta tækifæri til þess að hverfa frá henni. Ég legg á það áherslu í nál. sem ég hef gefið út um þetta mál að ef athugað er hverjir hafa völdin í skólastarfinu þurfi það ekki að dyljast neinum að allir þræðir liggja um hendur ráðherra. Ráðherrann skipar skólanefndarmennina, hann skipar skólameistarann, hann skipar alla fasta kennara. Og ekki nóg með þetta. Hann á líka að setja reglur um það hvernig tilnefningum í skólanefnd skuli háttað og tilnefna formann nefndarinnar án tilnefningar. En það sem kannski er alvarlegast er það að nemendur og kennarar eiga ekki aðild að neinni þeirri stofnun sem einhver völd hefur í þessu kerfi. Þeir eiga aðild að skólaráði sem virðist algjörlega valdalaus stofnun en þeir eiga ekki nokkurn rétt til áhrifa á skipun skólanefndanna.

Í þessu sambandi þykir mér eðlilegt að rifja það upp að við þm. Alþb. höfum hvað eftir annað flutt frv. um framhaldsskóla hér á Alþingi, bæði í Ed. og Nd., og þar er allt aðra stefnu að finna í veigamiklum atriðum. Við leggjum þar áherslu á verulega valddreifingu og svo að það atriði sem ég nefndi núna sé gert frekar að umræðuefni reiknum við einmitt með því að kennarar og nemendur eigi beinlínis sæti í skólastjórn og það sé síðan skólastjórnin sem kjósi skólastjórann. Það sjá auðvitað allir að með þessu er veruleg valddreifing frá núverandi kerfi eða því kerfi sem er í frv.

En ekki nóg með það. Við leggjum líka til að þessi sama skólastjórn, sem ráðherrann hefur sem sagt ekkert með að gera, velji kennarana. Í stað þess að ráðherra sitji við að gefa út skipunarbréf, bæði til skólanefndarformanna og kennara og skólameistara um allt land, og þau eru býsna mörg, það get ég fullvissað menn um, er hér gert ráð fyrir að dreifa valdinu, hverfa frá þessari úreltu miðstýringu og efla með því sjálfstæði skólanna í þeim gagngera tilgangi að reyna að laða fram áhuga heimamanna, áhuga þeirra sem við skólana starfa og ýta undir frumkvæði þeirra í skólastarfinu. En þegar öll völd eru dregin á eina hönd, eins og gert er í núverandi kerfi og eins og gert er ráð fyrir í frv. ráðherrans, er sannarlega hætt við að um leið sé verið að leggja dauða hönd á það frumkvæði sem þarf að spretta upp í skólunum, á þann áhuga sem þarf að vera fyrir hendi í kringum skólastarfið.

Ég nefndi í öðru lagi að skólarnir þyrftu að vera fyrir alla. Þetta atriði bar fljótt á góma í nefndarstarfinu. Ég vakti þar máls á því að mér líkaði ekki markmiðsorðalagið í frv. og ég er þakklátur fyrir það að meiri hl. nefndarinnar féllst á að breyta orðalaginu þannig að í brtt. nefndarinnar er svo tekið til orða að hlutverk skólanna sé að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi með því að skapa skilyrði til náms og þroska við allra hæfi. Ég er hins vegar á því að þetta þurfi að koma enn þá skýrar fram í frv. og að þessi hugsun þurfi að ganga í gegnum allt frv., að það þurfi að vera sérstakt ákvæði í 16. gr. þar sem segir hreinlega:

Tryggja skal að allir nemendur eigi kost á námi við hæfi.

Nú kunna menn að spyrja: Hvað er eiginlega átt við með þessu? Er ekki alveg ljóst að sumir nemendur eru hæfir til þess að stunda nám í framhaldsskólunum og sumir ekki? Sumir eru bara best komnir strax úti á vinnumarkaðinum vegna þess að þeir hafa ekki námshæfileika. Þetta er viðhorf sem við þekkjum vel, en að mínum dómi er þetta úrelt viðhorf. Ég lít svo á að í nýju framhaldsskólakerfi eigi ekki að stilla upp spurningunni á þennan veg, hvort nemendurnir séu hæfir fyrir kerfið. Það á að snúa spurningunni við og spyrja: Er kerfið hæft fyrir nemendurna? Er kerfið þannig úr garði gert að nemendur ráði við það? Ef þeir ráða ekki við það nám sem boðið er upp á í dag hlýtur að vera hægt að skipuleggja námið á annan veg fyrir þennan hluta nemendanna þannig að þeir hafi eitthvað til framhaldsskólanna að sækja því að staðreyndin er sú að það eru um 30% úr hverjum aldursárgangi sem heltast algerlega úr lestinni og eiga ekki heima í framhaldsskólakerfinu. Við getum kallað það skort á námshæfileikum sem þessu valdi, við getum kallað það áhugaleysi, við getum kallað það leti. Það eru til ótal skýringar á þessu fyrirbrigði, en staðreynd er fyrirbrigðið engu að síður. 30% eru ekki með, heltast úr lestinni. Við hljótum að spyrja okkur sjálf að því: Er þá ekki eitthvað að í kerfinu? Er ekki hugsanlegt að bjóða þessu fólki upp á eitthvað sem það getur haft gagn af, eitthvað sem eykur þroska þessara nemenda, hentar þessu fólki, greindarstigi þess, áhuga þess og öllum aðstæðum? Gamla viðhorfið er að dæma þessa nemendur út úr kerfinu og segja: Nemendurnir hafa hér ekkert að gera. Ég geri kröfu til þess að í nýju kerfi sé sá hugsunarháttur aflagður og að við spyrjum frekar: Hvernig er hægt að skipuleggja starfið í skólunum þannig að þetta fólk geti öðlast meiri þroska en það hafði áður með því að sækja til skólanna nám og reynslu? Þess vegna flyt ég tillögu sem viðbót við 16. gr., einfaldlega á þennan veg: „Tryggja skal að allir nemendur eigi kost á námi við hæfi.“

Ég gat þess hér í upphafi að í þriðja lagi hefði ég nokkuð að kvarta yfir dreifbýlisstefnu frv. Ég álít að stefna þess gagnvart minni skólum í dreifðum byggðum landsins utan þéttbýlissvæðisins við Faxaflóa sé mjög varhugaverð, að ekki sé nú meira sagt. Þar á ég fyrst og fremst við 32. gr. þar sem eru ákvæði þess efnis að framlög ríkisins til skólanna verði miðuð við tiltekna upphæð á hvern nemanda árlega og þessi upphæð verði sem næst jafnhá hvar sem er á landinu og svo aftur 34. gr. þar sem er ákveðið að 1,7–2 kennslustundir á viku komi á hvern nemanda í bóknámi eftir stærð og gerð skóla. Ég held að það sé alveg augljóst að kostnaður á nemanda er ekki sá sami í litlum skólum og stórum. Það eru oft tvöfalt, jafnvel þrefalt fleiri nemendur í kennslustundum á skólasvæðum þar sem nemendur skipta tugum þúsunda en eru í skólum sem hafa kannski aðeins 200–300 nemendur í aldursárangi. Það er gerð tilraun til þess í frv. að leysa þennan vanda með þríliðureikningi en þannig dæmi ganga aldrei upp.

Ég vek á því athygli að skólameistarar í minni framhaldsskólum hafa mjög kvartað yfir þessu ákvæði, telja það þröngt, telja að það geti dregið stórlega úr námsframboði í minni skólum og þannig gert skólana lélegri en þeir eru í dag. Ég vísa sérstaklega til álits skólameistara Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki sem reiknaði það hreinlega út að þetta gæti haft í för með sér að dregið yrði úr kennslu út um land sem næmi 80 kennurum í skólunum úti á landi. Sumir hafa dregið þessa tölu í efa og talið að talan ætti að vera eitthvað lægri en það breytir ekki öllu. Þarna er væntanlega um að ræða skerðingu á kennslu út um land sem nemur mörgum tugum kennarastarfa á hverjum vetri. Ég er ekki reiðubúinn að slá því föstu hvert svigrúmið þarf að vera til þess að viðunandi sé. Ég legg hins vegar til að þessi þríliðuákvæði frv. séu hreinlega felld á brott og að þetta sé haft opið eins og reyndar er í núgilandi kerfi og eins og er auðvitað í grunnskólakerfinu.

Ég er ansi hræddur um að þetta ákvæði geti orðið menntmrn. alvarlegur fjötur um fót. Þegar það ætlar að fara að afla tekna, afla framlaga frá fjmrn., til kennslu í menntaskólunum mun hagsýsludeild fjmrn. segja: Ja, lögin gera bara ekki ráð fyrir meira svigrúmi en hér er fyrir hendi og þið verðið að gjöra svo vel að sætta ykkur við þær upphæðir sem við erum hér að gera tillögu um jafnvel þó að þær séu veruleg skerðing frá því sem verið hefur undanfarin ár.

Það er ekki nóg að segja í frv. að veita megi viðbótarsvigrúm í verknámi og sérnámi eða að heimilt sé að taka tillit til aðstæðna. Það skilja það allir að þá er átt við sérstök tilvik. En það er bara nokkuð almennt fyrirbrigði sem ég er að ræða um, að minni skólarnir þurfa á meira svigrúmi að halda en hér er gert ráð fyrir.

Til viðbótar tel ég að ákvæði frv. um byggingarkostnað sé ekki eðlilegt miðað við það sem á undan er gengið. Við þekkjum það að framhaldsskólakerfið hefur verið byggt upp sumpart sem menntaskólakerfi, sumpart sem fjölbrautaskólakerfi. Víða út um land hafa verið byggð skólahús sem ríkið hefur kostað að öllu leyti. Annars staðar er verið að byrja að byggja þessi hús og þá er ekkert réttlæti í því að frá og með setningu þessara laga verði viðkomandi sveitarfélög að leggja miklu, miklu meira fram til byggingar skólanna en mörg önnur sveitarfélög hafa þurft að gera. Þetta verður að vísu alltaf vandamál meðan gert er ráð fyrir einhverri stofnkostnaðaraðild sveitarfélaganna, en ég held að vandamálið verði auðvitað töluvert miklu minna ef fylgt væri tillögu okkar alþýðubandalagsmanna þar sem gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin eigi ekki að leggja fram nema 20% af kostnaði.

Ég ætla svo að víkja nokkrum orðum að tillögum þeim sem ég hef lagt fram á þskj. 864. Tillögurnar á fremstu síðunni skýra sig nokkuð sjálfar. Það er í fyrsta lagi breytingin á kostnaðarákvæðum. Í öðru lagi kemur hér tillaga okkar um allan stjórnsýslukaflann, þ.e. hvernig stjórnun skólanna skuli háttað. Ég sá enga ástæðu til þess að fara að kroppa í einstakar greinar frv. Ég taldi eðlilegast að koma bara með heilsteypta tillögu um það hvernig eðlilegast væri að þessari stjórnun yrði háttað og ég mun ekki gera kröfu til þess að brtt. mínar verði bornar upp lið fyrir lið, ein í einu. Það er eðlilegt að kaflinn í heild verði borinn upp og nái hann samþykki deildarinnar kemur hann að öllu leyti í staðinn fyrir stjórnarkafla frv., en sé mín tillaga felld falla allar tillögurnar þar með.

Um 3. brtt. er það helst að segja að þar er lögð áhersla á það að við hvern framhaldsskóla starfi námsráðgjafi einn eða fleiri og skal miða við fullt starf á hverja 300 nemendur. Verksvið hans á að vera að annast náms- og starfsráðgjöf, svo og einstaklingsráðgjöf vegna vandamála sem tengjast skólagöngunni.

Í öðru lagi leggjum við áherslu á það að boðið sé upp á sérkennslu við hvern framhaldsskóla og að henni sé sinnt af sérkennurum. Ákvæði um hvort tveggja þetta vantar í frv. og hér er gerð tillaga um að úr því verði bætt.

Í fjórða lagi er það svo tillagan sem ég hef þegar rökstutt, þ.e. að öllum nemendum verði tryggt nám við hæfi.

Þar á eftir kemur svo VII. kafli frv., um námsskipan, en þar kem ég með tillögu í hellu lagi um allan kaflann og það gildir eiginlega alveg það sama um þessar tillögur og um tillögurnar sem eru í stjórnarkaflanum að eðlilegast er að bera kaflann upp í heild sinni. Ég held að mjög óaðgengilegt sé að bera tillögurnar upp grein fyrir grein vegna þess að þær skarast það mikið og þá verður að sæta því hver niðurstaða deildarinnar verður um kaflann í heild.

Þó vil ég vekja alveg sérstaka athygli á d-lið okkar brtt., en þar segir: „Nám í framhaldsskólum skal hlíta lágmarkssamræmingu.“ Það er orðalag sem ég tel ólíkt gæfulegra en orðalagið í stjfrv. þar sem talað er um námsskrá vegna þess að við erum hér að leggja áherslu með þessu orðalagi á það að afskipti ráðuneytisins af málum framhaldsskólanna eigi ekki að vera smáatriðakennd eða smásmuguleg, heldur eigi þau fyrst og fremst að felast í setningu rammanámsskrár. Það sem við þurfum að fá er hæfilegur rammi utan um skólastarfið. Það er enginn vafi á því að orðalagið sem við erum með tryggir miklu betur að ráðuneytið sé ekki að ástæðulausu með nefið niðri í smáatriðum varðandi stjórnun skólanna, heldur haldi sig við aðalatriðin.

Ég vek sérstaka athygli á þeim tillögum okkar í síðari hluta þessa kafla þar sem fjallað er um iðnfræðsluráð, meistarapróf og hið nýja fræðsluráð sjávarútvegsins sem frv. gerir ráð fyrir.

Við drögum mjög í efa að hæstv. ráðherra sé á réttri braut með því að taka út úr einn atvinnuveg í viðbót og skipa honum sérstakt fræðsluráð. Eðlilegt væri þá að spyrja hvers vegna þetta sé ekki gert varðandi aðra atvinnuvegi þjóðarinnar, af hverju sjávarútvegurinn er tekinn þarna sérstaklega út úr. Almennt erum við með miklar efasemdir varðandi ýmis ákvæði þessa kafla eins og raunar kemur fram í þeim brtt. sem við höfum lagt fram og endurspegla viðhorf okkar til þessara mála, án þess að ég geri frekari grein fyrir þeim til að þessi orð verði ekki allt of mörg af minni hálfu.

Ég hef þegar gert grein fyrir 32. gr., bæði brtt. við 32. og svo 34., en það er að ekki sé beitt þessum þríliðureikningi gagnvart framhaldsskólunum þegar reiknað er út námsframboð skólanna.

Um brtt. við 37. gr. vildi ég aðeins nefna að þar er verið að ræða um Samvinnuskólann og Verslunarskólann og skólanefndir sem við þessa skóla skuli starfa. Í tillögunni sem fram kemur í brtt. okkar er áhersla lögð á það að ráðherrann skipi formanninn án tilnefningar, en aðra nefndarmenn skv. tilnefningum eignaraðila. Þetta er ósköp einfaldlega til samræmis við það sem að öðru leyti felst í frv. ráðherrans. Við sjáum ekki ástæðu til þess að skólanefndir við þessa skóla séu skipaðir á einhvern allt annan veg en skólanefndir við aðra framhaldsskóla og okkur finnst eðlilegt að ef ráðherrann á að skipa allar skólanefndir og formenn án tilnefningar, þá eigi það líka við þessa tvo skóla.

Ég vek sérstaka athygli á tillögum okkar um fjarkennslu sem fólgnar voru í frv. því sem við fluttum í haust. Í því frv. var gert ráð fyrir að fjarkennsla gæti orðið gildur þáttur í framhaldsnámi og að Námsgagnastofnun sæi um öflun og gerð námsefnis á þessu sviði, Ríkisútvarpið annaðist útsendingar, svo sem heimild er fyrir í útvarpslögum, og útstöðvar í hverju fræðsluumdæmi önnuðust leiðbeiningar og tengsl við nemendur. Þessa hugmynd er ekki að finna í stjfrv. og hún er ekki tekin upp af meiri hluta nefndarinnar. Sama gildir um tillögu okkar um óháða eftirlitsnefnd sem fengi það hlutverk að gera reglubundna úttekt á starfi og stöðu framhaldsskóla. Slík greiningarvinna, gerð af mönnum með sérþekkingu í skólamálum, gæti orðið til mikils stuðnings fyrir rannsókna- og tilraunastarf í hverjum skóla og þannig stuðlað að æskilegri þróun skólanna og framhaldsmenntunar almennt.

Ég sagði áðan að afskipti ráðuneytisins af málum framhaldsskólanna mættu ekki vera of smáatriðakennd eða smásmuguleg. Ég lagði áherslu á að löggjöfin ætti að vera rammi utan um skólastarfið. Þessi orð vil ég ítreka hér að lokum. Ég tel að tillögur okkar alþýðubandalagsmanna miðist fyrst og fremst við það að skapa víðan ramma og að innan þess ramma sé svigrúm til valddreifingar og til lýðræðislegrar þátttöku kennara og nemenda.

Við leggjum mikla áherslu á að með fræðsluráðum í héraði og aðild þeirra að skólastarfinu sé skapað æskilegt umhverfi, stjórnunarlegt umhverfi utan um skólana. Tilgangurinn með þessu er fyrst og fremst sá að skapa vettvang fyrir íbúa á skólasvæðunum, fyrir foreldra, fyrir sveitarstjórnarmenn til að fylgjast með þróun skólanna í stað þess að þeir líti á skólana sem útibú ráðuneytisins sem þeir hafa lítið með að gera ef það eru engir heima í héraði sem hafa það verkefni að ræða þessi mál og hafa engan vettvang til að gera það. Það er t.d. töluverður munur á því hvort við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki starfar skólanefnd sem í er einn fulltrúi kosinn af sveitarstjórninni á Sauðárkróki og annar fulltrúi kosinn af sveitarstjórninni á Siglufirði og síðan kannski sá þriðji kosinn af sveitarstjórninni á Skagaströnd, eða hvort til eru í kjördæminu fræðsluráð sem íbúarnir eiga sjálfir aðild að með beinum hætti, hafa valið sér og er vettvangur til umræðna um málefni framhaldsskólans og þróun hans, sjálfstæð stofnun. Þetta er sú hugsun sem er að baki tillögum okkar alþýðubandalagsmanna. Það er von okkar að með aukinni valddreifingu og með meiri þátttöku heimamanna verði fleiri sem skynji ábyrgð sína í þessu skólastarfi en er ef þræðirnir liggja allir við hönd eins manns.